Að verða gamall í Hólminum

Ég er komin í seinni hálfleik, það ber að þakka. Mínum aldri fylgir oft sú heppni að eiga aldraða foreldra eða foreldri. Ég var alin upp við að bera virðingu fyrir eldri borgurum. Svo hef ég verið svo heppin að eiga marga góða vini í þessum hópi og leikið með þeim af lífi og sál. Mín skoðun er sú að öflugt félagslíf kemur í veg fyrir margan vanda og eykur lífsgæði fólks. Í dag er stefnan hér á landi sú að allir búi heima hjá sér og fái þjónustu við hæfi hvers og eins. Mér finnst að það ætti að vera meira val um búsetu óháð aldri. Hætta er á að eldra fólk einangrist og njóti ekki nægra lífsgæða.

Ég á móður sem býr á Skólastíg 16 og hefur hún búið þar síðan árið 2011 að hún keypti sér búseturétt þar. Áður hafði hún búið í sínu einbýlishúsi, fjall hress og hafði ekki þörf fyrir neina þjónustu. Þó hún hafi búið í yndislegu húsi við góðar aðstæður var það eins og stór happadrættisvinningur að fá þessa íbúð. Þar er félagsskapurinn, mannkærleikurinn og návígið sem öllu skiptir. Svo er þessi elska Barðstrendingur og getur horft á ströndina sína út um gluggann rétt eins og hún hefur gert í fjölda ára. Alltaf verður Barðaströndin fallegri með hverju árinu í takt við hækkandi aldur.

Ég er mjög svo sátt við alla þá þjónustu og aðbúnað sem hún fær í dag. Heimaþjónusta og heimahjúkrun í topp standi. Þægindi að geta keypt mat og nýtt allt félagsstarf. Ég kem alla daga á Dvaló svo ég veit full vel að þar er gæða fólk að störfum.

Þá erum við komin að húsnæðinu. Það er öllum sem til þekkja full ljóst að þar er virðingin ekki sem skyldi. Því miður er húsnæðið ekki samkvæmt þeim kröfum sem við teljum boðleg í dag.

Hins vegar ættum við að geta veitt sömu þjónustu hvar sem er í þessu húsi.

Mér finnst dapurt að hugsa til þess að þegar heilsa þeirra sem hafa keypt sér búseturétt í íbúðum slappast og þeir þurfa aðstoð við athafnir daglegs lífs. Þá þurfa þeir að selja sinn rétt í íbúðinni og flytja í herbergi. Hvar er þá stefnan með að allir búi heima hjá sér og þiggi þjónustu við sitt hæfi? Mér finnst að við ættum að leggja meiri metnað í öldrunarmálin. Við viljum jú öll verða gömul en enginn vera gamall.

Jæja áfram skal haldið, fyrir okkur öllum liggur leiðin upp að Hannesarsteini, þar er jú endastöð okkar Hólmara. Jafnvel þá er virðingin frekar lítil. Í kirkjugarð á að vera gott að koma og setjast niður og hugleiða liðnar stundir. Ég átti leið í garðinn á Hvítasunnudag með aldraðri móður minni. Kát og glöð hoppaði hún út úr bínum sínum með blóm í hendi. En þegar blómin voru sett á leiðið hurfu þau í úr sér sprottið grasið.

Nú styttist í sjómannadaginn og þá er venja að leggja blóm á minnismerki týndra sjómanna. Þá er jú yndislegra að búið sé að taka til. Þessa hluti hef ég bent á áður en litlar breytingar orðið. Ég hef þá trú að þeir sem hafa úthald í að segja sömu hlutina nógu oft nái árangri. Gerum betur. Ég hef ekki séð starf umsjónarmanns í krikjugarðinum auglýst. Einhverju sinni var Árdís Gísladóttir starfsmaður þar og þá var tíðin önnur. Svo er hægt að starta Hollvinafélagi garðsins. Allavegana er úrbóta þörf. Hættum að benda hvert á annað. Finnum leiðina.

Með vinsemd og virðingu,
Hanna Jónsdóttir