Miðvikudagur , 19. desember 2018

Aðgangseyrir á söfn og „heimamenn“

Norska húsið – Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla hefur opnað dyr sínar fyrir sumarið og fengið úrvals sumarfólk til starfa. Dagskráin er aðgengileg á heimasíðunni www.norskahusid.is eða á fasbókinni www.facebook.com/NORSKAhusid.BSH. Aðgangseyrir er kr. 800 í húsið bæði á fastasýningar safnsins (á 2. hæð og í risi) og breytilegar sýningar á 1. hæð en frítt er fyrir 18 ára og yngri. Þetta er breyting frá því sem áður hefur tíðkast. Reynt hefur verið að samræma aldur og aðgang að söfnunum þremur í Stykkishólmi þó best væri að reyna að samræma stefnu í safnamálum á öllu Snæfellsnesi þannig að samfella væri í þjónustu þeirra við gesti og gangandi. Skref í þá átt hefur verið tekið með fundi um safnadag sem Markaðsstofa Vesturlands stóð fyrir ekki alls fyrir löngu. Framhald verður á þeirri vinnu í haust. Það er sumsé hægt að skoða öll þrjú söfnin í Stykkishólmi fyrir kr. 1500 og miðinn gildir í 3 daga. Ákveðið misræmi er í aðgengismálum þessara safna gangvart heimamönnum og hallar þá helst á Norska húsið. Þetta krefst útskýringa. 

Norska húsið – Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla hefur opnað dyr sínar fyrir sumarið og fengið úrvals sumarfólk til starfa. Dagskráin er aðgengileg á heimasíðunni www.norskahusid.is eða á fasbókinni www.facebook.com/NORSKAhusid.BSH. Aðgangseyrir er kr. 800 í húsið bæði á fastasýningar safnsins (á 2. hæð og í risi) og breytilegar sýningar á 1. hæð en frítt er fyrir 18 ára og yngri. Þetta er breyting frá því sem áður hefur tíðkast. Reynt hefur verið að samræma aldur og aðgang að söfnunum þremur í Stykkishólmi þó best væri að reyna að samræma stefnu í safnamálum á öllu Snæfellsnesi þannig að samfella væri í þjónustu þeirra við gesti og gangandi. Skref í þá átt hefur verið tekið með fundi um safnadag sem Markaðsstofa Vesturlands stóð fyrir ekki alls fyrir löngu. Framhald verður á þeirri vinnu í haust. Það er sumsé hægt að skoða öll þrjú söfnin í Stykkishólmi fyrir kr. 1500 og miðinn gildir í 3 daga. Ákveðið misræmi er í aðgengismálum þessara safna gangvart heimamönnum og hallar þá helst á Norska húsið. Þetta krefst útskýringa. 

Aðgangseyrir og sala í Krambúð eru einu tekjulindir byggðasafnsins (Norska húsið er fyrst og fremst safn og húsið stærsti safngripurinn). Safnið er rekið af 5 sveitafélögum á öllu svæðinu. Hugtakið „heimamenn“ nær því yfir mun stærra svæði en Stykkishólmsbæ. Til að koma til móts við heimamenn og þá sem vilja koma með gesti í byggðasafnið er boðið upp á eftirfarandi tilboð. Annars vegar er hægt að kaupa árskort í safnið á kr. 1600 og koma eins oft og vilji og geta er til. Hins vegar er hægt að greiða einn aðgangseyri kr. 800 og koma í þrjár heimsóknir innan árs. Önnur tilboð eða afslættir gilda ekki með þessum tilboðum. Ellilífeyrisþegar og öryrkjar fá sama afslátt og hópar. Þar sem safnið tilheyrir öllu Snæfellsnesi á þetta jafnt við um Hólmara, Grundfirðinga, íbúa Helgafellssveitar, Eyja- og Miklaholtshrepps, Ólsara eða Snæfellsbæjarbúa. Þeir sem vilja leggja safninu lið með sjálfboðavinnu eða aðstoð á einn eða annan hátt fá að sjálfsögðu frían aðgang í samræmi við það starf. Enginn aðgangseyrir er tekinn á opnun sýninga og á sérstökum dögum eins og Íslenska safnadeginum sem er 7. júlí n.k.

Það er undir hverju samfélagi komið hvernig hugsað er um mennningararfinn og hvernig hann er nýttur. Safnstjóri Norska hússins–BSH sækir reglulega um alla þá styrki sem á boðstólum eru til að tryggja að starfsemin geti haldið áfram án þessa að stofna húsinu eða safnkosti í hættu. Undanfarin ár hefur safnið, líkt og margar aðrar stofnanir, þurft að draga saman seglin og fresta hinum ýmsu nauðsynlegu aðgerðum eins og tjörgun húss og almennu viðhaldi. Nú er húsið komið að þolmörkun þess sem hægt er að fresta og því brýnt að reyna að afla tekna innan þess faglega ramma sem söfnum er settur. Söfn eru í raun ekki rekin í hagnaðarskyni heldur til að vernda menningararf þannig að hann skili sér heill til komandi kynslóða. Söfn eru ekki minnisvarðar um einn mann eða konu heldur eru þetta stofnanir sem taka oft á málum sem snerta allt samfélagið eða velta upp sjónarmiðum með breytilegum sýningum. Sú nýbreytni hefur átt sér stað að Hönnunarhúsið HRÍM er með útibú í safninu sem vonandi eykur löngun fólkst til að kíkja við, skoða sig um og sýna gestum þetta stórmerkilega 181 árs gamla hús sem er prýði fyrir allt Snæfellsnes og ætti að vera stolt allra sem að því standa og á svæðinu búa. Búð í búð er tilraunaverkefni til að auka fjölbreytni og úrval en fellur um sjálft sig ef viðtökur eru ekki góðar. Heimamenn eru bestu talsmenn sinna svæða og saman getum við hjálpast að við að gera heimsókn í Hólminn og á Snæfellsnes sem ánægjulegasta fyrir sem flesta, okkur sjálf, aðra Íslendinga eða erlenda gesti.  

AlmaDís Kristinsdóttir, safnstjóri Norska hússins – BSH.