Áramót – Bæjarstjóri Snæfellsbæjar

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri

Nýtt ár er gengið í garð. Að venju er margs að minnast og ætla ég að fara hér yfir árið 2016 í Snæfellsbæ í nokkrum orðum.

Árið 2016 var mikið íþróttaár, bæði í Snæfellsbæ sem og á Íslandi öllu. Meistaraflokkar karla og kvenna í knattspyrnu stóðu sig vel á árinu og er ég stoltur af frammi­stöðu þeirra. Það er alls ekki sjálfgefið að ná þessum árangri í samfélagi með 1650 íbúa. Til að svo megi verða þarf mikinn metnað og dugnað.

Unga fólkið okkar stóð sig vel og skilaði góðum árangri á Íslandsmótum, Unglingalands­ móti, Landsmóti hestamanna og á hinum ýmsu mótum og viðburðum. Þetta var svo sannarlega mikið íþróttaár og ekki hægt annað en að dást að frammistöðu fjölmargra Íslendinga sem náðu frábærum árangri í sínum íþróttum á alþjóða­ mælikvarða. Frammistaða íslenska karlalandsliðsins í Frakklandi í sumar er okkur öllum minnisstæð. Sjálfur naut ég þeirrar ánægju að fara til Nice í Frakklandi með góðu fólki til að sjá Ísland­-England sem var ógleymanleg upplifun. Mikið sem ég var stoltur af leikmönnum og ekki síður íslenskum stuðnings­ mönnum sem voru til mikillar fyrir­myndar.

Sandaragleði var haldin á árinu og tókst hún með miklum ágætum, var vel sótt og til mikils sóma fyrir þá aðila sem að henni stóðu. Það er gaman að sjá hversu fólk var samtaka í að gera þessa hátíð sem besta úr garði og var bærinn m.a. skreyttur hátt og lágt.

Menningarlífið var með miklum blóma á árinu og var margt í boði í þeim efnum. Frystiklefinn með Kára Viðarsson í fararbroddi stóð sig afburðavel og stóð fyrir fjölda viðburða sem fjöldi fólks sótti. Það er gæfa okkar samfélags að eiga Kára og Frystiklefann Það gleymist stundum mikilvægi þess að fá að njóta og upplifa.

Árið 2015 var öflugt ár í ferða­ þjónustunni í Snæfellsbæ en árið 2016 var í raun ævintýralegt. Aldrei hafa fleiri ferðamenn komið á svæðið og mikið var að gera hjá þeim sem voru í þjónustu við ferðamenn. Aldrei hafa verið gefin út fleiri leyfi til heimagistingar og aldrei hafa fleiri gist í Snæfellsbæ heldur en á árinu 2016. Það er í raun sama hvert litið er, allsstaðar var mikil aukning. Talsverð uppbygging var í greininni á árinu og hafin var vinna við stækkun hjá nokkrum aðilum í ferðaþjónustunni og annarstaðar var byrjað á nýbyggingum. Ég er þess fullviss að tækifærin í ferðaþjónustu á Snæfellsnesi séu enn mörg og mörg ónýtt er varðar afþreyingu á svæðinu

Árið var gott hjá sjávarútvegnum í Snæfellsbæ og nýir bátar bættust í glæsilegan flotann. Það skyggði þó á í lok ársins að verkfall hófst hjá sjómönnum og er það von mín að aðilar nái fljótt saman því atvinnuvegurinn skiptir okkur svo miklu sem hér búum.

Snæfellsbær hefur á undan­ förnum árum eins og Þjóðgarður­inn Snæfellsjökull lagt mikla áherslu á að bæta aðgengi á ferða­mannastöðum jafnframt því að opna aðgengi að nýjum stöðum. Á árinu var m.a. steypt plan við Bjarnafoss, farið var í framkvæmdir við Svöðufoss þar sem vegurinn að fossinum var lagaður ásamt því að bílastæði var gert og það steypt ásamt því að gerður var glæsilegur áningastaður þar sem fólk getur notið þess að horfa á fossinn. Að auki var unnið að gerð göngustíga á Arnarstapa og fleira. Vonir standa til þess að ekki verið langt í að flestir ferðamannastaðir verði þannig að við getum verið stolt af.

