Einn af hverjum fjórum minkum veiðast

Um rannsóknir á Minkastofni og Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi.

Á [mynd]Snæfellsnesi voru að jafnaði um 800 minkar haustin 2001 og 2002. Þetta eru niðurstöður rannsókna Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi en stofnunin hefur í samvinnu við Háskóla Íslands og veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar staðið fyrir minkarannsóknum síðustu árin með það að markmiði að finna út heildarstærð íslenska minkastofnsins. Mat á stærð minkastofnsins á Snæfellsnesi er mikilvægur áfangi að því lokatakmarki en með þessum upplýsingum er í fyrsta sinn hægt að reikna út veiðiálag á tilteknu svæði. Á Snæfellsnesi var veiðiálag á mink um 25% árin 2002 og 2003. Athyglisvert er að þetta veiðiálag er á svipuðu róli og miðað er við þegar nýta á stofna fugla og spendýra á sjálfbæran hátt. Þessar vísbendingar ásamt því að fjöldi veiddra minka hér á landi hefur vaxið nær samfellt frá því veiðar hófust, benda til að veiðiálagið á íslenska minkastofninum sé ekki nægilega mikið til að hafa neikvæð áhrif á stærð heildarstofnsins milli ára, þótt veiðin hafi vissulega oft staðbundin og tímabundin áhrif til verndunar lífríkis. Niðurstöðurnar voru kynntar á alþjóðlegri vísindaráðstefnu um veiðar á villtum fuglum og spendýrum, sem haldin var í Danmörku í síðustu viku.

 

Stofnstærðarmatið byggir á veiðum og endurheimtum og hófst með prófun á aðferðafræðinni í Skagafirði haustið 2000. Haustin 2001 og 2002 voru síðan veiddir í lífgildrur og merktir samtals 168 minkar á Snæfellsnesi til að meta stærð stofnsins þar. Endurheimtur voru með hefðbundnum minkaveiðum og var góð samvinna við veiðimenn á svæðinu nauðsynleg til þess að vel tækist til. Talið er líklegast að nú hafi allar endurheimtur skilað sér. Um merkilegan áfanga er að ræða því aldrei áður hefur tekist að meta stærð minkastofns á tilteknu landssvæði með vísindalegum aðferðum, hvorki hér á landi né erlendis, enda þykir tegundin sérstaklega erfið viðureignar til stofnstærðarmælingar.

 

Kostnaður ríkis og sveitarfélaga við minkaveiðar árið 2005 nam um 45 milljónum en um einum milljarði króna hefur verið varið til minkaveiða frá því að byrjað var að greiða fyrir veidda minka árið 1939.

 

Róbert Arnar Stefánsson og Menja von Schmalensee, líffræðingar, vinna bæði að minkarannsóknum í samvinnu við Pál Hersteinsson, prófessor við Háskóla Íslands. Þau starfa nú á Náttúrustofu Vesturlands en hófu minkarannsóknir sínar árin 1996 og 1997, fyrst sem hluti rannsóknaverkefna til meistaraprófs við Háskóla Íslands, en nú sem hluti af rannsóknaverkefnum til doktorsprófs við sama skóla. Rannsóknir þeirra miðast m.a. við að afla upplýsinga um og smíða líkan af minkastofninum þannig að unnt verði að skilja betur þá þætti sem stjórna stærð hans. Skort hefur upplýsingar um ýmsa þætti sem nauðsynlegt er að hafa þekkingu á til að geta stjórnað dýrastofni með markvissum hætti, s.s. stofnstærð, náttúruleg afföll og veiðiálag. Í áframhaldandi rannsóknum Náttúrustofunnar verða m.a. samþættaðar upplýsingar um staðbundna stofnstærð minka og erfðasamsetningu, aldursdreifingu, frjósemi og mökunarkerfi minksins til að reikna út stærð minkastofnsins á landsvísu og gera líkan af honum, sem m.a. má nota til veiðistjórnunar.

 

Auk rannsókna á mink stundar Náttúrustofa Vesturlands m.a. rannsóknir á þáttum sem gætu haft áhrif á viðkomu arnarstofnsins í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóla Íslands, rannsóknir á útbreiðslu glókolls á Vesturlandi og vöktun á refum í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Þar að auki sinnir stofnunin umhverfismálum og fræðslu svo eitthvað sé nefnt.