Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Áramótaannáll bæjarstjóra fyrir árið 2013

Ágætu bæjarbúar
Nú stöndum við enn á tímamótum þegar árið 2013 hefur kvatt okkur. Þegar maður lítur yfir farinn veg er ánægjulegt og gagnlegt að rifja upp hvað gerðist á síðastliðnu ári.
Stórt ár var hjá slökkviliðinu okkar en í janúar var (ný slökkviliðsbifreið) afhent slökkviliðinu formlega og var það mikil gleðistund. Gaman hefur verið að heyra hve ánægðir slökkviliðsmennirnir okkar eru með þennan nýja bíl og hve vel útbúinn hann er. Seinni hluta árs lét Þorbergur af störfum sem slökkviliðsstjóri og vil ég nota tækifærið og þakka honum kærlega fyrir gott samstarf. Við störfum tók Guðmundur Kristinsson.. Var hann valinn samróma af bæjarstjórn en hann hefur starfað hjá slökkviliðinu til langs tíma.
Í desember 2012 var ákveðið eftir tillögu þáverandi slökkviliðsstjóra, Þorbergs Bæringssonar að halda Þrettándabrennu í stað áramótabrennu. Enda sjálfhætt að hafa brennu á sínum gamla stað vegna staðsetningar nýrrar bensínstöðvar. Var fyrsta þrettándabrennan haldin í janúar og mæltist sú breyting vel fyrir og brennan tókst vel. Bæjarbúar áttu góða stund saman og var því ákveðið að gera ekki breytingar á því seinni hluta ársins 2013. Átti þrettándabrennan að vera mánudaginn 6. janúar síðastliðinn en vegna slæms veðurs og færðar var ákveðið að fresta henni til dagsins í dag og hefst hún kl. 18 við tjaldsvæðið.
Um miðjan janúar tókum við þátt í heilsu- og forvarnarviku en var það verkefni hugarfóstur Steinunnar Helgadóttur og Aþenu E. Kolbeinsdóttur. Skemmtilegt var að sjá metnaðinn og samheldni allra þeirra sem tóku þátt í heilsuvikunni og vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem lögðu sitt á vogarskálarnar svo vikan tækist vel á allan hátt. Það er frábært þegar bæjarbúar sýna slíkt frumkvæði og áræðni sem þær stöllur sýndu. Vonandi verður heilsuvika að reglulegum viðburði hjá okkur eins og til dæmis Norðurljósahátíðin.
Júlíana, hátíð sögu og bóka, var haldin í febrúar með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Eiga þær stöllur Gréta Sigurðardóttir, Sigríður Erla Guðmundsdóttir, Dagbjört Höskuldsdóttir og Þórunn Sigurþórsdóttir miklar þakkir skildar fyrir þeirra frumkvæði að verkefninu og gaman að geta þess að þær ætla að halda áfram með þetta skemmtilega verkefni. Var Ingveldur Sigurðardóttir (Stella) heiðruð við setningu hátíðarinnar fyrir sitt menningarframlag í áratugi.
Ferðaþjónustan hélt áfram að eflast eins og verið hefur ár frá ári. Nýr gististaður, Harbour Hostel hóf starfsemi í Sjávarborg á Hafnargötu.
Bláfánanum var flaggað í 11. sinn við Stykkishólmshöfn en hann er vitnisburður um verndun umhverfisins, góða aðstöðu við Stykkishólmshöfn og að öryggi gesta hafnarinnar sé tryggt.
Útgerðin á alltaf sinn stóra sess í okkar atvinnulífi. Þar eru starfandi tvö stærstu fyrirtækin Þórsnes ehf. og Agustson ehf sem fagnaði 80 ára starfsafmæli sínu á árinu. Óska ég þeim innilega til hamingju með afmælið. Í tengslum við afmælishátíð fyrirtækisins opnaði Ingibjörg Ágústsdóttir sýningarrými og vinnustofu í kjallara Tang og Riis þar sem áður hafði verið rekin verslun.
Síldveiðar og vinnsla eru orðin stór þáttur í atvinnulífinu á haustmánuðum. Er nauðsynlegt fyrir okkur að leggjast sameiginlega á árar og sjá til þess að á meðan síld er í Breiðafirði verði síldveiðikvóti til handa smábátum á svæðinu aukinn ár frá ári.
Á árinu 2013 var hönnun grunnskólalóðarinnar lokið og fyrstu framkvæmdir hófust í ágúst og september. Ákveðið var að hefja vinnu innst á lóðinni og hafa í forgangi að setja upp leiktæki sem voru sett upp í haust. Voru grunnskólanemendur afskaplega ánægðir með nýju leiktækin og var töluvert öngþveiti fyrstu dagana eftir því sem Gunnar skólastjóri sagði mér. Gert er ráð fyrir áframhaldandi framkvæmdum við grunnskólalóðina á árinu 2014.

Í sumar hófst vinna við stígagerð, lagfæringar á stígum og áningarstöðum í Súgandisey, auk þess sem grjóthleðsla var lögð í kringum vitann. Tókst sú framkvæmd mjög vel en hún var unnin í samstarfi Stykkishólmsbæjar, BB og sona og fleiri aðila.
