Dagur tónlistarskólanna í Stykkishólmi

UntitledNæstkomandi laugardag, 27. febrúar, fögnum við í Stykkishólmi Degi tónlistarskólanna. Dagur tónlistarskólanna hefur verið árviss viðburður hjá tónlistarskólum landsins undanfarin ár og hefur jafnan verið haldinn hátíðlegur í febrúarmánuði.

Tónlistarskóli Stykkishólms hefur tekið þátt í þessum viðburði hin síðari ár og blásið til veglegra tónleika þar sem öllum bæjarbúum og öðrum velunnurum skólans er boðið að koma og hlusta og er aðgangur ókeypis eins og á aðra viðburði skólans. Á tónleikunum skörtum við því flottasta sem verið er að spila og syngja í skólanum á hverjum tíma og heyrast þá tóndæmi úr öllum deildum skólans.
Eftir tónleikana velur skólinn þau atriði sem taka þátt í Nótunni 2016, en svæðistónleikar Nótunnar verða einmitt haldnir hér í Hólminum laugardaginn 12. mars. Tónleikagestir á laugardaginn kemur fá að segja sína skoðun á því hverjir ættu að veljast fyrir okkar hönd á Nótuna með því að kjósa um þau tónlistaratriði sem þeim þykir skara fram úr á tónleikunum. Það atriði sem flest atkvæði hlýtur fer á Nótuna, síðan fá kennarar skólans að velja eitt atriði og skólastjórinn velur svo eitt – eða tvö atriði, eftir því hve mikinn tíma skólinn fær í úthlutun og er þá leitast við að sýna sem mesta fjölbreytni.

Til að gera daginn sem hátíðlegastan hefur foreldrafélag lúðrasveitarinnar tekið að sér að vera með kaffisölu eftir tónleikana og verður þá með sitt rómaða kökuhlaðborð. Ágóði kaffisölunnar rennur í ferðasjóð, en lúðrasveitin stefnir að því að taka þátt í tónlistarhátíð í Scarborough í Englandi í júní. Verð fyrir hlaðborðið er kr. 1.000 fyrir manninn og athugið að EKKI er hægt að taka á móti greiðslukortum.

Við ítrekum að lokum að á tónleikana eru allir hjartanlega velkomnir og enginn aðgangseyrir.

Skólastjóri