Áskorandahorn 20.10.16

Nökkvi í sparifötum
Nökkvi í sparifötum

Takk kæri Jón Viðar að senda pennann yfir á mig. Það er greinilegt að penninn ætlar að halda sig á Hótel Egilsen, spurning hvort ég brjóti hefðina og skori á einhvern fyrir utan hótelið. Það kemur í ljós og færð þú kæri lesandi að vita hvern ég skora á í lok pistilsins. Þar að segja ef þú nennir að lesa hann.

Fyrir þá sem ekki þekkja mig heiti ég Nökkvi Freyr og er sonur Smára og Þórheiðar. Pabbi minn er togarasjómaður, fyrrverandi rokkstjarna og fyrrverandi knattspyrnuhetja. Pabbi lék á gullaldarskeiði Snæfells þegar leikirnir voru spilaðir á mölinni og hefur ekki sést betri hægri bakvörður síðan hann lagði skónna á hilluna. Ég man alltaf eftir að hafa spurt pabba þegar ég var polli af hverju hann væri með bumbu, svarið var einfalt, hefði hann ekki lagt skónna á hilluna væri hann jafn flottur og David Seaman. Ég trúi ennþá á að pabbi geti verið jafn flottur og David Seaman og skora ég á pabba að setja hárið í teygju og safna mottu.

Þórheiður móðir mín göngugarpur með meiru, stuðningsfulltrúi í grunnskólanum og í 150% starfi heima til. Já, ég ætla að viðurkenna það hér og nú, mamma skiptir ennþá á rúmminu mínu og þrífur fötin mín. Úff, það er gott að opna sig.

Nóg um þau – ég geng í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og er markmiðið að vera ekki jafn lengi og Björn Ásgeir frændi.
Fjölbrautaskóli Snæfellinga var algjör himnasending fyrir okkur hér á Snæfellsnesi. Það eru algjör forrétindi fyrir unglinga að geta verið heima hjá foreldrum sínum í þrjú og sumir fimm ár í viðbót. Í stað þess að þurfa flytja til Reykjavíkur og mennta sig þar.

Skólinn hefur sameinað Nesið mikið og er einn besti vinur minn frá Grundarfirði, eins fáránlegt og það hljómar.

Já, Hólmarar, Grundfirðingar og Ólsarar eru orðnir vinir í dag og eru ekki að slást á skólaböllum en rígurinn er alltaf einhver. Að sjálfsögðu minnir maður Grundfirðingana á að það sé alltaf sól í Stykkishólmi, ekki þetta helvítis rok sem einkennir Grundarfjörð.

Ég myndi lýsa skólanum eins og fjölskyldu, það þekkjast allir, það eru allir nánir og hef ég ekki orðið var við neitt einelti á minni skólagöngu. Maður þekkir kennarana vel og líta þeir ekki á mann sem einhverja kennitölu sem fær einkunn. Ég get ekki talað illa um Fjölbrautaskóla Snæfellinga þar sem mín reynsla í skólanum hefur bara verið góð og ætla ég mér að kveðja skólann um jólin.

Úps ég er kominn í 400 orð, Gísli Sveinn sagði að ég mætti skrifa 3 – 500 orða þannig ég ætla bara að hætta núna.

Ég ætla að skora á einn frægasta bloggara Stykkishólms. Þessi aðili hélt upp geisivinsælu bloggi þegar hann var 18 ára gamall. Hann talaði á meðal annars um ástina, pólitík, hljómsveitina sína og bílinn sinn. Ég er að sjálfsögðu að tala um stýrimanninn og Idol-stjörnuna Mattías Arnar Þorgrímsson. – Yfir til þín Matti.

 

Nökkvi Freyr Smárason