Á árinu var tekin skóflustunga að nýrri þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi og var það umhverfis­ ráðherra Sigrún Magnúsdóttir sem sá um það ásamt ungri stúlku héðan úr Snæfellsbæ. Þetta var langþráð stund fyrir okkur hér í Snæfellsbæ og á Snæfellsnesi öllu. Í mínum huga er enginn vafi á mikilvægi þessarar miðstöðvar og í fjárlögum 2017 eru fjármunir tryggðir til að byrja verkið.

Fleira ánægjulegt gerðist á vegum þjóðgarðsins á árinu 2016. Á Malarrifi var tekin í notkun ný gestastofa sem að mínu mati er alveg til fyrirmyndar og hana heimsótti fjöldi gesta. Á árinu 2017 bind ég vonir við það að opnunartíminn á gestastofunni verði aukinn og þá sérstaklega yfir vetrartímann og um helgar.

Á haustmánuðum var hafist handa við að reisa reiðskemmu í Ólafsvík og var ánægjulegt að sjá þann mikla kraft sem var í þeim góða hópi sem stendur að framkvæmdinni. Snæfellsbær kom að málinu með fjárframlagi og er sveitarfélagið stolt af því að geta lagt slíkri framkvæmd lið, framkvæmd sem án vafa mun breyta miklu fyrir hestamenn á svæðinu.

Alþingi samþykkti á haust­ mánuðum að ljúka framkvæmdum við Fróðárheiði. Gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir á árinu 2018 og ljúka þeim á árinu 2019. Þrátt fyrir allt og allt þá vona ég að loksins sjáum við fyrir endann á þessu verki. Íbúar samfélagsins hafa beðið svo lengi eftir að sjá þessu verki lokið og það væru í raun óafsakanleg svik við samfélagið ef þetta gengur ekki eftir.

Stjórn Sjómannagarðsins á Hellissandi var öflug á árinu og réðst m.a. í stækkun á húsakosti safnsins. Jafnframt eru þau með stór og mikil áform um algera endurskoðun á rekstri safnsins og hafa í því sambandi fengið til liðs við sig sérfræðinga sem munu setja upp nýja sýningu á safninu. Ég á von á því að við þessar breytingar muni fjöldi gesta aukast og safnið verði einn af seglum svæðisins.

Töluverðar framkvæmdir voru hjá Snæfellsbæ á árinu. Svo eitt­ hvað sé nefnt sem ekki hefur verið nefnt hér að framan þá hófust framkvæmdir við að endurnýja stálþil í Rifi sem er yfir 50 ára gamalt, aðkoman að leikskólanum Kríubóli var endurnýjuð og farið var í malbiksframkvæmdir og gang­stéttarframkvæmdir.

Mikil aðsókn var í sundlaugar Snæfellsbæjar á árinu, sú mesta sem verið hefur. Sömu sögu er að segja með tjaldstæðin, aldrei hefur verið meiri aðsókn að tjaldstæðum Snæfellsbæjar í Ólafsvík og Hellis­sandi en nú í sumar.

Á árinu voru töluverðir fjármunir settir í búnað og tæki fyrir grunnskólann og leikskólana og er það von mín að áður en langt um líður verði þau mál hjá okkur eins og best verður á kosið.

Áfram var unnið að nýju aðal­skipulagi og mun vinnu við það ljúka á árinu 2017.

