Dagur tónlistarskólanna

Um þessar mundir eru tónlistarskólar landsins að minna á starfsemi sína. Það gera þeir með ýmsu móti, s.s. tónleikahaldi, opnu húsi, þemavikum o.fl. Hápunkturinn hjá flestum er svo Dagur tónlistarskólanna sem jafnan er í febrúar.

Við í Tónlistarskóla Stykkishólms höldum þeim sið að fagna Degi tónlistarskólanna með veglegum tónleikum í Stykkishólmkirkju á síðasta laugardegi febrúarmánaðar sem nú ber upp á 24. febrúar. Þetta er einskonar uppskeruhátíð hjá okkur, á tónleikunum verða fjölbreytt tónlistaratriði úr öllum deildum skólans sem sýna þá breidd sem skólinn býr yfir. Eftir tónleikana er verður foreldrafélag lúðrasveitarinnar með kaffi- og kökuhlaðborð til sölu í safnaðarheimilinu. Ókeypis aðgangur er að tónleikunum sem hefjast kl. 14:00 og eru allir hjartanlega velkomnir.

Allir þekkja núorðið Nótuna, uppskeruhátíð tónlistarskóla landsins, sem við höfum tekið þátt í síðan hún hófst. Við höfum ákveðið að taka ekki þátt í henni þetta árið. Ástæðan fyrir því að við verðum ekki með í Nótunni núna er helst sú að nú er hún óvenju snemma í árinu og treystum við ekki veðri og vindum á þessum árstíma. Það fylgir því ábyrgð að ferðast með unga skjólstæðinga um fjöll og dali og í því ljósi var þessi ákvörðun tekin. Við munum hins vegar fylgjast með af áhuga og óskum tónlistarnemendum um land allt góðs gengis í Nótunni 2018.

„Betra er seint en aldrei”, segir gott máltæki. Nú höfum við ákveðið að boða foreldrafund hjá okkur þar sem farið verður yfir ýmis málefni sem varða það að eiga barn í tónlistarnámi, heimaæfingar, tónleikahald, skólareglur, próf o.fl. Auk þess verður kynning á skólaforritinu okkar og hvernig foreldrar geta fylgst með ýmsum skráningum um námsframvindu, mætingar, þátttöku í viðburðum o.fl. Fundurinn verður þriðjudag 27. feb. kl. 18:00.