Danskir

Screen Shot 2016-08-09 at 10.03.02
Danskir dagar hafa verið haldnir hátíðlegir síðan ég-man-ekki-hvenær. Það skiptir ekki máli. Þeir hafa verið órjúfanlegur hluti af sumrinu í fjöldamörg ár. Einhver laug því að mér að þetta væri elsta bæjarhátíðin en það er líklegast bull. Þjóðhátíð í Eyjum er sönnun þess, sem dæmi.

Dagarnir eru frábær leið til að enda sumarið og keyra sig inn í komandi vetur. Einskonar lokaatriði sumarsins þar sem maður má vaka lengur þrátt fyrir lækkandi sól. Ég hef einungis upplifað hátíðahöldin sem barn og unglingur svo ég tengi þá alltaf við síðasta fjörið áður en skólinn byrjar með öllu sínu skammdegi. Því er alltaf viss sorg þegar þeir klárast. Sólin fer að lækka á lofti – en, þá sér maður flugeldana miklu betur. Það er plús.

Danskir dagar breyta bænum í einskonar fríríki þar sem allt má. Nema að fara á skónum í hoppukastalann. Þar gilda sömu reglur og heima hjá þér. Þú veður ekki inn í hoppukastala á skítugum skónum. En þú mátt vaka frameftir og ef þú hefur náð aldri máttu fá þér aðeins fleiri bjóra en góðu hófi gegnir með samborgurum þínum. Danskir horfa framhjá því og dæma ekki svoleiðis oplevelse.

Vissulega er þessi töfrandi helgi ekki eingöngu algert óhóf og spilling blind. Fallegt og fjörugt mannlíf um allan bæinn yfir allan daginn breytir Hólminum í Lego útgáfu af evrópskri höfuðborg í örskotsstund þar sem fólk spásserar um bíllausa Aðalgötu í sólríku kæruleysi. Allir mættir sem ein heild, eingöngu til að hafa gaman. Eins og það ætti alltaf að vera.
Það eru margar sögur sem skjótast upp í hugann sem gætu fylgt þessum pistli. Sögur sem á einn eða annan hátt tengjast Dönskum dögum. Flestar eru þær þó þess eðlis að þær þyrftu að fara í samþykki hjá svo mörgum aðilum að það tekur því ekki að byrja á þeim. Þær skulu haldast sem munnmælasögur og þróast þannig eins og lög gera ráð fyrir. Þær innihalda líka svo margar ærumeiðingar.
Ein saga skýst þó upp í kollinn. Alls ekki svæsin og svakaleg. Bara nokkuð krúttleg. Aðalpersónurnar eru líka danskar og munu líklegast ekkert lesa þetta.

Þannig var að fyrir nokkrum árum átti aldeilis að sprengja gestastjörnuskalann. Það dugði ekkert minna en að fá tónlistarmann sem nokkru áður hafði sungið sig inn í hjörtu Evrópu til að syngja á Dönskum dögum. Tónlistarmaðurinn var danski Eurovision keppandinn Jakob Sveistrup og sviðið var flutningabíll á grasblettinum á móti gömlu kirkjunni. Þar mætti hann og flutti öll sín frægustu, eða öllu heldur allt sitt frægasta lag. Þetta þótti okkur flott og mætti segja að þetta hafi þótt merkilegra en atriði nokkru áður þar sem enginn annar en Árni Johnsen mætti í brekkusöng.
Helgina eftir Danska daga kom danskur skiptinemi í bæinn og átti að vera fram á næsta sumar. Enn voru bæjarbúar baðaðir stjörnuljómanum sem Sveistrup hafði skilið eftir sig og ræddu fátt annað. Slík var geðshræringin að skreytingar í dönsku fánalitunum fengu að haldast uppi langt fram yfir skilafrestinn. Þess vegna leit það þannig út að allur bærinn hefði tekið sig til og skreytt fyrir komu danska skiptinemans til bæjarins. Við vorum nú fljót að útskýra fyrir henni að þetta væru leifar frá liðinni helgi og þeim yrði nú brátt komið fyrir í viðeigandi geymslum eða rusli. Samt bara almennu rusli því það flokkaði enginn þá. Til þess að upphefja svo Danska daga upp í hæstu hæðir fyrir alvöru Dana tjáðum við henni að fulltrúi hennar í Eurovision hefði mætt. Sumir hefðu jafnvel tekið í höndina á honum og deilt með honum sviði. Viðbrögð hennar voru einföld: “Jakob Sveistrup, hvem er det?”
Venlig hilsen

Gísli S. / Mynd: úr safni Stykkishólms-Póstsins: Danskir dagar 2005.