Átak í skógræktarmálum í Ólafsvík

Um miðjan febrúar var kosin ný stjórn hjá Skógræktarfélagi Ólafsvíkur. Nýju stjórnina skipa Vagn Ingólfsson formaður, Valgerður Hlín Kristmannsdóttir ritari og Ólafur Helgi Ólafsson gjaldkeri. Varastjórn félagsins skipa Sigurður Ómar Scheving, Hilmar Már Arason og Hjörtur Ragnarsson. Ákveðið var að fara í stórátak í skógræktarmálum á svæði félagsins en þar hafa félagsmenn gróðursett frá stofnun þess, 1970.

Stjórnin pantaði rúmlega 20 þúsund trjáplöntur hjá Skógræktarfélagi Íslands og var að koma staðfesting á því að félagið fengi úthlutað 23.648 plöntum af 12 tegundum og skiptast þær þannig: Stafafura 3551 stk, Sitkagreni 3000 stk, Ilmbirki Embla 3000 stk., Blágreni 3000 stk, Ilmreynir 2520 stk, Ilmbirki 2010 stk, Alaskaösp 1995 stk, Gulvíðir 1480 stk, Evrópulerki 1005 stk, Jörfavíðir 1000 stk, Hrymur 737 stk, Bergfura 335 stk.

Til þess að auðvelda okkur verkið við gróðursetninguna voru pantaðar níu geispur og sex burðarbox. Kvenfélag Ólafsvíkur og Lionsklúbbur Ólafsvíkur styrktu félagið við þessi kaup og er þeim þakkaður stuðningurinn.

Það stendur til að hefja gróðursetningu á næstu dögum og er öll aðstoð vel þegin, í lengri eða skemmri tíma. Áhugasamir geta snúið sér til formanns félagsins, Vagns Ingólfsson.

Með von um sjá ykkur sem flest við gróðursetninguna.

Stjórn Skógræktarfélags Ólafsvíkur

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli