Amtbókasafnið á vergang

Það er flestum bæjarbúum ljóst að Bókasafnið okkar hefur lengi búið við mikil þrengsli í húsnæðismálum sínum.

Það er flestum bæjarbúum ljóst að Bókasafnið okkar hefur lengi búið við mikil þrengsli í húsnæðismálum sínum. Núverandi húsakostur safnsins sem mætti ágætlega þörfum þess þegar það var tekið í notkun árið 1964 er löngu orðinn of lítill því sannarlega hefur bókakostur safnsins vaxið ört þessa áratugi, starfsemin tekið breytingum og margvíslegar auknar kröfur verið gerðar til hlutverks bókasafna.  Má þar m.a. nefna að Ljósmyndasafn Stykkishólms er þar nú til húsa einnig hafa leitað þangað ýmiss skjöl og verðmæti sem samfélagið vill og þarf að varðveita.
Amtbókasafnið getur rakið sögu sína aftur til ársins 1847 og á það því 160 ára starfsafmæli á næsta ári og er það elsta menningarstofnunin í eigu bæjarins. Tvisvar á þessum 160 árum hefur verið byggt sérstaklega yfir starfsemi safnsins.
Í mínum huga er Bókasafnið merkasta stofnun bæjarins og sú stofnun sem við bæjarbúar berum skyldu til að standa sérstakan vörð um.
Árum saman hefur verið rætt um þörf á nýju og stærra húsnæði fyrir bókasafnið svo það geti m.a. sinnt brýnni þörf skjalasafns fyrir bæjarfélagið og jafnvel skjalasafns fyrir allt nesið.  Þessi umræða hefur hins vegar sofnað jafnóðum og ekkert hefur komið til framkvæmda í þessa veru.
Það dró hins vegar til tíðinda á vordögum 2004 þegar hingað ratar útlendur listamaður kona að nafni Roni Horn.  Hún fær áhuga á þessari frábæru  staðsetningu sem Bókasafnið hefur með útsýni yfir okkar fallega Breiðafjörð.  Listakonan fær upplýsingar um að þörf sé á nýju og stærra húsnæði fyrir safnið og fer hún fljótlega að þreifa fyrir sér við bæjarstjórn hvernig hún geti komist yfir húsnæði safnsins í þeim tilgangi að setja þar upp svokallað  „Vatnasafn“.  Henni tekst að fá í lið með sér listasamtökin Artangel, erlent fyrirbrigði, sem tilbúið er að styrkja hana til verksins ef íslenska ríkið og Stykkishólmsbær leggi sitt af mörkum.
Þessi umræða fór lengi vel afar leynt og var hvíslað um málið mánuðum saman í „skúmaskotum“.  Það er svo rúmu ári eftir að listakonan kom hér fyrst að boðað er til kynningafundar um málið á lofti Ráðhússins í júnímánuði 2005.  Á þann fund mættu þáverandi bæjarstjóri Óli Jón Gunnarsson, einhverjir bæjarfulltrúar, slangur af bæjarbúum, listakonan Roni Horn, James Lingwood fulltrúi frá
Artangel, kona að sunnan sem túlkaði fyrir þau og  Guðmundur Páll Ólafsson sem sá um fundarstjórn.  Á Ráðhúsloftinu þetta kvöld fóru þessir aðilar yfir væntingar sínar, vilja og áform ef  þau fengju húsið til afnota.
Þá var upplýst að ríkið myndi leggja fram 20 milljónir til Stykkishólmsbæjar og með því eignast 50% í húsnæði Bókasafnsins á Þinghúshöfðanum, þessir peningar yrðu notaðir til að koma á fót öðru húsnæði yfir safnið og engan kostnað átti bærinn að bera vegna reksturs Vatnasafnsins. Mér skildist helst að listakonan sæi fyrir sér að fólk gæti heimsótt safnið allan sólarhringinn og nálgast til þess lykil sem geymdur væri úti í bæ.
Það kom ítrekað fram hjá þeim sem til máls tóku á fundinum, bæjarstjóra og væntanlegum handhöfum Bókasafnsins að ekkert gæti orðið að þessu nema Bókasafnið fengi viðunandi framtíðarhúsnæði fyrir starfsemi sína enda hefðu lengi verið uppi  áform um slíkt.
Síðan þessi fundur var haldinn 23. júní 2005 hafa orðið hér bæjarstjóraskipti en þau áttu sér stað í ágústmánuði. Safna og menningarmálanefnd bæjarins fjallaði um framtíðarhúsnæði fyrir bókasafnið og skilaði skýrslu til bæjarstjórnar að ég held í nóvember sl. Í lok ársins var settur á stofn vinnuhópur vegna flutnings Bókasafnsins í nýtt húsnæði og skilaði hann  af sér til bæjarstjórnar tveim tillögum um miðjan febrúar.
Ég nenni ekki að fjalla um metnaðarleysið í þeim valkostum sem bæjarstjórn telur sig hafa í framtíðarmálefnum safnsins en þar er í fyrirrúmi algjört úrræðaleysi.  Eitt er að hafa ekki metnað og hugrekki eða jafnvel fjárhagslegt bolmagn til að byggja yfir safnið viðeigandi húsnæði annað öllu alvarlegra er að mínu mati að hafa búið þannig um hnútana, þrátt fyrir gefin loforð, að safnið sé á götunni og eini valkosturinn að flytja það í gjörsamlega óviðunandi skemmu, sem er Skipavíkurhúsið.
Þetta er samþykkt í bæjarstjórn þrátt fyrir varnaðarorð forstöðumanns safnsins og margra annarra. Nú er svo komið að Sigurlína Sigurbjörnsdóttir, sem veitt hefur safninu ,farsællega, forstöðu í 20 ár hefur sagt starfi sínu lausu, sama hefur Birna Pétursdóttir eini fasti starfsmaður safnsins fyrir utan Sigurlínu gert. Þá hefur Ægir Jóhannsson, sem lengi hefur vakað yfir velferð safnsins sagt sig úr Safna og menningarmálanefnd.
Ég læt ekki oft í mér heyra varðandi störf þeirra sem með stjórn bæjarins fara en í þessu máli er mér svo misboðið að ég get ekki látið kyrrt liggja að vekja athygli á stöðunni.
Lengi trúði ég ekki öðru en að málið fengi afgreiðslu í „takt“ við það sem lofað var á Ráðhúsloftinu í júnímánuði sl. en  að mínu mati væri safninu betur borgið að búa áfram í þeim þrengslum sem það býr við í dag en fara á hrakhóla eins og nú stefnir í.
Það er hættulegt fyrir lítið samfélag eins og okkar þegar heimamenn gleypa hugmyndir annarra og missa stjórn í eigin málum.  Ég er ekki á nokkurn hátt að kasta rýrð á listakonuna Roni Horn þegar ég ber það á borð að þetta mál sé vaxið með svipuðum hætti og „Nýju fötin keisarans„.
Við bæjarbúar sem höfum fylgst með þessu máli úr fjarlægð og berum hag Bókasafnsins fyrir brjósti, hljótum að óska eftir greinargerð frá bæjarstjórn um hvað fór úrskeiðis hjá þeim miðað við gefin loforð á margnefndum fundi á Ráðhúsloftinu um að Bókasafnið yrði ekki flutt nema það færi í framtíðarhúsnæði. Einnig óska ég eftir að birtur verði hér í blaðinu samningur sá sem bærinn hefur eða er að gera við Artangel og þar komi fram sá kostnaður sem við skattgreiðendur eigum að bera við rekstur þeirra á Þinghúshöfðanum.

Stykkishólmi 15.mars 2006
Rakel Olsen