Áskorandahorn 19.01.17

11870724_10207673778349255_4633089591974448927_nHólmurinn er mín jarðtenging

Nokkuð er um liðið síðan ég fluttist endanlega frá Stykkishómi, en þar átti ég síðast vetursetu 1996. Tengslin við bæinn eru samt enn sterk, mest í gegnum ættingja og vini. Þó ég sé aðfluttur andskoti í augum einhverra verð ég samt alltaf í hjarta mínu Hólmari.

Uppvaxtarárin í Stykkishómi mótuðu þennan renglulega strákling úr Reykjavík, sem kom sæmilega óspilltur úr vesturbæ Reykjavíkur 10 ára gamall. Unglingamenningin í Stykkishólmi á níunda áratugnum var kannski ekki í fullu samræmi við fjölda kirkjusafnaða. Samt var þó flest sem við jafnaldrarnir fundum okkur til dundurs bæði uppbyggilegt og gefandi. Af nógu er að taka. Íþróttaiðkun hefur blessunarlega verið stór hluti í uppvexti flestra Hólmara og þar var ég engin undantekning, þó viljinn hafi oftast verið meiri en getan. Þá átti ég betri spretti í lúðrasveitinni og leikfélaginu. Hvort tveggja stóð í miklum blóma þessum tíma og naut ég þess ásamt fleirum. Bæði tónlistar- og leiklistarbakteríurnar fylgdu mér síðan fram á fullorðinsár og tónlistin er enn stór partur af mínu lífi.

Umfram annað í grunngerð bæjarins var það þó skólinn sem hafði mest og best áhrif í mínu tilfelli. Margt á ég þakka metnaðarfullu skólastarfi þess tíma, undir styrkri stjórn Lúðvígs Halldórssonar. Aldrei verður neinn fullnuma og allir þurfa á einhvers konar skólun að halda við og við. Jákvæð hvatning í upphafi skólagöngu mótar allt viðhorf til náms og getur því haft varanleg uppbyggilega áhrif. Ég held alla vega að góður skóli í Stykkishólmi hafi átt stórann þátt í að ég gerðist sjálfur skólamaður (þó það sé meira í hjáverkum núorðið). Svo ánægður var ég með Grunnskólann í Stykkishólmi að ég gat ekki slitið mig frá honum eftir níunda bekkinn og tók eitt viðbótarár í framhaldsdeildinni. Kannski hafði það einhver áhrif að tilvonandi eiginkona mín, hún Anna Baldurs, var þar fyrir? Ekki gott að segja.

Eitt er þó ótalið, sem mikilvægt innlegg frá Stykkishólmi í reynslubankann, sem er atvinnulífið. Í Hólminum gafst færi á alls konar starfsreynslu frá fermingaraldri, sjálfur vann ég í fiskvinnslu, í verslun, á sýsluskrifstofunni og í bankanum. Ekki má heldur gleyma bæjarvinnunni. Þessi tækifæri til að stunda alvöru vinnu frá tiltölulega ungum aldri hefur haft sín áhrif og oft hugsa ég til þessa tíma þegar fræðilegri viðfangsefni í tengslum atvinnulífið lenda á mínu borði. Segja má að atvinnulífið í Stykkishólmi, ásamt skólanum og hinu ríka félagslífi hafi verið mér nokkurs konar jarðtenging – breikkað sjóndeildarhringinn og skilgreint kjarnann í okkar góða samfélagi.

Ég vil þakka henni Ingibjörgu, ömmu minni, fyrir að skora á mig hér í áskorendahorninu. Það er skemmtilegt að láta hugan reika aftur til æskunnar í Hólminum en nú er nóg komið af slíku. Til að bæta fyrir þetta fortíðarblæti skora ég á svila minn Ragnar Má Ragnarsson að taka við pennanum og hvet hann um að skrifa eitthvað um núið og framtíðina í Stykkishólmi.

Jón Þór Sturluson