Aftanskin – félag eldri borgara í Stykkishólmi

Nú læðist að okkur haustið og þá er komið að því að byrja vetrardagskrána. Eins og undanfarin ár er ein vikuleg föst samvera, kaffispjallið á mánudagsmorgnum, kl 10. Fyrsta kaffispjallið verður mánudaginn 17. september í Setrinu.  Svo týnist inn dagskráin smátt og smátt og verður kynnt betur síðar.

En viljum sérstaklega núna minna á sameiginlega skemmtun eldri borgara á Snæfellsnesi, Nesballið, sem fyrirhuguð er laugardaginn 29. september, hér í Stykkishólmi. Þessar skemmtanir hafa verið mjög vel heppnaðar og gaman að hitta félaga okkar utan af nesi. Biðjum alla, 60 ára og eldri að hafa þennan dag frátekinn. Athugið að þó að ekki sé um félagsmenn að ræða eru allir 60+ velkomnir á Nesballið.  Þetta verður þríréttuð máltíð, ball og skemmtilegheit af ýmsu tagi. Verð er kr. 8. 500  á manninn.

Aftanskin er gróið félag sem vill gjarnan hafa innan sinna raða sem flesta þá hér í bæ sem eru 60 ára og eldri. Eftir því sem við erum fleiri verður félagskapurinn sterkari. Hóflegt árgjald og mikil starfsemi ætti að laða að flesta.  Því hvetjum við fólk til að ganga í félagið og taka þannig virkan þátt í að hafa áhrif á stöðu eldri borgara í bænum. Félagið tilnefnir fulltrúa í Öldrunarráð Stykkishólms og getur í gegnum það haft áhrif á bæjarstjórn. Einnig er ekkert það efni sem við getum ekki rætt um á fundum og þannig orðið til að vekja athygli fólks á stöðu eldra fólks almennt. Endilega komið og kynnið ykkur starfsemina og takið þátt.

Þau ykkar sem eru á Facebook, bjóðum við velkomna á síðuna okkar, Aftanskin félag eldri borgara í Stykkishólmi.  Svo eru auðvitað margir sem ekki eru þar, en þá er auðvelt að hafa samband við okkur í Setrinu, verið velkomin í kaffispjallið á mánudögum – eða  hafa beint samband við stjórnarmenn.  Í stjórn Aftanskins eru núna: Ísleifur Jónsson, formaður og meðstjórnendur þau Þorsteinn Sigurðsson og Laufey Hjaltalín. Þannig hefur viljað til að þau þurfa öll að vera talsvert fjarverandi nú í haust vegna rannsókna þeirra á heilbrigðiskerfinu. Svo að varastjórn, til þess eru hún víst, hefur tekið við störfum að hluta en í miklu samstafi við stjórnina. Varastjórn skipa:  Dagbjört Höskuldsdóttir fyrir formanninn og þær María Guðmundsdóttir og Ingveldur Ingólfsdóttir sem meðstjórnendur.  Stjórnarmenn koma svo til starfa sem fyrst og óskum við þeim góðs bata.

Dagbjört Höskuldsdóttir,
í varastjórn Aftanskins.