Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Eldheitur snitzel!

Ég þakka Hirti nágranna mínum á Skúlagötunni kærlega fyrir áskorunina. Ég elska að búa til mat og elda daglega eitthvað gott fyrir fjölskylduna. Ég elda líka íslenskan mat og finnst gaman að blanda þýskum og íslenskum matarhefðum saman. Við elskum sterkan mat og okkur finnst uppskriftin sem ég ætla að bjóða upp á hérna í Matargatinu virkilega góð og hef ég eldað þennan rétt margoft.

Rétturinn heitir á þýsku Feurig geschmorte schnitzel eða eldheitur, soðsteiktur snitzel á íslensku (lauslega þýtt).

Hér kemur uppskriftin, fyrir 4:

4 sneiðar grísasnitzel

500 g ferskir sveppir

2 laukar

125 g tómatsósa

3 msk. sojasósa

1 msk. tabasco sósa

4 hvítlauksgeirar

Góð lúka af ferskri basilliku. Söxuð eða 3 tsk þurkuð.

2,5 dl rjómi

Salt og pipar eftir smekk

Setjið kjötið í smurt, eldfast form. Ég steiki kjötið stundum fyrst, en það þarf ekki, til þess að spara tímann.  Skerið sveppi og lauk niður í sneiðar og dreifið yfir kjötið. Hrærið hinum innihaldsefnunum saman með og hellið yfir kjötið. Það má líka nota bara teskeið af tabasco ef maður er ekki vanur að borða sterkt eða ef rétturinn er einnig ætlaður fyrir lítil börn. Geymið í 24 klukkustundir inni í ísskáp. Það er æði að undirbúa réttinn daginn áður og henda inn í bakaraofninn á sunnudegi. Hitið ofninn í 200 gráður og setjið álpappír yfir formið áður en það fer inn í ofn. Bakið réttinn í eina klukkustund og síðan í 15 mínútur í viðbót án álpappírs. Ef þið elskið sósur eins og við, má gjarnan tvöfalda sósuuppskriftina.

Meðlæti: Sætkartöflubátar

2 meðalstórar sætar kartöflur

Ólífuolía

Salt og pipar

Paprikuduft

Hvítlauksduft

Tímían

Rósmarín

Afhýðið kartöflurnar og skerið í báta (eða eins ykkur finnst best). Blandið öllu saman við kartöflurnar og setjið í eldfast form og bakið þar til kartöflurnar eru tilbúnar (ca. 30-40 mínútur).

Berið fram með góðu salati, til dæmis með fetaosti, papriku, gúrku, vínberjum og tómötum, allt eftir smekk hvers og eins.

Ég skora á nagranna og kæra samstarfskonu hana Sólveigu Ásgeirsdóttur að koma með einhverja góða uppskrift í næsta Matargat.

Díana