Dagur leikskólans

Þann 6. febrúar 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Síðan þá hefur átt sér stað markviss umræða í stéttinni um leikskólamál.

Árið 2008 ákvað þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, að 6. febrúar ár hvert, yrði dagur leikskólans. Markmið með degi leikskólans eru þríþætt:

Að gera þegna þjóðfélagsins betur meðvitaða um þýðingu leikskóla fyrir börn.

Að skapa jákvæða ímynd um leikskólakennslu og auka áhuga fólks á starfinu.

Að beina athygli þjóðarinnar að stöðu leikskóla, gildi hans fyrir menningu og þjóðarauð.

Í rannsóknum Dr. Jóhönnu Einarsdóttur, prófessors við menntavísindasvið Háskóla Íslands, kemur fram að foreldrar og börn á Íslandi líti á leikskólann sem mikilvægt upphaf menntunar hvers einstaklings. Áherslur leikskólastarfs á samskipti og leik er bæði börnum og foreldrum að skapi.

Í rúmlega 270 leikskólum starfa á sjötta þúsund manns, og fer leikskólum fjölgandi. Æ fleiri börn eru í lengri vistun og hefur hlutfall þeirra barna sem eru í 8 tímum eða lengur, fjölgað úr 40% fyrir 10 árum í 75%.

Í leikskólanum er kappkostað að börnum líði vel, þau séu örugg og umhverfi þeirra örvandi og ýti undir sköpun og frumkvæði. Þetta höfum við haft að leiðarljósi í Leikskólanum í Stykkishólmi.

Árið 2017 verður leikskólinn í Stykkishólmi 60 ára. Hann var stofnaður af St. Franciskussystrum 7. október 1957. Þær hafa verið mjög framsýnar í leikskólamálum því enn liðu mörg ár áður en leikskólar voru stofnaðir í sveitarfélögum hér í kring. Þess má geta að árið 1955 voru 8 leikskólar í Reykjavík og árið 1960 er þeir 12. Leikskólinn hjá þeim systrum var vel sóttur og árið 1963 voru komin 60 börn í leikskólann. Þá var farið að huga að nýrri byggingu.

Nánari umfjöllun um sögu leikskólans er fyrirhuguð á þessu ári.

Í tilefni dags leikskólans viljum við bjóða foreldrum barnanna að koma og fá sér kaffisopa áður en þau fara í vinnuna. Við ætlum að hafa heitt á könnunni frá kl 7:45 – 10 mánudagsmorguninn 6. febrúar.

Sigrún Þórsteinsdóttir, leikskólastjóri.