Einstakt ferðalag í Frystiklefanum

Gunnsteinn Sigurðsson
Gunnsteinn Sigurðsson

Föstudaginn 30. des lagði ég leið mína í Frystiklefann að sjá leiksýninguna Journey to the center of the earth. Hér er mín upplifun á sýningunni.

Un er að ræða stærsta verk­efnið sem Frystiklefinn hefur ráðist í. Verkið er byggt á hinni heimsfrægu og klassísku vísindaskáldsögu Jules Verne og innblásið af bíómyndum sem gerðar hafa verið eftir bókinni sem og tónlist. Sagan segir síðan frá ótrúlegum ævintýrum félaganna Ottós og Axels á leið sinni í gegnum Snæfellsjökul og að miðju jarðar. Tekið skal fram að sýningin er öll á ensku enda sameina hér krafta sína fjölþjóð­legur hópur leiklistarfólks.

Burðarhlutverk er í höndum þeirra Kára Viðarssonar, Smára Gunnarssonar, Stepahanie Lewis og Halldóru Unnarsdóttur og skila þau sínum hlutverkum einkar vel. Samleikur þeirra og túlkun er hreint út sagt stórkostlegur og ná þau einstaklega góðu sambandi við áhorfendur og eru mjög trúverðug í sínum hlutverkum.

Allt er einskaklega vel unnið í þessari sýningu. Leikstjórnin hefur krafist mikillar útsjónar­semi í lögn sinni og tekst Árna Kristjánssyni leikstjóra vel upp. Persónusköpun er skýr og nær hann að teikna upp heildræna og skýra mynd milli leikaranna og um leið fá þeir að njota sín í sínum hlutverkum. Eftirektarvert er hvað hlustun á milli leikara er áberandi góð og hvað ímyndunar­ aflið fékk að blómstra.

Leikmyndin er stílhrein, vel úthugsuð og lausnamiðuð og á Francesca Lombardi heiðurinn af því ásamt búningum og leik­munum. Mikil vinna er lögð í þessa þætti sem tekst vel upp og gefur leiksýningunni ævintýra­legan blæ og dulúð. Leikrými er vel nýtt og leikið um allt hús.

Töluvert er um tónlist og myndbrotsýningar í verkinu sem brýtur frábærlega upp stemn­inguna og fær öll tæknivinna mikið hrós fyrir einkar faglega vinnu.

Dansatriðin eru vel útfærð og stílhrein í höndum Jordine Cornish.

Lýsing er öll fagmannlega unnin og hreinlega mögnuð í 2. þætti og fangar þá stemningu sem þarf til að virkja ímyndunaraflið. Ég ætla ekki að ljóstra það upp hér, áhorfendur verða að upplifa það sjálfir.

Sýningin er mannmörg sem er nýlunda í leiksýningu í Frystiklefanum og í henni er stór hópur af börnum og unglingum sem mörg hver eru að stíga sín fyrstu skref á leiksviðið. Óhætt að segja að frammistaða þeirra er frábær og leikgleði þeirra nær að smitast út til áhorfenda hvort sem það er í dans, söng eða leiktúlkun. Og lokaatriðið, vá ég segi ekki meir. Til hamingju krakkar.

Leiksýningin Journey to the center of earth er stórvirki í íslensku leikhúslifi og ætti engin að missa af henni. Hún hefur allt það sem einkennir metnaðarfulla leiksýningu.

Heimsækið Frystiklefann og upplifið flotta, kraftmikla og síðast en ekki síst magnaða leiksýningu.

Þessi sýning á ekkert skilið nema 5 stjörnur. Enn og aftur til hamingju aðstandendur Frystiklefans. Þið svo sannarlega auðgið menningarlífið hér á Snæfellsnesi og megið vera stolt að því. Öll bæjarfélög ættu að eiga einn Frystiklefa.

Takk fyrir mig.

Gunnsteinn Sigurðsson

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli.