Annar síldardauði í Kolgrafafirði

Flestum er í fersku minni dauði 30.000 tonna af síld í Kolgrafafirði 13. desember síðastliðinn og hefur m.a. orðið vart við afleiðingar þess með grúti í fjörum og óþef í lofti.

Síðdegis síðastliðinn föstudag, 1. febrúar, varð aftur vart við mikinn síldardauða þegar ferska síld rak á land við vestanverðan fjörðinn. Á laugardeginum fór starfsfólk Náttúrustofu Vesturlands á staðinn til að meta aðstæður og gera tilraun til að meta magn síldar í fjörum. Dauða síld virtist aðallega vera að finna í fjörunni við vestanverðan fjörðinn frá brú inn að Eiðisstöpum, skammt suðaustan við bæinn Eiði, og var því ákveðið að ganga um 2,5 km langa leið eftir ströndinni frá eyrinni við brúna (frá sunnanverðum Hjarðarbólsodda) að Eiði.

Annar síldardauði í Kolgrafafirði

 

Flestum er í fersku minni dauði 30.000 tonna af síld í Kolgrafafirði 13. desember síðastliðinn og hefur m.a. orðið vart við afleiðingar þess með grúti í fjörum og óþef í lofti.

 

Síðdegis síðastliðinn föstudag, 1. febrúar, varð aftur vart við mikinn síldardauða þegar ferska síld rak á land við vestanverðan fjörðinn. Á laugardeginum fór starfsfólk Náttúrustofu Vesturlands á staðinn til að meta aðstæður og gera tilraun til að meta magn síldar í fjörum. Dauða síld virtist aðallega vera að finna í fjörunni við vestanverðan fjörðinn frá brú inn að Eiðisstöpum, skammt suðaustan við bæinn Eiði, og var því ákveðið að ganga um 2,5 km langa leið eftir ströndinni frá eyrinni við brúna (frá sunnanverðum Hjarðarbólsodda) að Eiði.

 

Tekin voru snið niður fjöruna á 100 m fresti og þéttleiki síldarinnar metinn. Jafnframt var grútarmengun lýst á hverju sniði. Gríðarlegt magn af dauðri síld var í fjörunni á þessum kafla og þurftu starfsmenn að vaða í gegnum ferska síld og úldinn grút megnið af leiðinni, en þar sem mest var, austan Eiðis, náði síldin upp að hnjám neðarlega í fjörunni.

 

Samkvæmt þessum mælingum voru um 7.000 tonn af síld í fjörunni á þessum 2,5 km kafla. Talsvert magn til viðbótar var í fjörum norðan og þó sérstaklega sunnan við athugunarsvæðið. Þetta er margfalt meira magn í fjörum en var í desember. Þegar þetta er ritað er ekki vitað um heildarmagn dauðrar síldar í firðinum öllum, en veðuraðstæður aðfaranótt laugardagsins gætu hafa valdið því að stórum hluta dauðu síldarinnar skolaði á land við vestan- og norðanverðan fjörðinn innan brúar og því sé minna á botninum en þegar svipaður atburður varð í desember. Fyrstu fréttir úr leiðangri Hafrannsóknastofnunar 4. febrúar benda til að svo sé.

 

Eins og í desember eru langmestar líkur á að súrefnisþurrð hafi orsakað þennan mikla síldardauða en rotnunarferlið á þeirri síld sem drapst í desember og stórar síldartorfur taka til sín súrefni og auka líkurnar á að súrefnisþurrð verði viðvarandi í firðinum innan brúar. Mælingar Hafrannsóknastofnunarinnar í rannsóknaleiðöngrum í desember og janúar bentu til að súrefnismettun sjávarins í firðinum innan brúar væri mjög lág og styðja þessa tilgátu. Líkurnar á að súrefnismettun fari niður fyrir hættumörk fyrir síldina aukast enn þegar veður er stillt og blöndun sjávar lítil, eins og var í aðdraganda síldardauðans í báðum tilfellum. Mynni Kolgrafafjarðar var þegar fremur þröngt áður en hann var þveraður en ekki er hægt að útiloka að breyttir straumar eða aðrar breytingar á aðstæðum eftir gerð vegfyllingar og brúar hafi aukið líkurnar á viðburðum af þessu tagi. Þátt framkvæmdanna í þessum viðburðum nú þarf að rannsaka eins og kostur er.

