Bæjarstjóraefni félagshyggjuframboðsins? Lárus Ástmar svarar Sth.-Póstinum

Það vakti athygli þegar D-lista framboðið birti framboðslista sinn fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í maí að Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri er þar í 4 sæti, sjálfu baráttusætinu.   Fram að því hefði maður getað talið að bæði framboðin gætu hugsað sér hana áfram sem bæjarstjóra.  Því var eftir farandi spurningu varpað til Félagshyggjuframboðsins: 

Það vakti athygli þegar D-lista framboðið birti framboðslista sinn fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í maí að Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri er þar í 4 sæti, sjálfu baráttusætinu.   Fram að því hefði maður getað talið að bæði framboðin gætu hugsað sér hana áfram sem bæjarstjóra.  Því var eftir farandi spurningu varpað til Félagshyggjuframboðsins: 

Gleymdu félagshyggjufólkið  sér í málefnavinnunni þegar e.t.v. hefði verið gáfulegra að tryggja bæjarstjórann út úr kosningunum með því að tala við Erlu Friðriksdóttur, bæjarstjóra, og leitast strax við að tryggja að hún yrði ekki á lista annars framboðsins frekar en hins og snúa sér svo að  málefnunum?  
Lárus Ástmar Hannesson varð fyrir svörum:

Ég vil í upphafi taka fram að ég get einungis svarað fyrir mig en ekki framboðið sem slíkt.
Þegar við hófum ferð framboðsins þá lögðum við upp með mjög gott vinnuferli þar sem byrjað er á byrjuninni sem er stefnumótun og þar geta allir bæjarbúar komið sínum skoðunum á framfæri.  Nú er sú vinna vel á veg komin og erum við farin að huga að uppstillingu sem verður að sjálfsögðu einnig með mjög lýðræðislegu sniði.  Margir voru tilnefndir og hafa þegar talsverður hluti þeirra, sem haft hefur verið samband við, gefið grænt ljós á að gefa kost á sér. 
     Margir eru á þeirri skoðun, og þar á meðal ég, að bæjarpólitík eigi ekki að snúast um flokkadrætti heldur fólk og það er einmitt það sem við erum að gera þ.e.a.s. „Fólk velur fólk“.  Þeir sem kosnir eru í bæjarstjórn ráða svo bæjarstjórann sem er að sjálfsögðu ekkert annað en nokkurskonar framkvæmdastjóri bæjarins sem vinnur hjá okkur bæjarbúum við að framfylgja stefnu meirihlutans, stefnunni sem fólkið mótaði.  Það hefði því ekki verið rétt í upphafi vinnunar að hoppa í hinn endann og byrja á að velja bæjarstjóraefni.
     Það er nú líka sitthvað sem ég hef ekki skilið hvað varðar bæjarstjóraráðningar okkar Hólmara.  Við Hólmarar höfum t.d. verið að borga bæjarstjóra mun hærri laun en gerist og gengur.  Mín skoðun er að launin eiga að sjálfsögðu að vera góð en þau eru orðin það talsvert áður en komið er uppí þær tölur sem við höfum verið að greiða.  Þegar svona „gamaldags“ viðhorf eru viðruð segja sumir en sem betur fer fáir „við fáum engan hæfan bæjarstjóra nema borga mjög góð laun“.  Mig langar í lengstu lög að halda í þá barnalegu trú að til sé fólk sem er tilbúið að leggja sig fram þó það sé ekki með nema sem nemur fjörföldum launum verkamanna.  Það verður líka að skoða í þessu samhengi að fyrir nokkru var ráðinn bæjarritari sem hlýtur að létta bæjarstjóra vinnuna.  Þar ofaná bætist að verkefnum hefur fækkað eftir sölu Hótelsins, félagsheimilisins, vatnsveitunnar og hitaveitunnar.  Svokölluð biðlaun hafa verið fastur liður í ráðningarsamningi bæjarstjórans hér og höfum við fengið að bíta úr nálinni með það enda hefur enginn af þremur síðustu bæjarstjórum klárað ráðningarsamninginn og tveir þegið biðlaun og þeim milljónum hefði sjálfsagt verið hægt finna betra hlutverk.  Þá er sagt  „þetta er nú svo ótryggt starf, ráðningin gildir bara í fjögur ár“.  Lesandi góður getur þú sagt til um það hvort þú haldir vinnunni næstu fjögur árin?  Ég hef kynnt mér að mjög víða eru bæjarstjórar með þriggja mánaða uppsagnarfrest eins og almennt gerist á vinnumarkaðinum. 
     Margir eru hinsvegar á þeirri skoðun að það hafi verið hún Erla, okkar ágæti bæjarstjóri sem gleymdi sér.  Hefði hún haldið sig utan við listana og sagt ,,ég er tilbúin að vera bæjarstjóri Stykkishólms sama hverjir eru í meirihluta“ hefði hún verið mun trúverðugri bæjarstjóri allra bæjarbúa. 
Hún hins vegar velur þann kostinn að segja „ég er tilbúin að vera bæjarstjóri ykkar en bara ef þið
kjósið X-D“.
     Annars erum við hjá félagshyggjuframboðinu mjög ánægð með gang mála og teljum okkur nú þegar hafa átt hlut í að lyfta framboðsvinnu á hærra plan en verið hefur og hafa vinir mínir á D-listanum einnig opnað sína málefnavinnu og vona ég svo sannarlega að þeir fái góð viðbrögð við því boði.  Það er nefnilega þannig að eftir því sem fleiri koma að bæjarmálum því betra.  
     Í lokin langar mig að segja ykkur frá visku sem vitur kona laumaði að mér fyrir einhverju síðan.  Ef þú telur þig vera ómissandi þá fylltu glas af vatni, stingdu puttanum ofaní glasið og haltu í 30 sekúndur.  Ef það verður eftir hola í vatninu þegar þú hefur tekið puttann uppúr þá ertu ómissandi.  Þessa visku hef ég haft að leiðarljósi og segir mér að enginn er ómissandi og allra síst ég.
     Ég læt þessum hugrenningum lokið í þetta sinn og vona að við einhendum okkur í að taka af myndarskap þátt í söfnuninni fyrir nýju orgeli í kirkjuna okkar, margt smátt gerir eitt stórt.

 

Bestu kveðjur og þökk fyrir lesturinn

Lárus Ástmar Hannesson