Ásbyrgi fagnaði 5 ára starfsafmæli 27. ágúst

Tíminn líður hratt svo það er um að gera að njóta hans vel og hugleiða í hvað maður ver sínum tíma.

Það var þann 27. ágúst árið 2012 sem Ásbyrgi tók til starfa og þá voru starfsmennirnir fjórir en sá fimmti bættist fljótlega við. Markmiðin voru strax skýr, þ.e.a.s. að allir fái vinnu á almennum vinnumarkaði með eða án stuðnings allt eftir þörfum hvers og eins. Síðan höfum við endurnýtingu í hávegum og þannig búum við til peninga úr því sem aðrir eru hættir að nota. Sá peningur fer í sameiginlegan sjóð sem við notum svo til að auka lífsgæði þeirra sem hér starfa. T.d. höfum við verið öflug í að sækja námskeið á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Veitingahúsaferðir auka líka gleði starfsmanna, auk þessa höfum við farið í ýmsar ferðir t.d. heimsótt Ölduna í Borgarnesi og eins höfum við átt gott samstarf við starfsfólk Smiðjunnar í Ólafsvik.

Í dag starfa 15 starfsmenn í Ásbyrgi í mismiklu starfshlutfalli.
Markmiðin eru óbreytt og við höfum svo sannarlega stimplað okkur inn í samfélagið hér í bæ. Við höfum verið heppin með verkefni og gerum okkar besta í að láta gott af okkur leiða í ýmsum skilningi. Við höfum mikinn metnað fyrir því að flokka sorp og gerum okkar allra besta í því. Við leggjum áherslu á að minnka plastnotkun og höfum til sölu allar stærðir og gerðir af margnota pokum. Innkaupapoka, grænmetispoka, sængurfatapoka, dósa- og flöskupoka, dúnpoka og allt mögulegt annað.

Okkur er mjög annt um umhverfið og viljum því leita leiða til að minnka plastnotkun.
Við þökkum öllum sem hafa stutt okkar starf með ráðum og dáð og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Með kveðju og þökk,
Hanna Jónsdóttir
starfsmaður í Ásbyrgi