 

Hefur þetta gerst áður?

Heimildir eru um síldargöngur inn í Kolgrafafjörð. Í grein í Vísi árið 1953 segir frá því að síld hafi áður oft gengið inn í Kolgrafafjörð en einkum að sumri og hausti. Í Íslendingaþáttum Tímans árið 1983 segir af miklum síldargöngum í Kolgrafafirði upp úr 1930. Þá er til frásögn af síldartorfu sem fraus í sjónum í miklum kuldum á fyrri hluta 20. aldar. Í skýrslu náttúrufræðingsins Bjarna Sæmundssonar til landshöfðingja árið 1897 segir m.a. af því að hægt sé að veiða síld við þrenginguna („lás“) í Kolgrafafirði. Einhverjar heimildir virðast vera um síldardauða í Kolgrafafirði, t.d. frá 1941, en ekkert þó í líkingu við það sem gerst hefur undanfarnar vikur. Lesendur eru hvattir til að benda undirrituðum á fleiri heimildir um síldargöngur í Kolgrafafirði á árum áður.

 

Svo virðist sem síldardauði hafi orðið nokkrum sinnum í norskum fjörðum og hafa þegar fundist heimildir um a.m.k. fjögur tilfelli (2012, 1988, 1984 og tilfelli snemma á 20. öld). Öll voru þau þó mun smærri að umfangi en síldardauðinn í Kolgrafafirði nú. Síldardauði af þessu umfangi gæti því verið einstakur á heimsvísu.

 

 

Áhrif á fuglalíf

Fuglatalningar síðustu vikur hafa sýnt að tugþúsundir fugla hafa flykkst inn á sunnanverðan Breiðafjörð vegna mikils framboðs fæðu þar, og er nú svo komið að nokkuð hátt hlutfall af landsstofni sumra tegunda heldur sig á svæðinu. Bráðabirgðaniðurstöður nýlegrar fuglatalningar, sem Náttúrustofa Vesturlands stóð fyrir í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknasetur HÍ á Snæfellsnesi og Fuglavernd, benda til að fjöldi fugla með ströndinni frá Stykkishólmi að Búlandshöfða hafi verið um 90 þúsund í seinni hluta janúar. Síldin sem drapst í desember er nú orðin talsvert niðurbrotin og á þeirri leið sem starfsfólk Náttúrustofunnar gengu sl. laugardag var grútarlag yfir allri fjörunni og efst í henni oftast hrúgur af síldarfitu. Grúturinn er mjög hættulegur fuglum, því festist hann í fjöðrum missa þeir flughæfnina, auk þess sem einangrunargildi fjaðurhamsins verður lítið. Flestir fuglar sem lenda í slíku eiga enga lífsvon án hjálpar. Nú eftir seinni síldardauðann hefur áhættan fyrir fuglalíf margfaldast þar sem margir fuglar sækja í fersku síldina í fjörunum og fá þá í sig grút af dauðu síldinni frá í desember. Á síðustu dögum hafa sést grútarblautir fuglar (a.m.k. langvía, hvítmáfur og tjaldur) við Kolgrafafjörð og er viðbúið að á næstu vikum muni talsverður fjöldi fugla blotna í síldarfitunni. Vegfarendur sem verða varir við grútarblauta fugla eru vinsamlegast beðnir um að koma þeim til Náttúrustofu Vesturlands þar sem þeir verða þvegnir. Hafi þeir ekki tök á því mega þeir gjarnan láta vita af slíkum fuglum í s. 898-6638. Þá óskar Náttúrustofan eftir því að sjálfboðaliðar sem áhuga hafa á að taka þátt í þvotti á grútarblautum fuglum eða skipulögðum göngum til að leita þeirra, láti vita af sér á netfangið nsv@nsv.is eða í s. 433 8122.

 

 

Skotveiðar

Náttúrustofu Vesturlands hefur ítrekað fengið tilkynningar um að skotið hafi verið á þétta fuglahópa við Kolgrafafjörð (og Urthvalafjörð), bæði af landi og úr bátum. Á þessum árstíma eru heimilar veiðar á mörgum þeirra fuglategunda sem þarna halda sig en innan um þær eru hins vegar einnig margar friðaðar tegundir. Ýmis rök hníga að því að draga eins og kostur er úr skotveiðum á þessu svæði á meðan þetta óvenjulega ástand varir. Þar á meðal:

  1. Talningar hafa sýnt að umtalsverðan hluta landsstofna ýmissa tegunda sé að finna á þessu svæði. Ljóst er að afföll verða á næstunni vegna grútar og gætu þau í versta falli orðið umtalsverð og haft áhrif á stofnstærðir. Óskynsamlegt er að bæta á þau afföll með skotveiðum.

  2. Fuglarnir gegna hlutverki í að hreinsa fjörðinn og flýta niðurbroti og ættu að fá að sinna því hlutverki óáreittir. Þótt fuglarnir éti vissulega einnig lifandi fiska, taka þeir talsvert af dauðum fiskum og fiskitægjum úr sjónum. Fuglar ná reyndar aðeins að taka brot af heildarmagni dauðra fiska í firðinum en margt smátt gerir eitt stórt.

  3. Þótt margir fuglanna sem algengastir eru þarna (s.s. hvítmáfur, svartbakur, fýll, rita og skarfar) séu ófriðaðar á þessum árstíma, þá eru þarna líka ýmsar friðaðar tegundir, s.s. haförn, fálki, gulönd og bjartmáfur. Sá síðastnefndi er í þúsundatali á svæðinu en aðeins vanir fuglaskoðarar þekkja hann frá hvítmáfi, svo nánast öruggt er að sé skotið á máfa sé einnig verið að skjóta á bjartmáf.

  4. Líta verður til dýravelferðarsjónarmiða í þessu samhengi, en með því að skjóta inn í stóra fuglahópa er nánast öruggt að margir fuglar særist án þess að drepast strax. Þá geta þeir átt í vændum hægfara og kvalafullan dauðdaga.

  5. Ólíklegt er að veiðar á „vargfuglum“ á þessum árstíma og stað komi í veg fyrir tjón, t.d. í tilteknu æðarvarpi, síðar meir.

Af framangreindum ástæðum er því beint til skotveiðimanna að skjóta ekki fugla í Kolgrafafirði og nágrenni á næstu dögum og vikum, jafnvel þótt veiðar séu heimilar á sumum tegundum.

 

 

Hvað er fram undan?

Mögulegt er að súrefnisþurrð viðhaldist í Kolgrafafirði næstu vikur og mánuði og haldi áfram að ógna lífríki. Grútur mun halda áfram að safnast í fjörur og valda fuglum erfiðleikum og mannfólkinu óþægindum. Á næstu dögum þarf að huga að fjölmörgum atriðum. Vinna þarf viðbragðsáætlanir sem taka til hreinsunarstarfs ferskrar síldar og grútar, grútarblautra fugla, aðferða til að varna ferðum síldar inn í fjörðinn og vöktun fuglalífs, fiska, botndýra og eðlisþátta (hita, seltu og súrefnismettunar), auk vöktunar á menguninni sem fylgir niðurbroti síldarinnar. Þá þarf að koma upp ásættanlegri aðstöðu til fuglaþvottar og listum yfir sjálfboðaliða sem vilja á einn eða annan hátt taka þátt í þeim verkefnum sem fram undan eru varðandi hreinsun fugla og grútar. Einnig þarf að huga að vernd æðarvarpa á svæðinu fyrir grúti þegar líður að vori og hvort og hvernig hægt sé að fyrirbyggja að sauðfé fái á sig grút í sumar. Síðast en ekki síst er mikilvægt að rannsaka í kjölinn hvaða áhrif vegfylling og brú yfir fjörðinn höfðu á þessa atburðarás. Þriðjudaginn 5. feb. ákvað ríkisstjórnin að veita 6 milljónum króna til verkefnisins og á næstu dögum verður verkaskipting og verkáætlun útfærð.

Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee