Af æskulýðs- og tómstundamálum í Stykkishólmi

X-ið

Fimmtudaginn 11. október næstkomandi opnum við félagsmiðstöðina X-ið eftir langt sumarfrí. Krakkarnir hafa sýnt þolinmæði og færðar þakkir fyrir það.

Opnun fyrir 8.-10. bekk mánudaga og fimmtudaga kl. 20:00-22:00 sem eru sömu tímasetningar og síðasta vetur. Í skoðun tímasetningar sem hentar fyrir opnun ætlaða 5.-7. bekk og verður hún auglýst síðar. Dagskrá mánaðarins verður, líkt og hjá Agnesi og Gissuri, unnin í nánu samstarfi við félagsmálafræði Grunnskólans og því mikilvægt að þau sem ekki eru þar komi sínum sjónarmiðum til fulltrúa í félagsmálafræðinni.

Ungmennaráð

Nýskipað ungmennaráðið hefur fundað tvisvar og mikill kraftur í unga fólkinu.

Framundan fyrsta ungmennaþing Vesturlands sem fram fer 2.-3. nóvember að Laugum í Sælingsdal. Um er að ræða samstarfsverkefni sveitafélaga á Vesturlandi, ungmennaráða og Samtaka sveitafélaga á Vesturlandi(SSV). Verkefnið er áhersluverkefni í Sóknaráætlun Vesturlands og markmiðið með þinginu m.a. að:

Kalla saman ungmenni af öllu Vesturlandi á aldrinum 14 – 25 ára til að ræða sín hagsmunamál og viðhorf til ýmissa hluta í byggðarlaginu, auk þess að skapa vettvang þar sem ungu fólki og kjörnum fulltrúum í sveitastjórnum og á Alþingi gefst tækifæri til samræðu.

Stuðla að því að stofna ungmennaráð í öllum sveitafélögum á Vesturlandi.

Stofna ungmennaráð Vesturlands sem fundi reglulega með stjórn SSV.

Þátttakendum er ætlað að ræða stöðu ungmenna á Vesturlandi frá ýmsum hliðum auk þess sem boðið verður upp á fyrirlestra sem tengjast málefnum ungs fólks og ungmennaráða. Þingið er ætlað ungu fólki á aldrinum 14 – 25 ára.

Eldri borgarar

Starf eldriborgara er komið vel af stað en orðið hafa smávægilega breytingar á dagskránni sem var birt í blaðinu 20. september. Myndlistin með Gunnari var færð fram um 30 mín og er kl. 13:00 á þriðjudögum. Boccia æfingarnar færðust af miðvikudeginum yfir á föstudaga kl 10:00. Minni á smíða- og skartgripatíma með Arnari og Gretu í Grunnskólanum á fimmtudögum kl 14:30. Uppfærða dagskrá má finna inn á fésbókarsíðu Aftanskins og heimasíðu Stykkishólms.

Í undirbúningi eru tvö verkefni með eldri borgurum. Annarsvegar heilsueflingarverkefni, en drög að því kynntu þau Gunnhildur Gunnarsdóttir og Gísli Pálsson í kaffispjalli Aftanskins á mánudaginn og stefnt er að því að koma verkefninu af stað í nóvember. Hinsvegar er yfirferð yfir ljósmyndasafn Stykkishólms þar sem ætlunin er að hittast yfir kaffibolla á bókasafninu og fara yfir ómerktar myndir í þeim tilgangi að fylla inn nöfn og staðhætti. Bæði þessi verkefni verða kynnt nánar þegar tímasetning liggur fyrir.

Kveðja, Magnús Ingi Bæringsson,.Æskulýðs- og tómstundafulltrúi.