Sveitapiltsins draumur

20151116_095038-1Ég vil byrja á því að þakka minni yndislegu tengdadóttur fyrir áskorunina…hún er frábær í alla staði.
Hér kemur uppskrift af dýrindis hakkrétt sem ég geri reglulega. Þar sem að ég er alltaf í vandræðum með það hvað á að vera í matinn (sem mér skilst að sé vandamál á fleiri heimilum) þá var það mér til happs að þessi uppskrift datt inn um bréfalúguna fyrir ca. 20 árum og hef ég notað hana mikið.
Þegar að heimilisfólkið er orðið leitt á að fá hakk og spagetti í hverri viku þá er gott að brydda upp á nýjungum og gera þennan rétt.
Hann er bragðgóður, auðvelt að gera hann og ekki verra að gumsið fer allt saman í eldfast mót.

Uppskrift:
400 gr.nautahakk
½ kg kartöflur
2 sneiðar brauð
3 msk mjólk
1 laukur
Salt og pipar
1 tsk paprika
Sósa:
40 gr.smjör eða smjörlíki
4 msk hveiti
1 ½ dl. Kjötsoð (vatn + 2 teningar)
2 dl sýrður rjómi
Salt
1 dl rifinn ostur
2 msk brauðrasp

Aðferð:
Sjóðið kartöflurnar.
Bleytið brauðið í mjólkinni, bætið saman við nautahakkið.
Saxið laukinn smátt og blandið saman við hakkið. Kryddið með salti, pipar og papriku.
Mótið buffin og steikið snöggt á pönnu. Raðið buffunum fyrir miðju í eldföstu móti.
Afhýðið soðnu kartöflurnar og skerið í sneiðar. Raðið í kringum kjötið.
Sósa:
Bræðið smjör í potti og bætið hveitinu í og loks kjötsoði í skömmtum.
Takið sósuna af hellunni og bætið sýrða rjómanum út í, bragðbætið með salti ef þarf.
(Ég set síðan alltaf matarlit úti sósuna til að fá rétta litinn)
Hellið sósunni yfir kjötið og kartöflurnar. Stráið osti og brauðraspi yfir. Bakað í ofni við 175°C í ca. 15 mín.
Berið fram með góðu fersku grænmetissalati.

Ég vil skora á Helgu Sveins matráðinn mikla í Grunnskólanum, að koma með einhverja dýrindis uppskrift.
Ég veit að hún klikkar ekki, enda er hún aðal DÚLLAN í saumaklúbbnum okkar 😉

Vona að rétturinn smakkist vel, verði ykkur að góðu.

 

Kristín H. Víðsdóttir