Ágætu bæjarbúar

Að afstöðnum sveitarstjórnarkosningum er mér ofarlega í huga þakklæti til allra þeirra sem sýndu í orði og verki stuðning við mig og mín störf fram að þessu 

Að afstöðnum sveitarstjórnarkosningum er mér ofarlega í huga þakklæti til allra þeirra sem sýndu í orði og verki stuðning við mig og mín störf fram að þessu. 

Í aðdraganda kosninga koma fjölmargir bæjarbúar að undirbúningi framboðanna og þó svo að tekist sé kröftuglega á skilja menn sáttir að leikslokum og snúa bökum saman.  Því öll höfum við jú sama markmiðið að hlúa að því samfélagi sem við lifum í og gera góðan bæ enn betri.

      Það var mér ný reynsla og lærdómsríkt að sigla í gegnum þann ólgusjó sem kosningar og kosningabarátta getur verið.  Málefnavinnan, sem var einstaklega skemmtileg, unnum við með dugmiklum fjölmennum hópi fólks sem stóð þétt að baki okkur frambjóðendunum.  Stefnuskráin sem þá fæddist verður síðan það leiðarljós sem við höfum til viðmiðunar í okkar daglega amstri næstu fjögur árin.  Það er óhætt að segja að þar bíði okkar mörg og krefjandi verkefni sem gaman verður að fást við.

       Það er mér mikið tilhökkunarefni að starfa áfram að þróun Stykkishólms með öllu því áhugasama fólki sem tekur nú sæti í nýrri bæjarstjórn og nefndum á vegum bæjarins.  Ég hef fundið það frá fyrsta degi sem bæjarstjóri að til mín eru gerðar miklar væntingar og vona að með allt þetta áhugasama og duglega fólk sem bakhjarla muni ég standa undir þeim væntingum sem til mín eru gerðar. 

      Ég þakka kærlega öllum sem hafa stutt mig til starfa og mun áfram sem hingað til leggja mig alla fram við að vera bæjarstjóri allra Hólmara.

 

                                                                                       Erla Friðriksdóttir

                                                                                       bæjarstjóri