Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Áskorendahorn 09.02.17

Ragnar M. Ragnarsson

Listabærinn Stykkishólmur?

Það er gott að búa í Stykkishólmi. Afhverju, gætu einhverjir spurt sig. Þótt það sé margt sem betur megi gera að þá eru hérna t.d frábærir skólar. Skólar sem eru með káta nemendur sem eru að stíga sín fyrstu skref á skólagöngunni í leikskólanum, nemendur sem eru að klára grunnskólann og halda áfram úti í lífið og svo nemendur sem leggja stund á tónlist. Það þarf ekki annað en að koma inn í þessa skóla til að sjá að þarna er unnið frábært starf sem er stýrt af kennurum sem njóta þess að leiðbeina nemendunum. Sjálfur á ég tvö börn sem að stunda tvo af þessum skólum og þegar að vinnudegi lýkur og maður spyr krakkana hvernig hafi verið í skólanum, er svarið alltaf það sama: gaman.

Það skiptir mig sem foreldri miklu máli að börnunum finnist gaman í skólanum og þeim líði vel. Það segir mér að allt starfsfólk skólanna leggi sig fram við að gera námið þeirra skemmtilegt. Tónlistarnám er ekki skylda, en með því að vera bjóða uppá tónlistarnám erum við að „framleiða“ tónlistamenn sem ætla sér mislangt í þeirri grein. Sumir nemendur sækja sér tónlistanám til þess að skemmta sjálfum sér og sínum nánustu á meðan að aðrir ætla að leggja tónlistina fyrir sig. Listnám, sama hvað það heitir, er miklu mikilvægara en margir gera sér grein fyrir.

Hugsið ykkur daglegt líf ef ekki væru til listamenn. Við hefðum ekki tónlist, kvikmyndir, leikhús væri ekki til, og við myndum lesa Moggann til gamans í stað góðra bóka o.s.frv. Listin blómgar líf okkar allra á hverjum einasta degi hvort sem við erum listunnendur eða ekki. Á meðan að fólk er tilbúið að leggja mikið á sig til að bæta mannlífið með listsköpun sinni megum við hin, sem njótum hennar, vera þakklát.

Fyrir nokkrum dögum kom maður að máli við mig og viðraði þá hugmynd hvort að það væri ekki sniðugt að setja á stofn listamiðstöð hérna í Hólminum. Miðstöð sem gæti haldið námskeið í tónlist, leiklist, myndlist eða hverju sem er sem tengist listsköpun. Hingað gæti komið fólk hvaðanæva af landinu, erlendis frá þess vegna, til að praktisera listina og leyfa heimamönnum og öllum þeim ferðamönnum sem heimsækja okkur að njóta hennar. Hugsanlega mætti sjá tónlistaskólann nýttan undir slíka miðstöð í sambland við kennslu. Ég keypti þessa hugmynd, eftir 10 mínútna ræðu viðkomandi, og ég tel að við Hólmarar ættum að skoða þetta að fullri alvöru. Það mætti sjá fyrir sér að svona miðstöð yrði rekin allt árið í samvinnu við innlenda og erlenda listaháskóla o.fl. aðila.

Eins og með allar svona hugmyndir þurfa þær að þróast en með samstilltu átaki gæti þetta orðið frábær viðbót við þann iðnað sem fyrir er í Hólminum og myndi klárlega poppa upp mannlífið. Svo ég tali nú ekki um þau áhrif sem svona miðstöð gæti haft á veitinga- og gistihúsin hérna í bænum. Tækifærin eru endalaus, en eins og einhver sagði, það er bara að kýla á það. Um leið og ég vill þakka Jóni Þór Sturlusyni svila mínu fyrir að varpa pennanum yfir til mín, skora ég á vin minn Baldur Þorleifsson að taka við honum og skrifa um eitthvað annað en sögu hamarsins.

Ragnar M. Ragnarsson