Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Börnin okkar

11077949_10205338606098030_8902580033152246996_nÉg hef mikið verið að velta því fyrir mér undanfarnar vikur hversu einstaklega heppin við í Hólminum erum með börnin okkar. Ég held að þetta sé bara pínu einstakt. Sjálf á ég þrjá drengi og er sá yngsti enn í grunnskólanum og telst því einn af þessum fyrirmyndar-börnum sem mig langar að tala um. Ég er búin að kenna við grunnskólann í 20 ár (ótrúlegt en satt, fannst eins og ég hafi flutt hingað í fyrra!) og ég held að ég geti næstum því fullyrt það að skólinn okkar hefur verið laus við vandamál eins og reykingar, áfengisneyslu eða önnur ávanabindandi efni hjá nemendum þennan tíma, jaaa ég má vera ansi blind ef það hefur farið fram hjá mér. Í gegnum árin hef ég aðallega kennt á yngsta stigi og miðstigi og það er svo gaman að sjá krakkana vaxa upp og verða að unglingum með allskonar hæfileika. Um miðjan nóvember vorum við með opið hús í grunnskólanum og þar komu krakkar úr 10. bekk fram að kynna forvarnarverkefni sem þau höfðu unnið hjá umsjónarkennaranum sínum. Þetta var vel unnið hjá þeim og það er sko ekkert auðvelt að standa einn eða tveir saman fyrir framan nokkur hundruð manns og eiga að koma öllu skilmerkilega frá sér en það gerðu þessir krakkar svo sannarlega. Einnig fluttu krakkar úr 7. bekk mjög flott frumsamið ljóð og 1. og 5. bekkur sýndu, sameiginlega leikrit sem þau höfðu æft í tilefni dags íslenskrar tungu, þau voru mjög krúttleg 😉
Ég hef verið svo heppin að hafa fengið að fara í allskonar ferðir með nemendum eins og menningarferðir til Rvk., skíðaferðir til Dalvíkur, leikhúsferðir og jafnvel utanlandsferðir á vegum skólans. Hvar sem við höfum komið með hópa, höfum við alltaf fengið að heyra hversu kurteis og skemmtileg börnin eru úr Hólminum. Og auðvitað fyllist maður stolti og finnst maður eiga hlut að máli en fyrst og fremst eru það þið, foreldrar góðir, sem hafið alið börnin ykkar vel upp í flestum tilfellum.
Mér finnst aðventan alltaf svo skemmtilegur tími og einhvern veginn fer ég í svona umhyggjukast og langar að allir séu vinir og sýni hvert öðru kærleika og umburðarlyndi á þessum tíma, sem ætti að sjálfsögðu alltaf að gilda. En það gerist ekki nema við veitum hvert öðru athygli, eigum falleg samskipti, tölum saman í rólegheitum og eyðum tímanum saman. Látum ekki jólastress og “Blask Friday” hlaupa með okkur í gönur. Það er nú eitt af þessu rugli sem verslunareigendur gleypa við og ætla að selja okkur hinum, vá hvað ég var fegin að eyða þessari helgi í Hólminum með strákunum mínum, vin-konum og undurfallegum tónleikum hjá kirkjukórnum og Þór Breiðfjörð, Ég elska að fara að á fallega tónleika í kirkjunni okkar. Já við erum heppin að búa hér og vera við. En það þarf alltaf að vera með hugann við það sem betur má fara, hvetjum börnin okkar áfram en gerum jafnframt kröfur á þau, þau geta oft miklu meira en þau oft nenna að sýna. Of mikil tölvunotkun er eflaust vandamál á fleiri heimilum en mínu en kannski væri notkunin minni ef við eyddum meiri tíma með börnunum okkar, það vorum jú við sem bjuggum þau til. Þau verða líka að vita að það erum við sem ráðum allt til átján ára aldurs, krefjumst af þeim að standa sig vel í skólanum, hann á að ganga fyrir, sjáum til þess að þau skili sínu og það á réttum tíma. Ef það næst jafnvægi á þessa hluti heima fyrir er tími fyrir tónlistina, íþróttirnar og annað sem barnið hefur áhuga á utan skóla. Notum hrós þegar það á við, leiðbeinum þegar það á við, byggjum upp sjálfsöryggi hjá börnunum okkar því ef þau hafa trú á sjálfu sér eiga þau eftir að spjara sig í framtíðinni.
Njótum aðventunnar í umhyggjukasti

Kveðja Helga Sveinsdóttir