Bæjarmálafundur

Annar bæjarmálafundur vetrarins á vegum L-listans var haldinn mánudaginn  19. nóvember í Verkalýðsfélagshúsinu.
Mæting á fundinn var með ágætum. Stefna okkar hjá L-listanum er að búa til vettvang þar sem fram fer opin umræða um bæjarmálin.

Það finnst okkur  jákvætt því það fær íbúana  til þess að hugsa um þessi málefni allt kjörtímabilið en ekki bara rétt fyrir kosningar.
       Yfirskrift fundarins var íbúaþróun í  bænum og skipulagsmál. Þau mál voru því í brennidepli. Fram kom að fólk hafi það á tilfinningunni að eitthvað hafi fækkað. Nýjustu tölur þar að lútandi liggja þó ekki fyrir fyrr en eftir 1. desember en samkvæmt áætlun Hagstofu Íslands frá 1. október 2007 hljóða tölurnar upp á 1.100 en mannfjöldinn 1. des. 2006 var 1.149. Í skýrslu Vífils Karlssonar sem gefin var út af Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi þar sem hann fjallar um þróun útsvars árin 2001 – 2006 kemur fram að íbúum 30 – 50 ára hafi fækkað í Stykkishólmi á þessum árum. Ræddar voru þær leiðir sem menn sjá til þess að sporna við þessari þróun. Það kom sterklega fram að það sem skiptir máli eru atvinnumálin og hlúa að barnafólki til jafns við það sem gerist í öðrum byggðalögum þannig að við verðum samkeppnishæf um unga- og barnafólkið.
       Varðandi atvinnumálin binda menn vonir við að nýjungar eins og sjávarfallavirkjun verði að veruleika, skútusmíðin hjá Skipavík heppnist og að bakdeildin á sjúkrahúsinu verði efld enn meira. Efling frístundabyggðar og að hlúa að því sem fyrir er kom til umræðu einnig kom sú hugmynd að markaðssetja bæinn fyrir eldri borgara þar sem þjónustustig hér er hátt og bærinn á ýmsan hátt hentugur fyrir þennan hóp ekki síst vegna hagstæðara íbúðaverðs. Menn ræddu líka þá stöðu sem uppi er varðandi ríkisstyrk til ferjusiglinga Baldurs yfir Breiðafjörð en  eins og flestir vita þá rennur út samningur við ríkið árið 2010. Þarna eru störf sem munu tapast ef ekkert verður að gert auk þess sem það verður missir fyrir það fólk sem sækir í eyjarnar og síðast en ekki síst fyrir nýstofnað útibú FSN á Patreksfirði. Einnig kom fram ánægja með hina nýstofnuðu bjórverksmiðju.
       Farið var yfir skipulagsmálin, en varðandi þau þurfum við að vera síkvik og skilvirk. Varðandi einstök mál kom fram að mönnum þætti mikilvægt að laga aðstöðuna við tjaldstæðið. Eins og við höfum orðið vitni að síðustu sumur þá hefur fjölgað því ferðafólki sem kemur á húsbílum, hjólhýsum og fellihýsum. Til þess að þjónusta þennan hóp enn betur þarf að gera þar gagngerar endurbætur. Við þurfum að halda áfram þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu. Góð ímynd Stykkishólms er sterk eins og kom fram í lokaritgerð Guðrúnar Jónu Jósepsdóttur  í  ferðamálafræð við HÍ vorið 2007 þar sem hún gerði rannsókn á ímynd Stykkishólms, Grundarfjarðar og Snæfellsbæjar. Þar kemur meðal annars fram með leyfi höfundar:
„Niðurstöður rannsóknarinnar eru mjög mikilvægar fyrir bæina þrjá á Snæfellsnesi. Rannsóknin  gefur til kynna hugmynd um ímynd staðanna og hvernig þeir eru skynjaðir af mögulegum ferðamönnum. Að kortleggja ímynd þeirra getur verið mjög gagnlegt til þess að skoða markaðinn og meta markaðsaðgerðir í framtíðinni. Það er ánægjulegt fyrir ferðaþjónustuaðila sem og aðra í Stykkishólmi að vita að ímynd bæjarins er jákvæð og starf undanfarinna ára virðist vera að bera árangur“
Þetta eru jákvæðar niðurstöður en við verðum samt sem áður að halda vöku okkar og nýta sóknarfærin.
       Rædd var tillaga L-listans um að bjóða upp á „grænar tunnur“  sem meirihlutinn hafnaði í bæjarráði. Þegar tillagan var tekin til afgreiðslu opinberaðist að samningaviðræður höfðu staðið milli Gámafélagsins og Stykkishólmsbæjar. Niðurstaðan úr þeim viðræðum er okkur Hólmurum til sóma og gaman að vera í fararbroddi í þessum málum.
       Að lokum var ákveðið að hafa nokkurs konar þrettándagleði félagshyggjuframboðsins sem auglýst verður nánar þegar nær dregur. Bæjarfulltrúar munu síðan verða með viðtalstíma eftir miðjan janúar.

                                                                               Bestu kveðjur
                                                                               Berglind Axelsdóttir