Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Dr. Erla Björk Örnólfsdóttir forstöðumaður við rannsóknarsetrið við Breiðafjörð

Dr. Erla Björk Örnólfsdóttir hefur verið ráðin í stöðu forstöðumanns við fyrirhugað rannsóknarsetur við Breiðafjörð og tekur hún til starfa í júlí næstkomandi. Hlutverk rannsóknarsetursins er að efla rannsóknir á lífríki sjávar í víðasta skilningi, með megináherslur á vistkerfið í Breiðafirði, til þess að auka þekkingu á vistkerfinu í þeim tilgangi að auka nýtingu auðlindarinnar og arðsemi.

Erla Björk lauk mastersprófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1994 og doktorsprófi í sjárvarlíffræði frá Texas A&M University árið 2002.Undanfarin misseri hefur Erla Björk starfað í Bandaríkjunum við rannsóknir á samfélögum svifþörunga og veira er þá síkja. Um tíma starfaði Erla sem sérfræðingur á Veiðimálastofnun, Reykjavíkurdeild.

Gengið var frá ráðningu Erlu á fundi með undirbúningsnefnd þann 2.mars og eru myndirnar frá því tilefni. Fyrir hönd undirbúningshópsins skrifaði Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar. Stefnt er að formlegri stofnun rannsóknarsetursins í apríl næstkomandi. Að rannsóknarsetrinu standa hagsmunaðilar í sjávarútvegi við Breiðafjörð og víðar.

Nánari upplýsingar gefur Kristín Björg í síma 436 6910.