Áfram SamVest

Föstudaginn 6. nóvember s.l. var undirritaður samningur um áframhaldandi samstarf Sam-Vest í frjálsum íþróttum. Það eru héraðssamböndin sjö sem standa að SamVest sem skrifuðu undir nýjan samning í ljósi góðrar reynslu af samstarfinu.

SamVest varð til haustið 2012 og þá var ritað undir vilja-yfirlýsingu um samstarf til 3ja ára. Samningstíminn rennur út í lok ársins 2015 og var samið um áframhaldandi samstarf til annarra 3ja ára, eða út árið 2018.

Samstarfið gengur út á að efla frjálsíþróttaiðkun barna og unglinga á samstarfssvæðinu. Samstarfið hefur þroskast og vaxið frá því til þess var stofnað. Ýmsir viðburðir eru haldnir, sameiginlegar æfingar bæði heima og á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fengnir eru gestaþjálfarar frá stærri frjálsíþróttadeildum félaga á höfuðborgarsvæðinu, æfingabúðir, mót, og sameiginlegt lið SamVest hefur tekið þátt í bikarkeppnum FRÍ.

Undirritunin fór fram samhliða samæfingu í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika, en þar voru um 30 iðkendur mættir suður á sameiginlega frjálsíþróttaæfingu á vegum SamVest. Gestaþjálfarar á æfingunni voru frá FH.  Hluti af þátttakendunum tók síðan þátt í frjálsíþróttamóti FH, Gaflaranum, lau. 7. nóvember. HSH átti fjóra keppendur, Heiðrúnu Eddu Pálsdóttur og Birtu Sigþórsdóttur, báðar 12 ára frá Stykkishólmi, Hermann Oddsson 10 ára og Björgu Hermannsdóttur 14 ára frá Grundarfirði. Heiðrún Edda tók þátt í öllum greinum og bætti sinn persónulega árangur í 60 m hlaupi. Hermann var að taka þátt í sínu fyrsta frjálsíþróttamóti. Björg komst í úrslit í 60 m hlaupi í sínum flokki. Birta sigraði í kúluvarpi 12 ára stúlkna, kastaði 2 kg kúlu 12,17 m, sem er nýtt héraðsmet í kúluvarpi innanhúss í flokki 12 ára stúlkna. Gamla metið setti Birta sjálf í febrúar sl. og kastaði þá 10,67 m. Með því kasti bætti hún 10 ára gamalt héraðsmet HSH um tæpan einn metra. Hún hefur því á innan við ári bætt héraðsmet 12 ára stúlkna í kúluvarpi innanhúss um tæpa 2,5 metra. Sú sem lenti í öðru sæti í flokki Birtu á mótinu sl. laugardag kastaði 10,17 m, eða nákvæmlega 2 m styttra en Birta og í 3ja sætinu var kast uppá 9,32 m. Það er því ljóst að hér er mikið efni á ferð í kúlunni.

Til gamans má geta þess að Íslandsmetið í 2 kg kúlu 12 ára stúlkna innanhúss er 14,20 m – en í sama flokki utanhúss er metið 11,86 m, sett af Birtu á unglingalandsmóti á Akureyri í ágúst sl.

Björg Ágústsdóttir