Unnið var að umhverfismálum í sveitarfélaginu og farið í hinar ýmsu framkvæmdir við að snyrta og fegra og alltaf er svæðið okkar að verða fallegra og snyrtilegra með ári hverju og eigum við að vera stolt af því, ég er það að minnsta kosti.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð og tókst á árinu að borga niður skuldir enn eitt árið þrátt fyrir töluverðar framkvæmdir og engin ný lán tekin á árinu. Þessi staða gefur okkur aukið svigrúm til framkvæmda en þó verðum við að gera okkur fulla grein fyrir því að það eru takmörk á getu samfélagsins til framkvæmda. Ég veit að væntingar fólks til hinna ýmsu mála eru miklar en þá vil ég minna fólk á að því miður hefur það komið fyrir að óábyrgir sveitarstjórnarmenn hafa farið í framkvæmdir sem sligað hafa þeirra samfélög og jafnvel svo að þau hafa verið sameinuð öðrum til að koma í veg fyrir greiðsluþrot. Hér gildir, að sígandi lukka er best.

Á persónulegu nótunum þá var þetta ár ár mikillar gleði en einnig sorgar. Ég missti föður minni í apríl og þó að hann hafi verið orðinn aldraður tekur það á að missa einhvern svo nákominn. Ég ylja mér við minningu um góðan föður sem studdi mig í öllu því sem ég gerði. Sonur minn Kristinn Jökull fermdist á Hvítasunnudag og áttum við fjölskyldan yndislegan dag í rjómablíðu með ættingjum og vinum þar sem þeim stóra áfanga var fagnað. Nokkrum dögum síðar útskrifaðist dóttir mín Thelma úr menntaskóla með miklum ágætum og því var einnig fagnað með vinum og ættingjum. Aftur var tilefni til að fagna fáum vikum síðar þegar Thelma náði þeim árangri að loknum inntökuprófum að fá inngöngu í læknisfræði í Háskóla Íslands sem hafði lengi verið draumur hennar.

Margar ánægjustundir átti ég með fjölskyldu og vinum á árinu. Ég fór í nokkrar fjallgöngur sem ég hafði mikla ánægju af. Ein þeirra stendur þó upp úr en þá fór ég með góðum hópi fólks frá Fróðárheiði og gengum við inn fjallgarðinn. Fórum m.a. upp á Stafnafell og þaðan inneftir upp á Böðvarskúlu þar sem útsýnið er afar tilkomumikið. Gengum þaðan niður í Djúpudali fyrir ofan Bláfeld og enduðum síðan gönguna við Böðvarsholt. Golfið fékk sinn tíma hjá mér bæði innanlands og erlendis. Ég fór á marga fótboltaleiki á árinu og var það afar skemmtilegur tími en tók á á köflum sérstaklega í lok sumars. Í lok ársins gekk ég síðan til rjúpna til að veiða í jólamatinn og þetta árið gengu veiðarnar óvenju vel og naut ég þess að fá að vera úti í náttúrunni í allri sinni dýrð.

Innan bæjarstjórnar var sam­starfið afar gott og til fyrirmyndar og vil ég meina að það sé lykillinn að góðum árangri ásamt því að búa yfir frábæru starfsfólki sem alltaf er tilbúið að veita sem besta þjónustu hvert á sínu sviði.

Snæfellsnes er mikil náttúru­paradís sem fleiri og fleiri vilja heimsækja ár hvert. Við eigum að vera stolt af þessu og setja okkur þau markmið að gera enn betur á nýju ári, þannig að upplifun hvers og eins sem hér kemur sé eftirminnileg og einstök.

Í lokin langar mig að hvetja okkur öll til að muna hvað við höfum það gott Íslendingar. Mig langar að hvetja okkur öll til að velja okkur viðhorf, vera jákvæð og glöð á nýju ári, hafa augun opin fyrir tækifærum og taka virkan þátt í samfélaginu. Förum inn í nýtt ár með jákvæðu hugarfari, bjartsýni og gleði, gerum daginn betri fyrir samferðamenn okkar, þannig getum við látið öðrum líða betur og okkur sjálfum líka.

Ég vil að lokum óska ykkur öllum gleðilegs árs og þakka samstarfið á liðnum árum, megi árið 2017 verða ykkur öllum farsælt.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli.