Hjörtur matargat

Stórvinur minn á Fagurhóli, sjálfur þrívíddarmeistarinn Baddi Lofts, skoraði á mig og eiginkonu mína að koma með einhverja snilldaruppskrift í StykkishólmsPóstinn. Sóla átti bara uppskrift af krækiberjaköku í fórum sínum og taldi hana nýtast nákvæmlega engum eftir þetta rigningarsumar þannig að ég tek alfarið við pennanum í þetta sinn.

Þar sem okkar uppáhalds iðja í Hólminum góða er að róa til fiskjar liggur beinast við að gefa uppskrift að þorskrétti sem er einfaldur og virkilega góður.

Þorskflök, nýveidd, roðlaus, beinlaus,  ormatýnd og fín.

Grófmalað spelt

Salt

Pipar

Lime pepper eða Knorr fiskikrydd

Smjör

Olía

½  bolli  af sterku kjúklingasoði – má vera úr teningi

2-3  msk capers – saxað

Bolli eða meira  af steinlausum vínberjum – skorin í tvennt

Góður slatti af hvítlauk (6 rif +) smátt saxaður

Lúka af ferskum kóreander, smátt saxað

Sletta hvítvín (gott en má vel sleppa og bara drekka það)

Aðferð:

Fiskurinn er þerraður og skorinn í passlega bita.  Grófmöluðu spelti (nota spelt af því mér finnst það betra – ekki út af hollustu!), salti, pipar, lime pipar og eða fiskikryddi  blandað saman.  Ríflegt magn af smjöri sett á pönnu ásamt ¼ dl olíu og hitað á frekar háum hita.

Fiski velt upp úr speltblöndunni og hann brúnaður vel á báðum hliðum. Kjúlkingasoð (og hvítvín ef vill) sett á pönnuna, látið sjóða í mínútu eða tvær. Capers og vínber ásamt  ca ¼ af  hvítlauknum sett yfir hér.

Þá er hitinn lækkaður á lægstu stillingu, restin af hvítlauk sett yfir ásamt söxuðum kóreander og lok sett á pönnuna. Látið standa á lægsta hita þar til þið haldið að þetta sé tilbúið en eruð ekki viss (ca. 5 mín)

Með þessu höfum við gott salat og sellerírótarmauk.  Maukið er einfaldlega sellerírót sem er afhýdd, skorin í bita og soðin í vel söltu vatni í 20-30  mínútur.  Vatnið látið renna vel af, bætt  við 50-100 grömmum af smjöri og maukað með töfrasprota eða stappað.

Hrikalega gott!

Sóla sér vanalega um eftirréttina en einn af uppáhalds eftirréttunum á okkar heimili er Crème brûlée.  Venjuleg Crème brûlée uppskrift er aðeins flókin aðgerð – en ég datt á sínum tíma niður á þessa sem er alveg jafn góð og mjög auðveld:

Fyrir 4-6

4 dl rjómi

4 eggjarauður

40 g sykur (lægri mörk)

4 blöð matarlím

¼ tsk salt (eða eftir smekk)

1-2 vanillustangir.

Hrásykur

Aðferð:

Leggið matarlím í kalt vatn. Bætið salti í rjómann og hitið nálægt suðu. Opnið vanillustangir og skafið fræin út í rjómann. Setjið vanillustangirnar út í.  Það er hægt að nota vanilludropa í þetta – en verður svo miklu betra með ekta vanillu.  Látið kólna í ca 40 gráður. Þá eru vanillustangirnar teknar úr.

Á meðan blandan kólnar eru eggjarauður og sykur þeytt saman. Þegar rjómablandan er orðin passlega köld (um 40 gráður)  er matarlími bætt útí og leyst vel upp.  Þá er þeyttum eggjarauðum/sykri bætt við.  Þessu er hellt í stórt hringlaga form eða nokkur lítil og látið stífna í ísskáp (ca. 60-90 mín.).  Hrásykri stráð yfir og hann bræddur með gasbrennara eða undir grilli í ofni.

Le voilá! Bon appétit!  Ég skora á náganna okkar og vin Diana Kirchgaessner að koma með næstu uppskrift.

Hjörtur Eiríksson