Dagur kvenfélagskonunnar þann 1. feb.

Kvenfélagskonur eftir bakstur á sólarpönnukökum í Klifi

1. febrúar var Dagur kvenfélagskonunnar. Hann er helgaður kvenfélagskonum og útnefndi Kvenfélagasamband Íslands stofndag sinn sem „Dag kvenfélagskonunnar“ árið 2010. Fyrsta kvenfélagið á landinu var stofnað árið 1869. Störf kvenfélagskvenna eru og hafa verið samfélaginu öllu mjög mikilvæg þó ekki hafi þau alltaf farið hátt eða mikið farið fyrir þeim í fjölmiðlum. Var því löngu tímabært að sérstakur dagur yrði helgaður kvenfélagskonum.

Kvenfélagasambandið gefur út Húsfreyjuna sem er jákvætt og fræðandi tímarit og jafnframt hluti af íslenskri kvennamenningu og sögu en það hefur verið gefið út frá 1949. Einnig rekur sambandið Leiðbeiningarstöð heimilanna þar sem fólk getur fengið ýmsar hagnýtar upplýsingar.

Kvenfélag Ólafsvíkur var stofnað 19. júní 1950. Í dag eru 45 konur í félaginu. Félagið ber hag samfélagsins fyrir brjósti og má sjá það á hinum mörgu styrkjum sem félagið hefur afhent gegnum árin. Margir setja samasem merki milli kvenfélaganna og kleinubaksturs en það hefur verið helsta fjáröflunarleiðin gegnum árin. Á síðasta ári veitti Kvenfélag Ólafsvíkur myndarlega styrki til ýmissa mála svo sem við kaup á leiktæki á leikskólann Kríuból, færðu Smiðjunni ýmis konar myndlistavörur, keyptu kaffistell á Dvalarheimilið Jaðar, styrktu kaup á tæki til brjóstamyndatöku og margt fleira. Einnig tóku félagskonur aftur upp þann sið að færa öllum nýburum í Snæfellsbæ húfur eða aðra prjónavöru að gjöf.

Af þessu má sjá að mikið starf fer fram í kvenfélaginu enda þessi upptalning einungis brot af því sem kvenfélagskonur taka sér fyrir hendur og mikilvægt fyrir öll byggðarlög að þau séu starfrækt.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli