Áskorandahorn 16.03.17

Ungmennafélagsandinn

Siggi Palli

Þakka þér fyrir pennan Símon, það er langt síðan ég hef skrifað í Stykkishólmspóstinn. Þátturinn í sjónvarpinu á dögunum um Halla sigurvegara hitti mig í hjartastað. Þar var á ferðinni maður sem í orðsins fyllstu merkingu lítur á aðstöðu sína í lífinu sem tækifæri frekar en ánauð. Hann er greinilega gæddur þeim hæfileikum að gera gott úr aðstæðum sem lífið færir honum. Halli virðist bera kærleikann í brjósti sínu af guðs náð, hann umber, elskar og gleður umhverfi sitt. Þegar þátturinn byrjaði leist mér ekkert á blikuna þegar talin var upp aðstaða þessa manns í uppeldinu og það úrræðaleysi sem var í gangi á þessu tímum við þessar aðstæður, en svo kemur út úr þessum erfiðleikum brosandi einstaklingur sem getur kennt manni svo margt, jákvætt. Reiðin er munaður sem við alkahólistar ættum að láta aðra um, þetta stendur á einum stað í AA bókinni, því reiðin getur komið okkur á þann stað að við förum aftur í neyslu. En samt sem áður er reiðin nauðsynleg, en ekki er gott ef hún tekur sé bólfestu í manni og allra síst hjá okkur ölkunum, eins og að ofan greinir.

Síðan í efnahagshruninu 2008 hefur reiðin haft stórt hlutverk í okkar þjóðfélagi, skiljanlega þetta var reiðarslag sem á okkur dundi. Oft hefur manni fundist að alið sé á óánægju og þá reiði til þess að ná einhverju fram, ekki síst í pólitíkinni en þeirri tík fékk ég tækifæri til að kynnast betur eftir alþingiskosningarnar vorið 2013. Þeirri reynslu er ég ákaflega þakklátur fyrir, þó ekki hafi það endilega verið á áætlun þess tíma, en svoleiðis hefur mitt líf oft á tíðum verið. Eitt er þó sem alltaf hefur verið áætlun um hjá undirrituðum, en það er að gera gagn, samfélagslega, fjölskyldulega og á allan hátt í merkingu þess orðs. Auðvitað hefur það gengið misjafnlega en þó alltaf verið markmiðið. Mér hefur fundist nú á síðustu tímum, að þessi hugsun hafi farið þverrandi í okkar þjóðfélagi og sú hugsun, hvað get ég gert fyrir þjóðfélagið, vikið fyrir hugsuninni, hvað getur þjóðfélagið gert fyrir mig, komið meira í staðinn. Svo er það gamli góði ungmannafélagsandinn, hann sá maður í verki þegar hestamenn stóðu saman og reistu reiðskemmuna í vetur, virkilega gaman að fylgjast með því og sýnir manni hvað hægt er að gera ef fólk stendur saman. Nú er vorið handan við hornið, ritan komin í bjargið og gott ef ég sá ekki svartbakinn draga rauðmaga á Nónskerið í gær, sól hækkar á lofti og í sinni. Mig langar að enda þennan pistil á vísum sem urðu til þegar Lionskonum vantaði í bundnu máli eitthvað fyrir kjötsúpukvöld um daginn.

 

Kjötsúpan okkar svo kjarngóð og holl

kærkominn ramm íslensk fæða

ef bjartsýnin dvínar með bölmóð og hroll

er kjötsúpan best til að glæða.

 

Með sólskin í sinni er vegurinn fær

og sjálfum sér er jú hver næstur

eigir þú kjötsúpu frá því í gær

er hollustu stuðullinn hæstur.

 

Bestu kveðjur, Siggi Palli

Mig langar að biðja frænda minn Unnstein Loga Eggertsson að skrifa næsta pistil.