Í undirbúningi hefur verið framkvæmd fyrsta áfanga göngustígs frá Stykkishólmskirkjugarði í átt að Hamraendum og vonandi verður hægt að fara af stað í það verkefni fyrri hluta árs 2014.
Hafnar voru fyrstu framkvæmdir á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi vegna fyrirhugaðrar sameiningar starfsemi sjúkrahússins og dvalarheimilisins á Austurgötu 7 en eins og bæjarbúar vita hefur verið unnið að leiðum til að tryggja starfsemi sjúkrahúss, háls og bakdeildar og öldrunarþjónustu almennt í Stykkishólmi. Því miður er verkefnið strand, allavega í bili, þar sem ekki var sett fjármagn í fjárlög 2014 til áframhaldandi breytinga en á fjáraukalögum 2013 var fjármagni veitt til að ljúka breytingum á eldhúsrými á fyrstu hæðinni. Er útlit var fyrir í haust að verkefnið gæti stöðvast tilnefndi bæjarstjórn þriggja manna vinnuhóp sem skipaður er þeim Sturlu Böðvarssyni (form.),Önnu S. Baldursdóttur og Lárusi Á. Hannessyni. Hlutverk vinnuhópsins var að fylgja eftir áformum um uppbyggingu háls- og bakdeildar og standa vörð um að framkvæmdum í húsnæði HVE í Stykkishólmi yrði haldið áfram eða finna aðrar fullnægjandi lausnir til að hægt væri að sameina starfsemi dvalarheimilisins í Stykkishólmi og sjúkrahússins í Stykkishólmi í einu húsnæði. Þrátt fyrir góða vinnu nefndarmanna er staðan ekki ákjósanleg fyrir okkur Hólmara og hefur því verið óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að kanna hug ráðherra um áframhald verkefnisins.
Stykkishólmsbær og Grundarfjarðarbær hófu samstarf um starfsemi Skipulags- og byggingarfulltrúa á sumarmánuðum.
Danskir dagar voru haldnir með hefðbundnu sniði í ágúst en sú nýbreytni var að körfuknattleiksdeild Snæfells stjórnaði dagskrá og skipulagningu með Þóru Margréti Birgisdóttur og Inga Þór Steinþórsson í fararbroddi. Var dagskráin vönduð og metnaðarfull og voru bæði heimamenn og gestir ánægðir með hátíðina.
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013 voru tekjuáætlanir varfærnar en þegar líða tók að sumri var tekjuþróunin ekki hagstæð fyrir sveitarfélagið. Við endurskoðun fjárhagsáætlunar í haust var því ákveðið að lækka tekjuáætlun enn frekar og er útlit fyrir að við náum að halda þeirri áætlun. Vonandi náum við að halda okkur við 150% skuldaviðmið sveitarfélaga og þarf á næstu árum að gæta þess að halda skuldaprósentunni undir 150% viðmiðunum.
Nú næsta vor verða sveitastjórnarkosningar haldnar og kjörtímabilið sem ég var ráðin til að starfa sem bæjarstjóri er að líða undir lok. Hefur mér þótt afskaplega gaman að kynnast starfinu, nýjum vinnufélögum og takast á við þau verkefni sem snúa að vettvangi sveitarfélagsins. Mín sýn á samfélagið eftir þessa reynslu er talsvert breytt.
Eftir miklar vangaveltur hef ég tekið þá ákvörðun í samráði við fjölskyldu mína að gefa ekki kost á mér sem bæjarstjóraefni fyrir næsta kjörtímabil. Ég hef ákveðið að snúa mér að nýjum og spennandi verkefnum sem vonandi eiga eftir að nýtast samfélaginu vel. Vil ég þakka öllum þeim sem ég hef starfað með og átt samskipti við á kjörtímabilinu. Ég vil hvetja alla þá sem hafa áhuga á málefnum sveitarfélagsins að vera jákvæða fyrir því að taka þátt í nefndarstörfum og setu í bæjarstjórn ef til þeirra er leitað fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Í sveitarfélagi eins og okkar er oft erfitt að fá fólk til þessara starfa, en því fleiri sem eru tilbúnir því léttari er róðurinn fyrir okkur bæjarbúa að sinna þeim verkefnum sem okkur eru ætluð. Við skulum ekki gleyma því að við kusum bæjarfulltrúana sem okkar fulltrúa í bæjarstjórn hvort sem þeir eru í meirihluta eða minnihluta hverju sinni og veit ég af minni reynslu að þeir leggja mikla vinnu á sig til að sinna sínu hlutverki.
Að lokum vil ég þakka íbúum fyrir jákvæði og góð samskipti á síðasta ári. Starfsfólki Stykkishólmsbæjar þakka ég gott samstarf.
Við skulum ávallt hafa það í huga að samfélagið okkar endurspeglar íbúana og samskipti þeirra. Við byggjum okkar samfélag og ef við erum ekki sátt við samfélagið eins og það er er mikilvægt að skoða hvað við getum gert til að bæta það.
Gyða Steinsdóttir,
bæjarstjóri