Af bæjarmálum

image002Þegar unnið er að eflingu bæjarlífsins hér í Stykkishólmi er mikilvægt að þekkja rætur samfélagsins og virða það sem best hefur tekist. Bjarni Thorsteinsson amtmaður Vestur-amtsins tímabilið 1821 til 1849 lagði grunn að samfélaginu í Stykkishólmi fyrir miðja nítjándu öldina með áhrifum sínum og tengslum við hið danska vald í Kaupmannahöfn. Hann lagði til að Stykkishólmur yrði miðstöð Vesturamtsins. Hann lagði grunn að menningarlífi og menntun, m.a. með því að beita sér fyrir stofnun bókasafns Vesturamtsins sem varð strax mikilvæg menningarstofnun. Í ljósi sögunnar ber okkur því að virða Amtsbókasafnið og þróa það í nútímanum og taka tillit til þeirra breytinga sem upplýsingatæknin hefur skapað. Það var m.a. í því ljósi sem tekin var ákvörðun um að tengja saman grunnskólann og Amtsbókasafnið með því að byggja yfir safnið og skapa skilyrði til þess að það eflist í takt við nútímann um leið og áhersla er lögð á bókina svo sem eðlilegt er. Þannig gæti starf innan Amtsbókasafnsins eflt skólastarfið og verið leiðarljós menningar og mennta við hlið grunnskólans og tónlistarskólans.

Afl til framfara
Eins og eðlilegt er þá velta bæjarbúar fyrir sér fram-kvæmdum á vegum bæjarins og ég verð þess var að það eru miklar væntingar um framfarir í þágu bættra búsetuskilyrða. Það er nauðsynlegt að draga það fram og minna á að núverandi bæjarstjórn tók við mjög erfiðu búi hvað fjárhag varðar og því hefur verið nauðsynlegt að stilla framkvæmdum í hóf. Þegar núverandi meirihluti bæjarstjórnar tók við vorið 2014 hafði eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga nánast beint rauða spjaldið að stjórn bæjarins. Með ströngu aðhaldi, endurskipulagningu og útsjónarsemi starfsmanna bæjarins hefur tekist að bæta fjármálastjórn og stöðuna í rekstrinum sem samt er mjög viðkvæmur vegna mikilla launahækkana í kjölfar nýrra kjarasamninga. Engu að síður er er markið sett hátt og horft til framtíðarverkefna og það er augljós vilji innan bæjarins til sóknar og uppbyggingar á mörgum sviðum, sem er ánægjulegt fyrir okkur, sem förum með málefni bæjarins.

Verkefnin blasa hvarvetna við
Það er af mörgu að taka við að bæta þjónustu bæjarins og víða þörf fyrir fjármuni. Bæjarstjórnin hefur lagt sig fram um að forgangsraða og leggja fjármuni í verkefni sem ekki þoldu lengur bið og mikil þörf var fyrir að koma á hreyfingu við framkvæmdir sem gæti aukið tekjur en umfram allt skapa bjartsýni og metnað í þágu bæjarins okkar. Fyrir utan nauðsynleg og lögbundin verkefni sem blöstu við í upphafi kjörtímabilsins, var gerður samningur við Stykkishólmssöfnuð sem tryggði fjármögnun vegna viðgerða á kirkjunni, en það verkefni gat ekki beðið lengur, UMF Snæfell fékk sérstakan styrk vegna verulegra fjárhagserfiðleika svo félagið gæti áfram náð árangri og unnið af þeim metnaði sem allir þekkja og ákveðið var að veita styrk til Hestaeigendafélagsins til þess að bæta aðstöðu til hestaíþrótta vegna byggingar reiðhallar.
En það blasa vissulega við okkur verkefnin hvert sem litið er og til þess að í þau megi ráðast þarf að auka tekjur bæjarins með öllum tiltækum ráðum. Það gerist eingöngu með því að hér verði til fleiri atvinnutækifæri við útgerð og framleiðslustörf, við opinbera þjónustu, rekstur ferðaþjónustu og við framkvæmdir á vegum fyrirtækjanna í bænum. Til þess að ýta undir byggingarframkvæmdir er unnið að því að skipuleggja bæði ný atvinnu-og íbúðasvæði við Reitaveg, íbúðasvæði og smáhýsasvæði á Vatnsási og lóðir fyrir hótel. Síðast en ekki síst er verið að breyta deiliskipulagi miðbæjarins þar sem undirbúnar eru verulegar byggingarframkvæmdir við Frúarstíg sem munu skapa fjöl-mörg atvinnutækifæri og gera miðbæjarsvæðið enn glæsilegra með nýjum húsum í takt við Norskahúsið og Æðarsetrið og önnur hús sem prýða gamla bæinn sem var endurbyggður á forsendum húsafriðunar og þeirrar Húsakönnunar sem unnin var á sínum tíma.
Það blasir við að stækka þarf leikskólann ef börnum fjölgar mikið, koma þarf upp nýrri félagsmiðstöð sem var á sínum tíma holað niður í gömlu Bensó, það er þörf á að stækka Ásbyrgi og þörf er fyrir aukið kennslurými í grunnskóla og tónlistarskóla. Allt er þetta þekkt, en verður ekki gert í einu vetfangi. Því þarf að forgangsraða og það hefur bæjarstjórnin gert.

