Af bæjarmálum

AQ7K1972Í vetrarlok sest ég niður í þeim tilgangi að fara aðeins yfir þau mál sem efst eru á baugi og mikil umfjöllun hefur verið um í bænum á undanförnum vikum.

Þegar ég gaf kost á mér til setu á lista H listans vorið 2014 var það ekki síst vegna stöðu öldrunarþjónustunnar og þess aðbúnaðar sem eldri borgarar Stykkishólms búa við. Ég get því að miklu leyti tekið undir orð þeirra sem hafa tjáð sig í prent- og netmiðlum um málið að undanförnu og að mestu er ég nokkuð sammála þeim sem hafa tjáð sig um þau mál.
Í þessari umræðu er þó vafasamt að blanda saman viðbyggingu við skólann og húsakosti dvalarheimilisins og í því ljósi langar mig að koma á framfæri staðreyndum sem vert að hafa til hliðsjónar í umræðunni.

Mikilvægt er að hafa í huga að það er á hendi ríkisins að standa að byggingu hjúkrunarrýma og skal greiðsluþátttaka sveitarfélags að lágmarki vera 15% af byggingarkostnaði. Fyrrverandi meirihluti gekk frá viljayfirlýsingu við ríkið og Heilbrigðisstofnun Vesturlands árið 2012 um það að breyta húsnæði sjúkrahússins með þeim hætti að reka mætti þar hjúkrunarheimili bæjarins sem uppfyllti kröfur um aðbúnað. Um þetta var sátt þvert á alla pólitík og frá upphafi og löngu áður en ég tengdist bæjarmálum hef ég stutt það að þessi leið verði farin. Því miður fór það svo að ekki var gengið frá öllum endum í því samkomulagi er snéri að fjármögnun ríkisins og samþykkti Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir að setja verkið af stað þrátt fyrir harðorðar frábendingar frá fjárlagaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins um að ekki hefði fengist samþykki þess ráðuneytis né þings til að hefja framkvæmdir og fjármögnun væri því engin til verksins. Á þeim grundvelli hafði málið verið sett á “ís” í ráðuneytinu við stjórnarskipti 2013 þar sem engar heimildir voru til staðar. Í fullri sátt bæjarstjórnar var ákveðið að halda viðræðum áfram í upphafi nýs kjörtímabils árið 2014 og reyna til fullnustu að fá verkið samþykkt eftir réttum leiðum með það að markmiði að gera fallegt hjúkrunarheimili við Austurgötuna og styrkja að auki rekstrargrundvöll sjúkrahússins. Mikil vinna liggur að baki þessu og er staðan núna sú að ráðuneyti heilbrigðismála hefur samþykkt að vísa verkefninu til Framkvæmdasýslu ríkisins og síðar til samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir. Málið er því komið af stað aftur og á bak við það liggur mikil vinna. Það er einlæg trú okkar að innan tíðar komist málið á þann rekspöl sem þarf og munum við ekki sætta okkur við aðra niðurstöðu af hálfu ríkisins en að málinu verði tryggð framganga á þessu kjörtímabili.
Það væri því bæði óeðlilegt og óábyrgt af bæjaryfirvöldum að fara af stað með aðrar útfærslur á meðan að málið er í þessum farvegi hjá ráðuneytinu og í raun mjög mikið undir að samningar náist.

Húsnæði
Sú upphæð sem við áætlum að setja í nýbygginguna sem hýsa mun Amtsbókasafnið og bæta aðstöðu grunnskólans er ekki af þeirri stærðargráðu að við hefðum getað byggt nýtt hjúkrunarheimili og því er mínu mati ekki rétt að blanda þessari umræðu saman. Við höfum hins vegar fullvissu endurskoðenda bæjarins fyrir því að við getum staðið við okkar hluta í samningi við ríkið um endurbætur á húsnæði sjúkrahússins þegar að undirritun hans kemur.

