Áskorandahorn 24.11.16

Hjördís Eyþórsdóttir
Hjördís Eyþórsdóttir

Geimveruheilkennið. Kannist þið við þá tilfinningu? Þessa sjálfhverfu egósentrísku tilfinningu sem birtist í sjálfsvorkun, sjálfshatri oft á tíðum og eilífðri tilvistakreppu. Finnast ég vera svo öðruvísi og út undan að ég fer annaðhvort í hlutverk að reyna að vera ýkt öðruvísi og meira utangarð. Eða þykjast vera venjuleg og hluti af heildinni. Djúp löngun til að passa inn í en samt líka ekki.

Ég þekki hana allavega afar vel.

Sérstaklega í nýja lífinu mínu – eftir að ég tók dótið mitt, tróð því í plastpoka og flutti úr Reykjavík í Stykkishólm. Ný orðin edrú. Nýtt samfélag og ég glæný líka.

Frá því að pabbi notaði ljóskrónuna fyrir ofan stofuborðið heima og eldspýtuhaus til að úskýra fyrir mér alheiminn, geiminn, jörðina, tunglið og stjörnunar, þar til að ég krassaði ofan í drullupoll sorglega alkóhólismans eftir milljónasta sjálfsvorkunar fylleríð mitt hefur alltaf blundað í mér geimveruheilkennið. Þetta er þekkt í heimi okkar sem halda fast í tólf spora kerfið til að fúnkera. Shit hvað það var pirrandi að vera ekki lengur svona sérstök. Að komast á stað þar sem ég þarf að vinna í sjálfri mér og að ég ekki geimvera, bara ómerkileg mennsk manneskja. Mannsveskja.

Veganismi.  Í 1000 manna samfélagi. Alltaf þarf ég er að vera með vesen. Veistu ekki þú þarna borgar-stúlka hvað bændurnir gerðu fyrir þig?

Jú og ég hef margoft þakkað sauðkindinni í persónu fyrir þægilega lífið mitt.

Hún má hins vegar fara að taka út sinn lífeyri og skella sér á eftirlaun.

Mínar forréttinda vestrænu lífsskoðanir laumuðust nefnilega í plastpokann með mér alla leið úr borginni alræmdu í sjávarþorpið friðsæla.

Fiskur, fiskur, fiskur, slátrað lamb og remúlaði.

Blóðugur diskur og öllum er sama.

Ég má ekki segja svona. Því ég má ekki raska hinu venjulega. Samþykkta.

Það er erfitt að halda eldinum gangandi í innri aktívistanum mínum í litlu samfélagi og þegar ég sjálf er þræll kapítalismans.

Ég tók ákvörðun um að leggja mér sem sagt ekki til munns NEITT sem á uppruna sinn sem lifandi dýr með hjartslátt.  Hvort sem það er nautasteik, mjólk úr blóðugu ofstrokkuðu júgrinu, mæjónes frá hamingjusömu hórunum, afsakði hænunum, rjómi eða smjör.

Passar þetta saman? Er þetta ósjálfselsk ákvörðun sem ég tek fyrir jörðina og dýrin.

Eða er þetta ákvörðun vestrænnar hvítrar konu sem hefur aldrei verið svöng, aldrei verið kalt, aldrei verið hrædd og aldrei veirð lamin til þess að blása tilgangi í lífið?

Er ég bara óhemjandi neysluseggur í gervi góða sjálfbærni-hippans?

Ég ætlaði að skrifa um landbúnað og fiskveiðar. Ég sleppi því í þetta sinn. Tek baráttuna þegar hún kemur til mín. Það er nefnilega innritunar skylda í vegan veldið að vita ALLT um íslenskan landbúnað. Því trúið mér þú verður settur á eldlínuna og ef þú svarar ekki öllu óaðfinnanlega, nú þá fellur lífsskoðun þín þá og þegar.

Bottom Line. Persónulega skil ég ekki týpískan íslenskan veruleika. Ég passa ekki inní hann finnst mér. Mér finnst ég vera að leika leikrit. Ég er ekkert að reyna að vera leiðinleg. Ég er ekki að reyna að vera með vesen.

Íslenskur landbúnaður. Sjómennska. Kvóti. Íbúðarlán og sunnudagssteikin. Háskólanám. Framhaldsnám. Þetta bara er ekki minn veruleiki. Ég er að prófa að gera þetta öðruvísi. Ég er samt alveg með ykkur í liði og vona að þið séuð með mér í liði.

Ég skora á Kidda rauða.

Hjördís Eyþórsdóttir