Alþjóðlegur dagur sjálfbærni, 25.október 2017

Kæru íbúar Snæfellsness

Fögnum saman og mörkum upphaf umhverfisvænna og margnota lausna á Alþjóðlegum degi sjálfbærni, 25. október 2017.

Skorað er á einstaklinga, skóla, stofnanir, fyrirtæki og verslanir á öllu Snæfellsnesi að taka virkan þátt og deila með hvert öðru á samfélagsmiðlum #KJOSUMMARGNOTA

Síðastliðnar vikur hefur verkefnið Margnota Snæfellsnes meðal annars staðið fyrir fræðslukvöldi og hugmyndasamkeppni, auk þess að reyna að virkja þátttöku íbúa, en það síðastnefnda er það mikilvægasta fyrir samfélag og umhverfi. Formlega mun verkefninu ljúka í lok október en við vonum að verkefnið hafi kveikt hugmyndir og vakið drifkraft hjá íbúum til að halda áfram að leita margnota lausna í daglegu lífi. Íbúar mega vera stoltir af því að sýna vilja í verki og það er augljóst að framtíðin er björt. Þó er alltaf hægt að gera betur og margar lausnir í boði, til dæmis:

 • Notum fjölnota poka við öll innkaup og fjölnota poka undir laust grænmeti og ávexti. Gott er að geyma pokana á stöðum þar sem þeir gleymast síður, t.d. á hurðahúnum, í veskinu eða bílnum.
 • Veljum vörur sem ekki er pakkað í óþarflega miklar umbúðir.
 • Á ferðinni getum við drukkið heita og kalda drykki í fjölnota ferðamálum.
 • Nota vaxhúðaða bómullarklúta (Bees-wrap) í stað plastfilmu/poka til að geyma matvæli og undir brauð úr bakaríinu.
 • Afþökkum sogrör.
 • Afþökkum fjölpóst hjá Póstinum postur.is
 • Bjóðum upp á matvæli og drykki í leirtaui í partýinu, á fundinum eða í útilegunni – einnota ílát og hnífapör eru sóun á auðlindum og peningum.
 • Notum margnota nestisbox og lokanleg ílát undir t.d. afganga, nesti og „take-away“ mat frá matsölustöðum.
 • Verum dugleg að endurvinna – við erum heppin að vera með frábær flokkunarkerfi.
 • Nýtum ílát sem falla til á heimilinu undir geymslu.
 • Gerum við í stað þess að henda.

Við hlökkum til að fylgjast með!

Hugsum þegar við kaupum og áður en við hendum #kjosummargnota