Byggð og atvinna um landið allt

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði bjóða fram í öllum kjördæmum í alþingiskosningum í vor. Aðaláhersla okkar er á lýðræðisleg vinnubrögð og fyrir komandi kosningar setjum við þrjú mál á oddinn: Afnám verðtryggingar, nýja stjórnarskrá og uppstokkun á stjórn fiskveiða. Einnig viljum við lögfesta lágmarks framfærsluviðmið, afnema verðtryggingu og almenna leiðréttingu húsnæðislána.

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði bjóða fram í öllum kjördæmum í alþingiskosningum í vor. Aðaláhersla okkar er á lýðræðisleg vinnubrögð og fyrir komandi kosningar setjum við þrjú mál á oddinn: Afnám verðtryggingar, nýja stjórnarskrá og uppstokkun á stjórn fiskveiða. Einnig viljum við lögfesta lágmarks framfærsluviðmið, afnema verðtryggingu og almenna leiðréttingu húsnæðislána.

Dögun hefur mótað sér Íslandsbyggðarstefnu þar sem áhersla er lögð á að „á Íslandi búi þjóð sem um ókomin ár verður samábyrg gagnvart umhverfi á landi, í lofti og legi með áherslu á jöfn tækifæri og lífsgæði allra.“

 

Í stefnunni er lögð áhersla á að landið haldist í blómlegri byggð og spornað verði við þeirri þróun að fólk og fyrirtæki safnist á eitt horn landsins. Þessari þróun hefur fylgt aukin miðstýring frá höfuðborgarsvæðinu sem við viljum sporna við.

 

Hugmyndafræði um sjálfbærni byggir m.a. á því að fólk lifi af landinu sem næst sér en ekki sé verið að flytja matvörur og annan varning fram og til baka með meðfylgjandi kostnaði og umhverfisáhrifum. Með fullvinnslu afurða þar sem þær verða til og auknu frelsi til að nýtingu afurða heima á bæjum er hægt að skapa atvinnu út um sveitir. Þessi þróun er þegar farin af stað en það þarf að styðja við hana til að slík starfsemi nái fótfestu.

 

Við í Dögun viljum skapa aukna möguleika á heimaslátrun, vinnslu og sölu á afurðum beint frá býli. Einnig viljum við vinna gegn þeirri þróun að afurðastöðvum sé lokað víða um landið. Sláturhúsum og mjólkurbúum fækkar enn, t.d. var mjólkurbúinu á Ísafirði lokað fyrir tveimur árum til að keyra alla mjólk suður á bóginn. Á stórum svæðum á landsbyggðinni eru engin sláturhús og varla er það í samræmi við hugmyndir um velferð dýra að flytja sláturdýr mörg hundruð kílómetra um slæma vegi, og oft yfir sauðfjárveikivarnargirðingar.

 

Við hvetjum kjósendur til að skoða stefnumál okkar á heimasíðunni XT.is fyrir komandi kosningar en Dögun hefur mótað stefnu í öllum helstu málaflokkum.

 

Guðrún Dadda Ásmundardóttir, 1. sæti Dögunar í Norðvesturkjördæmi

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4. sæti Dögunar í Norðvesturkjördæmi