Miðvikudagur , 19. desember 2018

Að lestrarátaki loknu

lestraratak

Nú er lestrarátaki Grunnskólans í Stykkishólmi lokið og lauk því með uppskeruhátíð í skólanum síðastliðinn föstudag. Almennt sýnist okkur að mikil ánægja hafi ríkt með þetta átak, meðal nemenda jafnt sem starfsfólks. Við finnum fyrir því að áhugi nemenda á lestri hefur aukist mikið og almenn ánægja ríkti meðal þeirra með hina daglegu lestrarstund. Í óformlegri könnun nemenda á unglingastigi kom fram að þeir höfðu aldrei lesið svo mikið, að þeim þótti róandi og notalegt að lesa, að þeir töldu sig hafa þjálfast í lestri og þeir fundu það út að lestur getur jafnvel verið skemmtileg dægradvöl.

Allir nemendur skólans tóku hraðlestrarpróf í upphafi átaksins þar sem lestrarhraði þeirra er mældur. Á næstu vikum þreyta þeir aftur slíkt próf og verður þá hægt að meta framfarir í lestrarhraða. Lestrarhraði skiptir að sjálfsögðu máli en áhugi og lesskilningur eru þó allt eins mikilvægir þættir ef ekki mikilvægari.

Við stefnum á annað lestrarátak eftir áramót, ef til vill með öðru sniði. Það er þó ekki svo að skilja að börnin eigi að gera hlé á lestrinum þangað til. Við biðjum foreldra um að hjálpa okkur að halda lífi í glæðunum og er kjörið að nýta komandi jólabókaflóð til þess.