Áskorandahorn 27.10.16

Matti kemur upp úr helli
Matti kemur upp úr helli

Ég vill byrja á því að þakka Nökkva fyrir sendinguna. Ég var nú töluvert lengi að hugsa hvað ég ætti til að skrifa hérna, var fyrst að spá hvort ég ætti að koma með einhverja sprengju, uppljóstra einhverjum myrkum leyndarmálum fólks út í bæ. Ég held að það sé bara ágætt að reyna að halda sig á jákvæðu nótunum svona þegar skammdegið hellist yfir okkur og kosningaáróðurinn er sem mestur, ég veit svosem ekkert einhver myrk leyndarmál fólks út í bæ.

Og ekki fer ég að skrifa um Manchester United á þessum síðustu og verstu tímum..

Eftir mikla umhugsun ákvað ég að eigna mér það í þessum pistli hvernig Tjarnarás breyttist á frekar stuttum tíma úr því að vera nokkurskonar „Gullna hliðið” í það að verða bara hipp og kúl gata, já hreinlega í tísku.

Þegar við Ágústa mín fluttum í Tjarnarásinn árið 2012 var meðal aldurinn í götunni rétt um ellilífeyri! Summi var með þeim yngri í götunni sem segir allt sem segja þarf…
Þegar við fluttum inn var mikið gert grín af okkur að vera að flytja í götu þar sem ekki mætti hafa hátt í sjónvarpinu eftir kl.22 á kvöldin því þá gæti maður hætt á það að vekja nágrannana sem væru þá löngu sofnaðir o.s.f.v. Á aðeins fjórum árum höfum við unnið hörðum höndum og flutt inn fólk eins og Elvar dúkarans og co, Martin Markvoll og co, Gísla Páls og co og fleiri. Meðal aldurinn hefur semsagt hríðlækkað eins og blóðþrýstingur íbúa og staðan er orðin þannig að Summi er orðinn með þeim eldri í götunni. Við gætum hreinlega þurft að endurskoða “Gammeldansk” nafnið á næstu Dönsku Dögum ef þetta heldur svona áfram!

Þessi aukning unga fólksins í Tjarnarásnum hefur svo smitað út frá sér og eru ungir Hólmarar farnir að snúa hingað heim eftir nám og nýjir ungir hólmarar einnig frétt af þessu og bæst í hópinn. Framtíðin er því sannarlega björt hér í Hólminum. Verði ykkur öllum að góðu!

Ég ætla að skora á söngfuglinn, laga- og textahöfundinn, skipsfélaga minn og ekki síst alveg ágætis félaga minn Jón Torfa Arason að skrifa næsta pistil. Hugsa að hann geti nú lagt eitthvað til málanna, það er nú oftast þannig.

Mattías Arnar Þorgrímsson