Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Söngur er alheimsmál

Kórstarfið hjá Kór Stykkishólmskirkju er komið á fullan skrið og margt skemmtilegt framundan eftir hreint frábæra ferð til Ungverjalands s.l. sumar. Þar voru haldnir þrennir vel sóttir tónleikar auk þess sem sungið var við ýmis tækifæri – bæði kirkjulegt, þjóðlegt og létt efni. Gleðin í hópnum var þvílík að nú eru kórfélagar stórhuga og stefna í næstu ferð 2018 og hefur Kúba verið nefnd í því samhengi. Framundan eru aðventutónleikar í nóvember, opin æfing í næstu viku, skemmtikvöld kórfélaga, æfingabúðir og svo mætti áfram halda. Kórfélagar höfðu mikið gaman af hinum ýmsu fjáröflunarleiðum sem bryddað var upp á síðustu 3 ár en í ár var ákveðið að halda áfram að baka Sörur fyrir jólin og að taka að okkur erfidrykkjur í safnaðarheimilinu. Við eigum reyndar einhver eintök af geisladisknum góða og jólapappírnum svo þeir sem hafa áhuga á að versla þannig hluti eru hvattir til að setja sig í samband við kórfélaga með það.
Í næstu viku býður kórinn gestum og gangandi upp á opna æfingu á þriðjudagskvöldið kl. 20 í Stykkishólmskirkju. Við bjóðum nýja félaga velkomna að slást í þennan skemmtilega hóp á þriðjudaginn, bjóðum upp á kaffi og skemmtilegheit. Við ætlum jafnframt að segja frá Ungverjalandsferðinni okkar og sýna nokkrar myndir.
Með því að syngja í Kór Stykkishólmskirkju gefst bæjarbúum tækifæri til að vera sjálfir virkir í því að búa til menningu í Stykkishólmi. Samfélagið verður þannig betra og ríkara.

Að þessum orðum sögðum skora ég á formann Lionsklúbbsins Hörpunnar Steinunni I. Magnúsdóttur að kynna starfsemi þeirra í næsta Stykkishólms-Pósti.
Með söng- og gleðikveðju
úr kórnum,
Anna