Skólabyggingar settar á framkvæmdastig
Árið 2010 hafði verið lokið viða teikna viðbyggingu við skólahúsið að Borgarbraut og var það tilbúið til útboðs. Samkvæmt þeim áformum var gert ráð fyrir því að byggja að austan við skólahúsið um 1600 fermetra hús sem átti að hýsa bæði tónlistarskólann, samkomusal og einnig stækkun grunnskólans. Sú bæjarstjórn sem kosin var 2010 stöðvaði framkvæmdir og setti þau áform á ís. Kjörtímabilið 2010 til 2014 leið án þess að framkvæmdir hæfust og ekkert var gert til þess að bæta aðstöðu í húsnæðismálum skólanna og ekki var bætt aðstaða í
félagsmiðstöð.
Núverandi bæjarstjórn tók ákvörðun um að koma framkvæmdum af stað, sameina bókasöfnin og setja upp sem fyrsta áfanga 550 fermetra byggingu að vestan við skólann, sem gæti nýst bæði fyrir Amtsbókasafn, ljósmyndasafnið og grunnskólann. Næsti áfangi væri síðan að byggja að austan við skólann og ljúka þannig byggingu yfir grunnskóla og tónlistarskóla til frambúðar. Vegna þess að bæjarsjóður hafði fengið stranga viðvörun frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga var ákveðið að selja eignir til þess að létta á fjármögnun og bæta hag bæjarsjóðs. Samþykkt var að auglýsa til sölu eign bæjarins að Hafnargötu 7 sem hýsir Amtsbókasafnið, gamla skólahúsið og Hljómskálann sem Leikfélagið taldi ónothæfan.
Ekki fékkst viðunandi tilboð í gamla skólahúsið sem er enn til sölu, en Hafnargata 7 var seld á mjög góðu verði og er nú unnið að því að skipuleggja það svæði. Þar munu rísa ný hús sem eiga eftir að setja mikinn svip á bæinn. Hljómskálinn var einnig seldur og er kominn í hendur eigenda sem munu endurbyggja það merkilega hús.
Skipaður var vinnuhópur um byggingu bókasafns við skólann sem í sitja fulltrúar skólanna, bókasafnsins auk bæjarfulltrúa. Var vinnuhópnum falið að vera til ráðgjafar við að móta þessa nýju stefnu við byggingarmál skólanna. Náðist full samstaða innan vinnuhópsins um þá útfærslu sem unnið er eftir og byggist á því að reisa fyrst minni eininguna yfir bókasöfnin og ljósmyndasafnið sem nýttist einnig skólanum auk þess sem við það verður veruleg hagræðing sem sparar útgjöld vegna launakostnaðar. Að því verki er unnið og verður framkvæmdin boðin út á næstu vikum.

Félagsmiðstöðin
Húsnæði félagsmiðstöðvar hefur verið tilefni umfjöllunar. Er með réttu fundið að því húsnæði. Það hafði verið lagfært til þess að nýtast sem félagsmiðstöð ungmenna og aðstöðu fyrir AA-samtökin sem nú hafa fengið annað húsnæði. Það er vilji bæjarstjórnar að finna aðra og betri lausn fyrir félagsstarf ungmenna sem virðist hafa nýst vel samkvæmt upplýsingum frá æskulýðs og íþróttafulltrúa og ekki rétt að segja þá aðstöðu verri en hún er. Engu að síður er það brýnt verkefni að finna félagsmiðstöðinni nýja aðstöðu og er það meðal þess sem er til skoðunar við mótun skólastefnu Stykkishólms sem að er unnið. Undirritaður mun fagna því mjög þegar hann getur sent verktaka til þess að rífa gamla „Bensóhúsið“ svo sem það var kallað þegar eina bensínstöðin í bænum var staðsett þar og opna þá lóð til úthlutunar sem viðskipta-og íbúðarhúsalóð.

Leikskólinn
Sem betur fer hefur börnum fjölgað í bænum. Leikskólinn er tiltölulega nýr og var byggður af miklum metnaði á sínum tíma. Í leikskólanum er tekið við ársgömlum börnum sem er meiri þjónusta en gengur og gerist hjá sveitarfélögunum, en víða eru langir biðlistar eftir leikskóla-plássi, svo sem í höfuðborginni. Hjá okkur er komið að því að finna lausn á því hvernig má auka rýmið og fjölga deildum á leikskólanum. Að því er unnið og bæjarráð hefur auk þess samþykkt tillögu um að taka upp foreldragreiðslur til þess að auðvelda foreldrum að vera heima á meðan beðið er eftir að börnin verði ársgömul og komist í leikskólann. Það er því ríkur vilji bæjarstjórnar að styðja við barnafjölskyldur.

Önnur verkefni
Svo sem að framan er getið er þörf fyrir að vinna að mörgum verkefnum á vegum bæjarins. Ástæða er til þess að minna á að unnið er að því að sameina dvalarheimilið og sjúkrahús HVE og er það verkefni komið í ákveðinn farveg í samstarfi HVE, bæjarins og ráðuneyta heilbrigðis og fjármála. Er þess að vænta að nú sjái fyrir endann á því hvernig að því verður staðið, en um það hefur ríkt óvissa. Umhverfismálin eru ofarlega á baugi hjá okkur og ekki síst þegar fer að vora. Verður haldið áfram við að bæta ásýnd bæjarins með viðhaldi gatna, gangstétta og opinna svæða. Það er von mín að þetta ár verði ár framkvæmda og fjölgunar atvinnutækifæra í bænum.

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri