Áskorandahorn – 18.05.17

Mæsa, rosa hress

Takk fyrir áskorunina systir!

Það hefur kannski ekki farið fram hjá Hólmurum að við Theó erum búnar að standa í ströngu að koma á laggirnar ferðaþjónustufyrirtæki sem heitir Stykkishólmur Slowly, það var reyndar ekki ætlunin en ég stóð undir nafni þess og svaraði viku of seint… Okkur langar til þess að fá ferðamenn sem hingað koma til þess að staldra við og njóta þess sem bærinn okkar hefur upp á að bjóða til fulls. Tengjast fólki, mat, náttúru og menningu í stað þess að bruna í gegn.

Hugmyndir okkar að þessari tegund ferðamennsku falla vel að “slow travel” hugmyndafræðinni. Við áttum svolítið erfitt með að láta fyrirtækið okkar heita nafni á “útlensku” en hins vegar þótti okkur nafnið ná vel utan um það sem við bjóðum upp á auk þess sem þjónustan sem við ætlum að veita er að mestu ætluð erlendum ferðamönnum.

Slow er notað í þessu samhengi í sambandi við allt mögulegt, slow food, slow fashion o.s.fr.v. en hefur ekki verið íslenskað samkvæmt stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Frændi okkar lagði til orðið “sniglun” og að ferðast á þennan hátt “að sniglast”. Við heitum þess vegna “Stykkishólms sniglun” á því ástkæra ylhýra.

Við Theó erum frænkur en ömmur okkar, Dóta og Trínsa, voru systur og nokkuð sérstakir persónuleikar. Miklir umhverfissinnar, vinstrisinnaðar og fannst ekkert betra en að fara í útilegu með gott nesti. Þær tjölduðu aldrei á tjaldstæðum og amma mín sagði mér einu sinni að þegar hún yrði farin myndi hún svífa yfir í leit að góðu tjaldstæði. Hugmyndin okkar að þessari ferðamennsku er innblásin af þessum skemmtilegu og gáfuðu systrum, ömmum okkar.

Samstarfið hefur hingað til gengið ótrúlega vel hjá okkur Theó. Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum sem fylgst með okkur að við höfum náð saman varðandi litaval og svo erum við báðar mjög mikið fyrir vesen…

Mömmur okkar hittust einu sinni á Bæjarins bestu með okkur Theó og mamma segir “það er svo mikið vesen á henni Mæsu hún vill bara pulsubrauðið”. Þá segir mamma hennar Theóar “það er einmitt svo mikið vesen á henni Theó hún vill bara pulsuna”. Þetta samstarf okkar hefur líklega verið skrifað í skýin…

Mig langar til þess að skora á Söru á Sjávarpakkhúsinu sem er óþreytandi í því að ráðleggja okkur sniglunarsystrum og aðstoða okkur.

Kv. Mæsa