Bókasafnið-skipulagsmál

Spennandi tímar eru framundan í skipulagsmálum bæjarins og þá sérstaklega þeim bletti í gamla miðbænum sem hefur nánast ekkert breyst í áratugi.  Það má segja að bókasafnið spili stórt hlutverk í hvernig þeim málum verði háttað í framtíðinni og raunar þrýsti á um að ákvörðun verði loks tekin í þeim efnum.

Spennandi tímar eru framundan í skipulagsmálum bæjarins og þá sérstaklega þeim bletti í gamla miðbænum sem hefur nánast ekkert breyst í áratugi.  Það má segja að bókasafnið spili stórt hlutverk í hvernig þeim málum verði háttað í framtíðinni og raunar þrýsti á um að ákvörðun verði loks tekin í þeim efnum.  Reyndar var samþykkt deiliskipulag fyrir miðbæinn fyrir um tveimur árum (ág.2003) sem nú er farið að vinna eftir.  Þar er gert ráð fyrir safnahúsi þar sem nú er ,,Langi skúrinn”  eða Skipavíkurhúsið eftir því hvað við viljum kalla það og síðan öðrum byggingum þar sem gamli brunaskúrinn stendur.  Þegar þetta skipulag var gert var Roni Horn ekki komin með sínar hugmyndir og því var bókasafnið ekki endilega hugsað pláss í þessu nýja safnahúsi.  Því þótt bókasafnið sé fyrir löngu búið að sprengja af sér húsnæðið upp á Bókhlöðustíg og aðgengi þar slæmt þá voru ekki komnar fram hugmyndir um flutning þess í annað húsnæði.
Bókasafnið er í raun langt frá því að uppfylla þær kröfur sem fram koma varðandi starfsemi bókasafna í lögunum um almenningsbókasöfn 1997.  Þetta sinnuleysi gagnvart bókasafninu kann að hafa stafað af því að bæði núverandi staðsetning bókasafnsins og húsnæði hafi hreinlega virkað sem dragbítur á nýjar hugmyndir varðandi bókasafnið.  Staðsetning þess gerist ekki glæsilegri og húsið sjálft er óneytanlega sérstakt.  Bókasafnið því hálf heilagt líkt og gamli miðbærinn þó ekki sé nú hægt að segja að auðu svæðin þar séu til prýði.  Þess vegna hafi menn hummað það fram af sér að taka ákvarðanir um bókasafnið líkt og gert hefur verið með gamla miðbæinn í áratugi.  Það hafi verið of stórar ákvarðanir að taka fjárhagslega og ekki hvað síst skipulagslega að klára miðbæinn þannig að hann vel fari.  Miðbæjarsvæðið er viðkvæmt og nýbyggingar þar þurfa að vera í samræmi við þau hús sem þar eru fyrir þ.e. þau elstu.  Því það þarf nú svo sem engan snilling til að sjá það að Langi skúrinn í núverandi mynd  passar nú ekkert sérstaklega vel þá mynd hvað þá aðrar byggingar sem verða ekki nefndar hér.

     En aftur að bókasafninu,  hugmyndir Roni Horn um vatnasafnið eru því frábærar fyrir bókasafnið því þær þrýsta á um að gerð verði bragarbót á húsnæðismálum þess.  Þá gefst kærkomið tækifæri á því að bæta fyrir sinnuleysi síðustu áratuga og koma því í rúmgott húsnæði þannig að hægt sé að veita gestum þess gott aðgengi að öllum þeim gullmolum sem leynast í geymslum þess.  Þess vegna þurfa hagsmunir bókasafnsins að vera númer eitt í þessu ferli en það leggja Roni Horn og hennar fólk einmitt ríka áherslu á.  Vatnasafn Roni Horn er mjög spennandi kostur en þó hann sé spennandi þá má ekki gleyma eða ýta hagsmunum bókasafnsins til hliðar til að koma vatnasafninu á koppinn.

     Það skiptir höfuðmáli fyrir bókasafnið að vel fari um bókakost þess og starfsfólk og að safnið eigi þess loksins kost að sýna hvað það hafi að geyma.  Hve margir ætli það séu hér í bæ sem viti í raun hvað leynist innan veggja bókasafnsins?  Upphaf bókasafnsins má rekja aftur til 1847 þannig að þar leynist ýmislegt sem því miður er ekki hægt að sýna við núverandi aðstæður.

