Áskorandahorn 03.11.16

Jón Torfi með bálið í baksýn. Mynd: Facebook síða Jóns Torfa
Jón Torfi með bálið í baksýn. Mynd: Facebook síða Jóns Torfa

Stykkishólmur er fallegur bær og Hólmarar eru fallegir, gestrisnir og góðhjartaðir. Við hér í Hólminum tökum vel á móti öllum þeim fjölda fólks sem kemur að heimsækja okkur árið um kring svo að sómi er að.
Við bjóðum ferðafólki að borða á veitingahúsunum okkar og bjóðum þeim að gista í húsunum okkar; öllum er frjálst að baða sig í sundlauginni okkar eða skoða sig um á söfnunum okkar; þau mega skoða sig um í búðunum okkar og nota klósettin okkar ef svo ber undir. Hér er allt til alls.
Við bjóðum raunar öllum að gera hvað svo sem þau lystir enda er það hverjum í sjálfsvald sett innan þess ramma sem almennt séð gildir um sýsl og vafstur fólks í hvaða bæjarfélagi sem er.

En hvað er ég að þusa?

Á völdum stöðum hér í bæjarlandinu höfum við sett upp skilti sem banna fólki að hafa hægðir. Ekkert er sérstaklega tiltekið hvaða fólk um ræðir, líklega bara allt fólk. Vel kann að vera að eftir uppsetningu skiltanna góðu hafi hægingar fólks í bæjarmóunum snarminnkað og vandamálið sem slíkt sé úr sögunni. En hvað með bersvæði önnur í grennd? Hvað með víðavangshægingar í Helgafellssveit, hafa þær aukist? Erfitt að segja.

Smekklaust hjal hjá Jóni Torfa segja eflaust margir, já ef til vill. En ég verð á móti að segja það sama um þessi blessuðu skilti. Mér finnast þau smekklaus.

Ég held að við ættum frekar að einbeita okkur að því saman að kynna fyrir fólki hvað er leyfilegt að gera í bænum okkar. Sá sem hisjar upp um sig brækurnar í skyndingu eftir að hafa rekið augun í skiltið góða við Ögursafleggjarann ætti að hafa fengið upplýsingar um hvar hann gæti hægt sér innanbæjar og í sátt við samfélagið.

Setjum upp allskonar skilti! Hvar má dorga á bryggjunum? Hvar er hægt að fara í göngutúr? Hvar má sitja á bekk og hvar má slæpast, hvar má liggja í leti? Hvar má hafa læti og hvar má girða sig í brók?
Hvar má hægja sér?

Að lokum skora ég á stjórnmálafræðinemann og leikskáldið, leikstjórann og tónlistarmanninn og hinn nýbakaða faðir, Bjarka Hjörleifsson að birta í næsta pistli umritun sína og endursögn á kommúnistaávarpinu.

 

Með vinsemd og virðingu,

Jón Torfi Arason