S.S.S!

Sælt veri fólkið.
Ég vil byrja á því að þakka mínum innan-sem-utan fallega vini, Finni Sigurðssyni fyrir áskorunina. Vonandi býður hann mér í þetta fallega lambalæri sem hann bauð upp á í síðasta Pósti, ekkert smá girnilegt hjá kappanum.
Ég ætla hins vegar að bjóða ykkur upp á rétt sem að ég græja stundum á fallegum sumardögum í Stykkiz, sér í lagi þegar lognið og sólin eru allsráðandi. Endrum og eins dettur inn skötuselur í Galdra-húsið á höfðanum sem oftar en ekki er gjöf frá gjafmildum grásprengdum gárungum af götunni. Þá er hvítvínið kælt og skötuselurinn græjaður með þeirri virðingu sem hann á skilið…svo er hóað í gott fólk í veisluna og skötuselnum hent á grillið. Svo er setið lengi..borðað vel, dreypt á hvítvíni og horft á blóðrauða sólina setjast í sílygnan ægifagran Breiðafjörðinn…………frábærar stundir.
Einnig finnst mér tilvalið að hafa hörpudiskinn með í þessari veislu því skelin er það sem Hólmurinn er einna frægastur fyrir ef frá er talin stórhljómsveitin VV&B og Nonni Mæju. Svo eiga skötuselurinn og hörpudiskurinn það sameiginlegt að landinn kunni ekki að meta þetta hérna í „den“…og þessu hent..Hólmarar lærðu þó að meta skelina enda var hún sérréttur á Hótel Stykkishólmi lengi vel og elduð á ýmsan máta af kokknum þar á bæ..snillingnum Sæþóri Þorbergssyni!
Anyhow..uppskriftin heitir S.S.S! =sumarlegir sjávarréttir á spjóti!

Sjávarmetið:
Hörpuskel, skötuselur skorinn í bita (svipaða stærð og skelin).

Marineringin:
Sweet Chilli safi úr 4 súraldinum (lime) + rifinn börkur af 4 súraldinum + hnefafylli af ferku kóríander fínsaxað.
Látið allt sjávarmetið liggja í þessum legi í minnst 5 tíma…yfir nótt væri svo sem ekkert verra.
Beikonvefja svo hörpudiskinn með góðu beikoni sem og beikonvefja skötuselinn en lauma þar einnig einni steinlausri döðlu inn á milli. Svo er þessu raðað smekklega á spjót, með grænmeti á milli eins og kirsuberjatómata, rauðlauk, sveppi og gula papriku (upp á litadýrðina að gera)
Skötusels og hörpudisksspjótin eru svo grilluð á blússandi grillinu (250°) ca.5 mín á hvorri hlið.

Þá er það sósan..
2 dollur sýrður 36% (rauðu dollurnar)
Dass agave sýróp (ca 1 matskeið..eða eftir smekk)
2 hvítlauksrif fínsöxuð
½ rauður nettur ferskur chilli fínsaxaður (gott mótvægi við sæta marineringuna)
Fínsaxað kóríander eftir smekk
1 teskeið dijon sinnep
2 matskeiðar góð ólívuolía
Skvetta af sítrónusafa
Salt og pipar eftir smekk
Og skreyta svo með kóríander.

Við þetta er að bæta að gríðarlega gott er að grilla með þessu svo sem eitt stykki bjór. Ítalski eðalbjórinn Peroni er tilvalinn með sjávarfanginu, smella honum á grillið í ca.8 sekúndur og ná níu gráðu kjarnhita. Smella af mynd og henda inn á #bjórinnágrillið…þá erum við að dansa!
Ég ætla svo að skora á jafnaldra minn og æskuvin, látúnsbarkann sjálfan Símon Hjaltalín að taka við uppskriftarpennanum. Hann mun án efa ljóstra upp einhverri Brokeyjaruppskriftinni eins og honum einum er lagið.
Værsågod!

Sumarkveðja Bjössi
(Þorbjörn Geir Ólafsson)

uppskrift_bjossi