Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Bíóhúsið

Við Aðalgötu í Stykkishólmi er hús, meðal stórt, og á hlið hússins sem snýr að götunni stendur Stykkishólmsbíó. Fyrir þá sem búa í Hólminum og vita ekki hvers vegna þetta stendur á húsinu skal ég segja frá því í stuttri frásögn.

Árið 1941 flutti til Stykkishólms maður að nafni Jón Aðalsteinn Sigurgeirsson ásamt fjölskyldu sinni. Þessi maður var kallaður Jón vert og var alltaf á undan sinni samtíð. Jón og fjölskyldan fluttu frá Vegamótum í Miklaholtshreppi. Þann stað byggði Jón vert sem veitingastað og hótel. Vegamót er enn starfandi í dag en nú sem veitingastaður sem búið er að endubæta. Þegar fjölskyldan flutti til Stykkihólms keypti Jón vert gamla samkomuhúsið og hófst hann handa við endurgerð hússins. Byggði við það og útbjó bíóhús fyrir bæjarbúa. Bíóið vakti mikla lukku og ánægju hjá bæði fullorðnum og börnum. Ég gleymi aldrei hvað það var gaman að sjá prúðbúið fólk fara í bíó á kvöldin og hvílast eftir strit dagsins og börnin sáu barnamyndir á sunnudögum. Málarar komu frá Reykjavík og máluðu bíóið að utan sem innan. Bíósalurinn var fallega málaður í dumbrauðu og gyllingu til að leggja áherslu á herlegheitin. Mér er svo minnisstætt veggurinn í anddyri bíósins en þar var máluð mynd af Súgandisey, eyjan sem stóð svo tignarleg en er nú orðin föst við Stykkishólm. Áfram hélt Jón vert að framkvæma því hann keypti hótel Helgafell í Stykkishólmi. Kona hans hét Steinunn Ólína Þórðardóttir (d.1995),og var hún rösk og myndarleg kona í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og sá meðal annars um rekstur veitinga með mikilli prýði. Þau eignuðust tvö börn þau Hrefnu og Sæbjörn. Mikil sorg varð hjá fjölskyldunni þegar Jón vert lést þann 26. desember 1947 aðeins 46 ára gamall, elskulegur eiginmaður og faðir.

Áfram var starfrækt bíó eftir að Jón heitinn lést því menn að nafni Magnús og Sigurður keyptu bíóið af ekkju Jóns og gerðu þeir vel. Ekki er mér kunnugt hver keypti bíóið af þeim en það var lagt niður í sinni mynd sem bíóhús. Húsið fór illa að innan en sem betur fer kemur Haralsdur Sigurðsson, jarð og jarðefnafræðingur til Stykkishólms og bærinn lagfærði húsið, málaði það að utan sem innan. Haraldur setti upp fallegt eldfjallasafn og er ég þakklát fyrir að sjá hversu vel það lítur út í dag því mér þykir alltaf vænt um húsið.
Ég þakka þeim sem stjórna blaðinu að leyfa mér að birta þessa grein og Stykkishólmsbúum óska ég alls hins besta.

 

Hrefna Jónsdóttir, dóttir Jóns vert