Eldklerkurinn – Gestaleiksýning í Frystiklefanum

Á skírdag kemur Möguleikhúsið í Rif og setur upp leiksýninguna Eldklerkinn. Leiksýningin var frumsýnd á síðasta ári og hlaut mikla aðsókn og frábæra gagnrýni, meðal annars 4 stjörnur frá Jóni Viðari Jónssyni, gagnrýnanda DV sem sagði verkið afburða vel heppnað. Verkið fjallar um Jón Steingrímsson, sem kunnastur er fyrir eldmessuna er hann flutti í miðjum Skaftáreldum. Í verkinu segir frá því hvernig þessi góði bóndi, læknir og prestur tókst á við afleiðingar skelfilegustu náttúruhamfara íslandssögunnar á tímum örbrigðar og undirokunnar. Möguleikhúsið er eitt af elstu, sjálfstæðu leikhúsum landsins og hefur um árabil sett upp sýningar fyrir börn jafn sem fullorðna við góðan orðstír. Verður þetta í fyrsta skipti sem þau koma með sýningu í Frystiklefann.

Sýningin hefst klukkan 20:00 á Skírdag (2. Apríl). Eins og þekkist í Frystiklefanum er ekkert fast miðaverð á sýninguna heldur ráða áhorfendur miðaverðinu sjálfir.

Hægt er að taka frá sæti í síma 8659432 eða með tölvupósti á frystiklefinn@frystiklefinn.is