Áskorandahorn – 19.04.17

Já, takk Árni fyrir áskorunina. En hvað á ég að segja? Ég er ekki gamall Hólmari og ekki hef ég verið búsettur lengi í Stykkishólmi til að geta rifjað upp gamlar og hnyttnar sögur. Þið vitið eflaust ekki einu sinni hver Guðmundur B. Sigurbjörnsson er. En jæja, látum á þetta reyna. Mín fyrstu kynni af Stykkishólmi voru fyrir rúmum 5 árum síðan er við gistum hér eina helgi. Ég man eftir að mér fannst bærinn nokkuð fallegur. En ég átti erfitt með mig á laugardeginum er ég kom að lokuðum dyrum í áfengisversluninni. Þá langaði mig heim, en þraukaði helgina. Síðan kom það til síðar að við hjónin ákváðum að flytja úr borginni. Allt í einu var ég að keyra búslóðina vestur í Stykkishólm. Við erum mjög ánægð með þá ákvörðun í dag. Konan mín fékk vinnu sem tannlæknir og ég rúlla einbeittur og glaður yfir til Grundarfjarðar þar sem ég starfa í grunnskólanum.

Hálfu ári eftir flutninga fjárfestum við í húsi við Skólastíg. Ég var reyndar ekki viss um að ég vildi flytja í það hús. Það var ekki húsið sjálft, heldur rauði hjallurinn á móti húsinu! „Á ég að þurfa að horfa á þetta í hvert sinn sem ég borða matinn minn?“ spurði ég Ingunni. En það dugði ekki til, hún ræður víst og við keyptum húsið. Til allrar hamingju björguðu Gunnar og Sólveig hamingju minni. Þau vinna hörðum höndum við að fegra útsýni mitt. Takk! Við höfum nú reyndar líka þurft að taka til hendinni í húsinu okkar. Síðastliðið sumar stóð til að drena eina hlið hússins. Það endaði í drenlögn umhverfis allt húsið að viðbættri endurnýjun skólps. Ég átti líklega fleiri stundir með Lysbro skóflunni heldur en eiginkonu minni þetta sumar.

Við höfum kynnst frábæru fólki hér í Stykkishólmi og eignast góða vini. Saumaklúbbar og karlaklúbbar af bestu gerð. Helst ber að nefna Ginna og Tonna sem Árni Ásgeirs kynnti fyrir mér. Skemmtilegir félagar. Þá er gott að hitta góða menn á fimmtudagskvöldum í spjall og hálfum. Það næsta sem ég vil prófa betur er golfvöllurinn hérna, kannski að gerast bara meðlimur. Ég á reyndar ekki golfsett þannig að ef einhver á auka golfsett til að lána mér þá endilega hafið samband. Ég held að ég láti þetta bara duga. Þið vitið þá hvernig fjölskylda sem hingað flytur upplifir sig eftir nokkurra ára dvöl. Í lokin skora ég á Siggu Lóu vinkonu mína og segi takk, verið bless, way out west.

Guðmundur Björgvin Sigurbjörnsson