     Nokkrar hugmyndir hafa komið fram um hvert flytja mætti bókasafnið og skulu fjórar þeirra nefndar hér:

1.  Í nýbyggingu við Grunnskólann á Borgarbraut en hún kom fram í góðri skýrslu nefndar sem fjallaði um stefnumörkun í húsnæðismálum Grunnskólans og Tónlistarskólans. Þar var m.a. lagt til að byggja nýbyggingu við Grunnskólann sem rúmaði yngri bekki grunnskólans og Tónlistarskólann

framtíðar í nýbyggingu sem byggð yrði við skólann

2. Að bókasafnið yrði flutt í gamla pósthúsið.  Gæti verið nokkuð góður kostur og e.t.v. auðveldast að flytja bókasafnið þangað með stuttum fyrirvara og byrja starfsemi.  Einnig býður lóðin upp á það að hægt yrði að byggja við.  Gallinn er hins vegar sá að Pósturinn þarf að byggja yfir sig fyrst og hann er ekki byrjaður enn þó e.t.v. sé komin lausn varðandi lóð, þ.e. ofan við bensínstöðina.  Byrji framkvæmdir þar fljótlega þá gæti þetta verið kostur en annars er þetta varla inn í myndinni því of langur tími liði.

3. ,,Langi skúrinn“” eða Skipavíkurhúsið eins og það er gjarnan nefnt núna.  Þar var reiknað með einhvers konar safnastarfsemi í deiliskipulaginu og viðbyggingu því tengdu uppá tvær hæðir. Viðbyggingin var hugsuð fyrir þjónustu sem eflt gæti og styrkt miðbæinn á þann hátt að fleiri ættu leið þar um.  Þetta gæti verið kostur en nær þó ekki að mæta rýmisþörf bókasafnsins  upp á um 610 m2 nema skipulaginu verði breytt og stærra hús leyft.

4.  Í nýbyggingu safnahúss t.d. þar sem nú er gamli brunaskúrinn en þar er gert ráð fyrir nýbyggingum í núverandi skipulagi.  Þetta er e.t.v. sá kostur sem er mest spennandi og gæti orðið safnahús þar sem þrír aðilar kæmu að.  Þar gæti bókasafnið verið með öðrum söfnum/safni t.d. safni Haraldar Sigurðssonar.  Það myndi svo jafnvel líka hýsa ljósmyndasafn og skjalasafn.  Skjalasafnið yrði þá skjalasafn fyrir Snæfellsnesið en slíkt safn er ekki fyrir hendi nú en bókasafnið var jú amtbókasafn og síðar sýslubókasafn þar til ný sveitarstjórnalög komu 1989.  Ríkið hefur þegar styrkt flutning á safni Haraldar til landsins en Haraldur hefur áhuga á að setja það niður í Stykkishólmi.  Spurning hvort mögulegt væri að fá  aðkomu ríkisins enn frekar að safni Haraldar í nýju safnahúsi.  Skjalasafnið væri svo hugsanlega undir héraðsnefnd og Stykkishólmsbær væri svo með bókasafnið og ljósmyndasafn.  Þá væri þar komin spennandi bygging með starfsemi sem laðaði að sér fólk sem ekki veitir af því starfsemin í gamla miðbænum minnkar stöðugt.

      Það eru margar hugmyndir uppi um söfn í Stykkishólmi og fleiri en hér hafa verið nefnd s.s. bátasafn, safn um eyjamenninguna í Breiðafirði og þessi tvö tengd við Búðarnesið, eitthvað tengt Eirbyggju  o.s.frv.  En það er einnig ljóst að ekki er mögulegt að koma þeim öllum á fót og hvað þá að reka þau til framtíðar, því til þess hefur bærinn einfaldlega ekki til fjármagn.  Það er því mikilvægt að fara í þá vinnu hvað sé raunhæft í þeim efnum og skilgreina þörf slíkra safna og gera svo langtímaplan út frá því.   En bókasafnið hlýtur að koma fyrst í þeirri vinnu að þar verði tekin ákvörðun um hvernig viljum við hafa bókasafnið í framtíðinni.  Viljum við sýna fortíð þess sóma með því að gera mögulegt að veita aðgang að gömlum gögnum í fórum þess.  Eða eigum við að pakka þessu gamla niður og losa okkur við það og einbeita okkur í stað þess að nútímanum, en þá má heldur ekki gleyma því að eins og segir í kvæðinu að ,,nútíminn er trunta” og sú trunta verður á endanum gömul og þá verður aftur spurningin hvort stoppa eigi hana upp og hafa hana til sýnis eða farga henni endanlega.

srb
                                                                                                                                                       Stykkishólms-Pósturinn 3.tbl.2006