Að fara í leikhús

Nú undanfarið hefur Leikfélagið Grímnir sýnt leikritið Brúðkaup Tony og Tinu.  Get ég bara ekki orða bundist lengur.  Aðsókn á verkið hefur verið mjög léleg.

Nú undanfarið hefur Leikfélagið Grímnir sýnt leikritið Brúðkaup Tony og Tinu.  Get ég bara ekki orða bundist lengur. Aðsókn á verkið hefur verið mjög léleg.  Þarna stíga á svið fjöldi ungra leikara, flest í fyrsta sinni. Ótrúleg leikgleði einkennir leikara og ekki síður meðlimi í hljómsveit sem stofnuð var aðeins til að spila í leikritinu.
     Það hefur ekki verið mikið um að vera hjá ungu fólki hér í bæ, á milli 16 og 20 ára. Við höfum ekki áttað okkur á að við búum við mjög ólíkt ástand, eftir að Framhaldskólinn okkar byrjaði starfsemi sína í Grundarfirði.  Nú eru fjöldi ungs fólks heima á veturna sem, áður fóru burtu á haustdögum og komu varla heim fyrr en að vori.
     Þetta unga fólk, sem ekki hafði mikið við að vera félagslega,  hefur leikfélagið nú fengið til liðs við sig og valið að setja upp fjölmenna ærslasýningu sem er bæði skemmtileg og lifandi. Það er líka gaman að til liðs við sýninguna koma unglingar úr Grundarfirði, og kæmi mér ekki á óvart að hljómsveitin úr sýningunni muni lifa áfram. Er nú orðið langt síðan við höfum átt hljómsveit á svæðinu. Hljóta til dæmis kennarar þeirra úr Grunnskólanum að hafa  haft gaman af sjá þessa krakka sem þeir hafa kennt jafnvel síðan í 6 ára bekk.
      Þetta er kannski ekki hefðbundin sýning, en gaman að breyta til og sjá eitthvað annað en við erum vön að sjá. Mér finnst líka frábært að sjá nokkra eldri leikara fara á kostum með unga fólkinu og er greinilegt að allir hafa notið samvinnunnar.
     Mér finnst það eiginlega borgaraleg skylda okkar að sækja leiksýningar sem fjöldi fólks leggur á sig ómælda sjálfboðaliðsvinnu við að setja upp. Enda ætíð góða skemmtun að fá hjá Grímni, sem  verður 40 ára á næsta ári. Er leiðinlegt ef að halli verður á sýningunni, nú þegar leikfélagið langar til að gera eitthvað metnaðarfullt á afmælisárinu.

                                                                                                               Dagbjört Höskuldsdóttir.