Afsökunarbeiðni

Mig langar til byrja á því að biðja hlutaðeigandi fyrirgefningar á grein minni um daginn sem ég kallaði leiklistargagnrýni, en hún virðist hafa lagst illa í suma, þó flestir sem ég hef rætt við hafi þótt hún ágæt.

[mynd]Mig langar til byrja á því að biðja hlutaðeigandi fyrirgefningar á grein minni um daginn sem ég kallaði leiklistargagnrýni, en hún virðist hafa lagst illa í suma, þó flestir sem ég hef rætt við hafi þótt hún ágæt.Það var ekki ætlun mín að særa einn né neinn eða kasta rýrð á leikritið því síður leikarana.
      Í síðustu viku sendi Lára Gunnarsdóttir grein í blaðið þar sem hún gerði þessa gagnrýni mína að umtalsefni og þakka ég henni fyrir það, þó hennar skilningur á mínum skrifum endurspegli ekki að öllu leiti það sem ég vildi sagt hafa. Ég get alveg verið sammála því að betri skil hefði ég getað gert á því sem þarna fór fram og fjallað meira um frammistöðu leikarana sem allir stóðu fyrir sínu og vel það.  Minn aulahúmor að gera grín af sjálfum mér út af því að vilja ekki taka þátt í gleðskapnum var kannski útúrdúr. Það er að sjálfsögðu gleðiefni að fá ungt og áhugasamt fólk inní leikfélagið, líka gott fyrir krakkana að fá afþreyingu á góðum stað með skólanum, því hljóta allir að fagna.      Leikhús er ekki bara leikhús það er líka fólkið sem þar starfar. 
     
Það er misskilningur hjá Láru að ég hafi sagst hafa leikið í spunaverkum, þar hefur henni yfirsést, það voru absúrdverk , framúrstefnuverk, frasar ofl sem við settum upp í þessari upprifjun minni frá Borgarnesi og var ég eingöngu að minnast á það vegna þess að þegar ég horfði á brúðkaup Tony og Tinu og sá hvað unga fólkið í leikritinu skemmti sér vel, rifjuðust upp hjá mér þessir gömlu tímar og þær tilfinningar sem þá kviknuðu og nærðu eitthvað sem enn lifir í mínu brjósti, og gladdist ég þeirra vegna út af því þ.a.e.a.s leikarana okkar. 
      Ég vil að það komi skýrt fram, reyndar minntist ég á það með öðrum orðum í grein minni um daginn að ég óska öllum til hamingju sem við þessa uppfærslu störfuðu jafnt leikurum, ungum og gömlum sem og öðrum, einnig þá djörfung að taka verk sem þetta til uppfærslu.  Það er svo kapítuli út af fyrir sig hvernig leikrit skulu vera valin hverju sinni.
     Auðvitað er ég sammála því að maður á að gleðjast með glöðum það liggur í orðanna hljóðan,  og hvort maður taki sjálfan sig svo alvarlega að maður geti ekki tekið þátt í glensi veit ég ekki hvort á við um mig, mínir gallar eru mínir gallar og þeir eru eflaust miklu fleiri en ég hef hugmynd um. Fýlugjarn er ég með afbrigðum svo það leggur af mér fnykinn langar leiðir á stundum, þá hef ég allt á hornum mér og er þá eflaust óalandi og óferjandi, var ég kannski í svoleiðis stuði þegar ég fór á leiksýninguna um daginn? Það má vel vera. Konan mín segist samt elska mig þegar fýlan rennur af mér og hægt er að nálgast mig á ný. Þetta sýnir hverslags mannkostum og langlundargeði hún býr yfir þessi elska.
     Ég hef ekki haft það orð á mér að ég taki sjálfan mig alvarlega, en öllu gríni fylgir alvara og verð ég að viðurkenna að þar er oft erfitt fyrir mig að aðgreina. Stundum hefur verið sagt að þeir fari í leiklistar-gagnrýni sem ekki geta leikið og aðrir gerist dómarar í körfubolta sem ekkert geta í körfu o.s.frv.. Kannski er ég ekki góður leiklistargagnrýnandi og ætti því að snúa mér að einhverju öðru. 

 

                                                                 Siggi Palli Fýlupúki.