Byggðastefna hefðbundinna atvinnuhátta

Frá því á 8. áratug síðustu aldar teljum við Íslendingar okkur hafa rekið byggðastefnu. Lengi framan af snerist stefnan um fjárfestingu í landbúnaði og sjávarútvegi sem á endanum varð of mikil. Gilti þá helst fyrir byggðalög, fyrirtæki og einstaklinga að komast í aðstöðu gagnvart hinu pólitíska valdi sem úthlutaði fjármagni, deildi og drottnaði. Ég held að það sé óumdeilt að við sóuðum fjármunum, horfðum ekki til framtíðar og ofmátum getu hefðbundinna atvinnugreina til þess að bera uppi byggðirnar um alla framtíð. Hversu mjög sem okkur þykir vænt um landbúnað og sjávarútveg, þá geta sauðkindin og þorskurinn ekki borið uppi þá byggð sem við viljum sjá út um landið. Verðmætaukningu í framleiðslu hefðbundnu greinanna hefur því miður fylgt samdráttur í störfum.

Frá því á 8. áratug síðustu aldar teljum við Íslendingar okkur hafa rekið byggðastefnu. Lengi framan af snerist stefnan um fjárfestingu í landbúnaði og sjávarútvegi sem á endanum varð of mikil. Gilti þá helst fyrir byggðalög, fyrirtæki og einstaklinga að komast í aðstöðu gagnvart hinu pólitíska valdi sem úthlutaði fjármagni, deildi og drottnaði. Ég held að það sé óumdeilt að við sóuðum fjármunum, horfðum ekki til framtíðar og ofmátum getu hefðbundinna atvinnugreina til þess að bera uppi byggðirnar um alla framtíð. Hversu mjög sem okkur þykir vænt um landbúnað og sjávarútveg, þá geta sauðkindin og þorskurinn ekki borið uppi þá byggð sem við viljum sjá út um landið. Verðmætaukningu í framleiðslu hefðbundnu greinanna hefur því miður fylgt samdráttur í störfum. Ekki þarf annað en að líta við á nýjustu kúabúunum til að sjá að ein hjón halda kýr eins og þrjár til fjórar fjölskyldur gerðu fyrir aðeins 20 – 30 árum.

Byggðastefna framtíðarinnar

Hvað mun framtíðin bera í skauti sér? Hvernig á að bregðast við þeirri þróun sem á sér stað? Sú þróun að búum fækki og þau stækki, að útgerðum fækki og þær stækki virðist ekki vera að ganga til baka nema síður sé. Á landsbyggðinni verðum við að bregðast við með því að auka fjölbreytni og gagnlegt gæti verið að horfa til breytinga á þeim stuðningskerfum sem eru við lýði t.d. með breyttum stuðningi við framleiðslu búvara. Með fjölbreytni fæst aukin sveigjanleiki og meiri möguleikar á að sem flestir finni störf við hæfi. Byggðastuðningur verður í auknum mæli að beinast að búsetu einstaklinganna. Orkukostnaður, net og fjarskiptamál, samgöngur, menntunarmöguleikar, húsnæðismál og slík mál eiga að vera í brennidepli. Atvinnuhættir verða að vera sjálfbærir og spretta af framtaki landsmanna og fyrirtækja þeirra, áhugasviði þeirra, menntun og hæfileikum. Draga verður úr atvinnuvegaforsjá ríkisins og ofuráherslu á hefðbundnar atvinnugreinar.

Ísland í byggð – áframhald vænlegra verkefna

Við verðum að horfa til þess að byggðastefna takist á við það verkefni að stuðla að jákvæðari búsetuþróun. Viðurkennt verði að horfa þarf til mun fjölbreyttari þátta en atvinnuháttanna eingöngu. Að binda búsetustuðning einvörðungu við ákveðna atvinnuhætti er ekki líklegt til þess að skila langtímaárangri. Halda þarf áfram að þróa það verklag sem unnið er eftir við gerð sóknaráætlana fyrir landshluta en þar er byggt á áherslum heimamanna og meðal annars hafa komist á laggirnar verkefni á sviði samgangna og menntunar. Strandveiðar eru vissulega atvinnuháttaverkefni en þær eru samt sem áður tilraun til að sporna við þeirri þróun sem á sér stað, auka fjölbreytni, styðja við smærri byggðir og gefa nýliðum tækifæri. Mikilvægt er að þær leiðréttingar sem reynt var að gera á strandveiðunum á síðasta þingi nái fram að ganga.

Hörður Ríkharðsson

Höfundur er í 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi