Bjarki, með þumalinn á neðri vör.

Áskorandahorn 17.11.16

Bjarki, með þumalinn á neðri vör.
Bjarki, með þumalinn á neðri vör.

Ég fletti yfir vefsíður allra helstu vefmiðla landsins í þeirri von að það veitti mér einhvern innblástur til þess að skrifa þennan pistil, þetta áskorendahorn. Sennilega væri réttast að ég segði frá nýfæddri dóttur minni, háskólanáminu, kosningarbaráttunni sem að ég tók nýverið þátt í eða jafnvel fyrirtækjarekstrinum, það væri þægilegast þið vitið, þægilegasta lesningin.

Ég tók því ekkert sérstaklega vel þegar Jón vinur minn ákvað að senda mér pennann, ég vissi strax að ég myndi ekki skila honum á réttum tíma, það er nú einu sinni þannig að ég þyrfti að skrifa eitthvað svo stórfenglegt að enginn myndi voga sér að skora mig á hólm, þetta áskorandahorn yrði að vera með öllu óaðfinnanlegt og myndi sem slíkt reka endann í þessa óþolandi samfélagsskyldu.

Ég hugsaði með mér að megin innleggið þessa vikuna gæti verið 10 ástæður fyrir því afhverju það ætti að leggja áskorendahornið alfarið niður… Nr.1 Þetta er öllum sem nokkurntímann hafa þurft að skrifa það til ama… Nr.2 Fokk! Þarna fann ég ekki fleiri ástæður, í það minnsta engar sem fást birtar í þessu blaðsnippi. Raunin er sú að eru það mínir eigin draugar sem ég er að slást við, áskorendahornið hefur ekkert með þá að gera, það bara dregur þá fram í dagsljósið.

Það fór margt í gegnum kollinn á mér þar sem ég skrollaði í gegnum veraldarvefinn. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég gæti ekki með góðu móti sagt allt sem segja þarf um Trump og að hvaðeina um ríkisstjórnarmyndanir á Íslandi væri einfaldlega of mikill harmleikur fyrir mig að minnast á, það glytti þó í hégómagirnina, ef ég skrifaði um alþjóðamálin eða ríkisstjórnarmyndanir gæti ég verið málefnalegur, sýnt fram á afburða þekkingu á stjórnmálum, sýnt samferðafólki mínu hér í Stykkishólmi hve mikið væri í mig varið. Hugurinn reikaði, stjórnmálin með öllum sínum þokka og óþokkum kveiktu í mér bál, í bræði minni vildi ég skrifa um bæjarmálin, skrifa um bókasafnið og loksins opinbera skoðanir minar á þeim skrípaleik! Ég hugsaði lengi um það, fór í 20 mín. sturtu og sat í sturtubotninum. Þegar vatnið sauð og gufan og sjampólyktin var um það bil að gera út af við mig hugsaði ég mönnum þegjandi þörfina, nú væri tíminn kominn, nú tæki ég af skarið, gerðist samfélagskrítíker og segði frá því hvernig þetta er allt í raun og veru! Að hér, í litla danska bænum við eyjarnar væri ekkert danskt nema snobbið og aðeins þeir útvöldu mættu hafa skoðun, við hin ættum ekki að tala bæinn okkar niður, vera stolt, það væri hollt. Raunin í þeim efnum er hinsvegar sú að þeir sem þyrftu að heyra það myndu láta kommúnistakjaftæðið sem vind um eyru þjóta og halda áfram að elska bæinn sinn af ódauðlegri föðurlandsást, fyllast stolti yfir Snæfelli og lúðrasveitinni.

Hinsvegar er alltof auðvelt að skrifa bara röklausa reiðipistla, ég velti því fyrir mér hvaða óöryggi þetta er hjá mér, afhverju verð ég að skrifa hinn fullkomna pistil? Er það áhyggjanna virði að veltast uppúr því hvernig mennirnir í hinu háa musteri viskunar komi til með að taka skrifum mínum? Að ég verði kjöldreginn af dómnefndinni næst þegar ég tek bensín og laumast til þess að kaupa mér twix! Að gerð verði atlaga að mér í Heimahorninu? Eða að ég verði umræðuefnið í kaffitímanum á leikskólanum, því það er oft þannig með skoðanir sem ganga þvert á orðræðuna að þeim er kastað á bálið og mönnunum með.

Ég gekk jafnvel svo langt að velta því fyrir mér hvort ég gæti með skrifum mínum forgert rétti mínum til þess að vera tekinn alvarlega í framtíðinni, það vill nefnilega oft vera þannig að andstæðar skoðanir fá aldrei að mætast, í það minnsta ekki á jafnréttisgrundvelli. Við höfum mörg tilhneigingu til þess að skora aldrei á eigin skoðanir, skera þær ekki í sundur og sjá úr hverju þær eru, við leitumst frekar við að styrkja sannfæringu okkar með því að tala við þá sem eru okkur sammála.

Mín reynsla af „skoðanaskiptum“ hefur yfirleitt verið þannig að einn einstaklingur, sá sem þekkir hinn eina sannleika reynir eftir bestu getu að þvinga hann sem lengst ofan í kokið á öðrum einstakling sem þekkir annan sannleika. Sannleikurinn litast oftar en ekki af tilfinningum okkar, af tengslum við viðfangsefnið eða af reynsluheimi sem hefur kennt okkur að eitt sé gott en annað slæmt, þetta litast jafnframt af því sem að kjósum að trúa, eða trúum… jafnvel skilyrðislaust. Í því samhengi: Stór hluti okkar heldur með skoðunum, stjórnmálaflokkum og öðrum eins og það heldur með fótboltaliði!

Þetta leiðir af sér að margir vilja ekki hafa skoðun, í það minnsta ekki hafa hátt um hana. Ég, sem er frekar er opinn útávið, í það minnsta í málefnum sem snerta ekki innstu kima sálarinnar, á, eins og ég hef líst hér að ofan oftar en ekki erfitt með að hafa skoðun vegna hræðslu við álit annara, og draugasagan af því hvernig hefur farið fyrir þeim sem voguðu sér verður mér áminning um að nú skuli ég halda kjafti, en þar liggur vandamálið. Valdefling þeirra sem treysta á þessar lægstu hvatir sjálfum sér til framdráttar liggur einmitt þarna. Ef ég er hræddur, ef ég sit á skoðunum mínum þá gef ég þeim mitt þögla samþykki.

Ég hef sjaldan orðið var við að fólk leitist eftir því að bera virðingu fyrir skoðunum mínum eða annara, listin er að munnhöggvast, listin er ekki ræðulist eða rökræða, fyrir því eru eflaust margar ástæður sem ekki tekur að fara yfir hér.

Þrátt fyrir að þessi skrif beri að einhverju leyti yfirbragð dólgsháttar þá er það af þeirri einskæðu ástæðu að ég lagði upp með það. Ég er einlægur stuðningsmaður Snæfells og lúðrasveitarinnar, ég hef miklar mætur á bænum mínum og fagna honum þegar það á við. Ég er ennfremur stuðningsmaður þess að fólk virði skoðanir annara, að fólk hafi skoðun, að við á allan hátt mótum samfélagið að því.

Þar með líkur því sem átti hefði getað orðið reiðipistill en varð eitthvað annað, ég reynslunni ríkari eftir tilfinningaþrungna nokkra daga fyrir framan tölvuna, búinn að læra aðeins meira á sjálfan mig og búinn að læra að Stykkishólmpósturinn er #langbestastablaðiðíöllumheiminum #Sthpónr.1 #málgagnfrjálsamannsins. Ég lík þessu á því að skora á Hjördísi Eyþórsdóttur stór-vinkonu mína sem hefur verið Hólmari í eitt og hálf ár og ann því að ég best veit miklu betur en að vera úr Skerjafirðinum.

 

Bjarki Hjörleifsson