Í undirbúningsvinnu fyrir kosningar 2014 fórum við og kynntum okkur húsakost og starfsemi bæjarins. Í þeirri yfirferð varð okkur ljóst að félagsmiðstöðin, grunnskólinn og tónlistarskólinn byggju við óviðunandi húsakost og var okkar vilji skýr um að bregðast við því. Þegar ákvörðun var tekin um að ráðast í viðbyggingu við grunnskólann lá fyrir að með þeirri byggingu gætum við leyst að hluta til úr þrengslum í grunnskólanum þar sem hluta af aðstöðu Amtbókasafnsins mætti svo vel nýta til kennslu auk þess sem rúmlega 100 fm. losna þar sem áður var skólabókasafn. Opnunartími Amtbókasafnsins og kennsla í grunnskólanum er ekki á sama tíma og því fjölmörg tækifæri sem kennarar og nemendur geta nýtt til fjölbreytni í skólastarfinu sem væri skipulagt í samvinnu starfsmanna Amtbókasafns og grunnskólans. Með þessari leið leysum við því miður ekki úr þeim vanda sem tengist húsakosti tónlistarskólans, en engu að síður hefur verið farið í kostnaðarsamar úrbætur sem verða að duga þar til ráðist verður í byggingu nýs tónlistarskóla eins og áætlanir gera ráð fyrir.

Skólastefna Stykkishólmsbæjar
Nú er í gangi vinna við skólastefnu sem mun ljúka með skólaþingi laugardaginn 21.maí þar sem öllum íbúum gefst kostur á að taka þátt í mótun skólastefnunnar. Skólastefnu Stykkishólmsbæjar er ætlað að ná til alls skólastarfs sem og æskulýðsstarfsins í bænum. Í þeirri vinnu hafa komið upp ýmsar hugmyndir sem við getum nýtt okkur m.a til að koma félagsmiðstöðinni í betra húsnæði. Bærinn á mikið af vannýttu húsnæði sem með samstöðu og vilja má nýta betur m.a undir félagsaðstöðu unglinganna.

Skipulag miðbæjarins
Ég verð að játa að ég undra mig á umræðunni sem tengist fyrirhuguðum byggingum og skipulagi í miðbænum. Vissulega er miðbærinn okkar allra en er ekki Stykkishólmur okkar allra?
Hvar væri miðbærinn okkar og gömlu fallegu uppgerðu húsin án framtakssamra athafnamanna og kvenna sama hvaða nafni sem þeir nefnast, sem valið hafa að gera upp og byggja nýtt í anda þeirra húsa sem fyrir eru og stuðlað hafa að húsafriðun? Vissulega þarf að vanda til verka í miðbænum sem og annars staðar og það munum við gera.

Að lokum
Ég er þakklát því góða starfsfólki sem valist hefur til starfa á dvalarheimilið og sinnir þar sínum störfum af kostgæfni og ekki verður um það deilt að eldri borgurum er vel sinnt í húsakynnum dvalarheimilisins. En við getum öll verið sammála um að brýnna aðgerða er þörf um úrbætur er snúa að aðstöðu og að því vinnum við.
Eins og fram kom í ágætri grein Árna Ásgeirssonar í síðustu viku þá er krafa bæjarbúa á hendur bæjaryfirvalda um úrlausnir í hinum ýmsu málum mikil og eðlilegt að svo sé. Þessum erindum greiðum við úr eftir bestu getu og í eins mikilli sátt við íbúa og nokkur kostur er. Það veldur mér áhyggjum ef við sem hér búum og höfum kosið að fjárfesta í fasteignum og fyrirtækjarekstri föllum í þá gryfju að tala bæinn okkar niður eins og nokkuð hefur borið á undafarið.

Höldum áfram að hafa skoðanir og vera gagnrýnin, það er okkur öllum hollt, en myndum okkur skoðanir að vel athuguðu máli. Ég hvet bæjarbúa til að leita eftir upplýsingum finnist þeim þær ekki liggja ljósar fyrir. Netföng bæjarfulltrúa má finna inn á heimsíðu Stykkishólmsbæjar og til þeirra má leita.
Mín ósk okkur öllum til handa er að við getum átt málefnalegar samræður um hagsmuni bæjarins, slíðrum sverðin og látum heildarhagsmuni Stykkishólmsbæjar vera ofar pólitískri orrahríð sem engum er til gagns.

Að lokum óska ég bæjarbúum gleðilegs sumars og þakka samstarfið á liðnum vetri.

Hafdís Bjarnadóttir, forseti bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar. hafdisbj@simnet.is