„Völin og kvölin“

Þeir sem muna eftir greinarkornum mínum, eftir að ritstjóratíð minni hjá Stykkishólms-Póstinum lauk, vita að það vafðist heilmikið fyrir mér hvernig ég gæti valið á milli þeirra tveggja hópa sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninganna.

Þeir sem muna eftir greinarkornum mínum, eftir að ritstjóratíð minni hjá Stykkishólms-Póstinum lauk, vita að það vafðist heilmikið fyrir mér hvernig ég gæti valið á milli þeirra tveggja hópa sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninganna. Ég kom aðeins að málefnavinnunni hjá báðum hópum og eins og eðlilegt má telja var verið að ræða sömu hluti, á svipuðum nótum, að mestu leyti. Ég er sannfærð um að langbestur árangur hefði náðst ef hóparnir hefðu unnið að mótun þessara mála í sameiningu. Og ég segi það enn og aftur að ég vil endilega breyta fyrirkomulagi sveitastjórnarkosninganna hér og hafa þær óbundnar, þannig að kosið sé um fólk, óháð flokkum.

            Það var ósköp gott að geta vegið og metið hlutina á eigin forsendum, án utanaðkomandi þrýstings eða væntinga frá fjölskyldu og vinum. En völin og kvölin eru nátengdar og því hefði að vissu leyti verið þægilegra að hafa skoðanirnar í genunum. Erfðir og uppeldi hafa að sjálfsögðu sitt að segja, en ég hvet alla til sjálfstæði í skoðanamyndun.

            Mig langar til að minnast aðeins á það að þrátt fyrir að ég kunni ágætlega við marga sjálfstæðismenn, bæði háða og óháða, þá held ég að þeim sé enginn greiði gerður að vera lengur einvaldir. Það er auðvitað alltaf auðveldara að sjá hvaða áhrif völd hafa á fólk ef maður stendur utan við, en jafnvel þeir alhörðustu geta greint örlítið yfirlæti, og kannski pínu ponsu hroka, hjá sumum sem hafa lifað og hrærst innan þeirra vébanda.

            Varðandi stjórnun á bænum þá geri ég mér fulla grein fyrir því að aldrei er hægt að stjórna svo öllum líki, en ég tel að óeðlilega margt hefði mátt gera betur á síðasta kjörtímabili. Þegar mönnum finnst raunverulegt lýðræði vera til trafala þá held ég að við þurfum virkilega að hugsa okkar gang. Einnig held ég að það væri afskaplega gott fyrir þá sjálfstæðismenn sem eru að spjara sig vel, að geta sýnt fram á að þeir séu að gera það af eigin rammleik.  Þegar ég ákvað að vinna með L listanum þá hafði ég örlitlar áhyggjur af því að einhverjir innan Sjálfstæðisflokksins myndu líta mig hornauga, já áhyggjur vegna þess að ég hef litla ánægju af því að eignast andstæðinga. En sem betur fer er það ekki raunin hjá þeim allflestum. Ég hef helst orðið vör við að menn hafi góðlátlegt gaman að þessum unggæðingshætti, að ætla sér fram á móti ofurvaldinu. En ég get fullvissað ykkur lesendur um það að Félagshyggjufólkinu (L listanum) er fullkomlega treystandi fyrir ráðhúsinu, þar er ferskt og ábyrgt fólk á ferðinni sem hefur heilbrigða sýn á bæjarmálin. Fólk sem hefur brennandi áhuga á málefnum bæjarins okkar og mun sinna öllum bæjarbúum -án tillits til flokkadrátta! Það er stór ákvörðun, misstór eftir stöðu einstaklinga, að ákveða hvern skal styðja en ég hvet ykkur til að taka sjálfstæða og upplýsta ákvörðun.

            Þótt málefnaskrárnar séu merkileg plögg sem allir ættu að skoða vel, þá finnst mér meginmunurinn liggja í því hversu vel við treystum forystufólkinu til að góðra verka, með hagsmuni bæjarins að leiðarljósi, og ekki síður hvers konar vinnubrögðum er beitt! Vinnubrögð L listans er þeirra aðalsmerki, lýðræði og samvinna er í fyrirrúmi, og ég vona að sem flestir ígrundi nú málin vel fram að kosningum. Aðeins þannig er hægt að kjósa rétt, með hreinni samvisku en ella!

                                                                 Bestu kveðjur

                                                                 Elín Bergm. Kr.